25.5.2002

Setjum Reykjavík í fyrsta sæti

Morgunblaðið

Laugardaginn 25. maí, 2002
Setjum Reykjavík í fyrsta sæti!Kosningabaráttunni er lokið, kjördagur runninn upp. Við frambjóðendur D-listans höfum gert okkar besta til að kynna stefnu okkar og störf í því skyni að auðvelda kjósendum að taka ákvörðun sína í dag.
Þótt ekki sé flókið að fara á kjörstað og nýta sér lýðræðislegan rétt sinn, getur vafist fyrir mörgum, hvernig það sé best gert. Skoðanakannanir hér í Reykjavík hafa sýnt miklar sveiflur í fylgi og einnig innbyrðis á milli kannana. Það er erfitt að henda reiður á þessu talnaflóði öllu eða túlka það. Frá fyrsta degi hef ég haft að leiðarljósi, að sú könnun, sem skipti máli fari fram 25. maí. Niðurstaðan í henni ræður ein úrslitum.

Við val á borgarfulltrúum er ekki verið að velja einn mann, sem hefur allt vald í hendi sér. Það er verið að velja hóp fólks, sem nær því betri árangri sem það vinnur betur saman. Á vegum borgarstjórnar starfa ráð, nefndir og stjórnir, sem gegna mikilvægu hlutverki, og lúta forystu borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram samhentan lista, sem starfar á grundvelli sameiginlegra hugsjóna og hefur þann metnað, að Reykjavík sé í fyrsta sæti meðal sveitarfélaga í landinu og einnig í alþjóðlegu samstarfi og samanburði.

Við á D-listanum höfum lagt fram skýra stefnuskrá, sem vakti til dæmis áhuga annarra framboða á því að leggja fé úr borgarsjóði til að byggja upp hjúkrunarrými fyrir aldraða. Við fögnum þeim stuðningi, sem komið hefur fram við þessa stefnu okkar síðustu daga úr ólíklegustu áttum. Við höfum lagt fram samning við Reykvíkinga um það, sem við ætlum að gera á næstu fjórum árum, fáum við umboð til þess. Við höfum einnig lagt fram tímasetta áætlun um það, hvernig við ætlum að hrinda einstökum stefnumálum í framkvæmd.

Þegar við ákváðum að hafa kjörorð okkar vegna þessara kosninga: Reykjavík í fyrsta sæti. Byggðum við það á þeirri staðreynd, að hér yrði að gera betur til að Reykjavík stæðist samanburð við önnur sveitarfélög. Eftir því sem liðið hefur á kosningabaráttuna og ég hef hitt fleiri Reykvíkinga á fundum, hef ég sannfærst æ betur um réttmæti kjörorðsins.

Við eigum ekki að una þeirri skuldastefnu, sem mótar fjármálastjórn borgarinnar. Við eigum ekki að una við lengstu biðlistana eftir leikskólaplássi, félagslegu húsnæði og hjúkrunarrýmum. Við eigum ekki að una við skömmtunar- og uppboðsstefnu í lóðamálum. Við eigum að una því að litið sé niður til miðborgar Reykjavíkur. Við eigum ekki að una því að vilji íbúa í einstökum hverfum sé að engu hafður við skipulag á nýjum reitum innan þeirra. Við eigum ekki að una því að óánægja með félagslega þjónustu sé mest í Reykjavík. Við eigum ekki að una tvöföldu umhverfisslysi með eyðileggingu Geldinganess.

Við snúum þessu öllu til betri vegar með því að kjósa D-listann í dag. Við tryggjum einnig með því, að holræsaskatturinn hverfur á kjörtímabilinu og fasteignaskattar á eldri borgara og öryrkja stórlækka. Með atkvæði við D-listann styrkjum við innviði leikskóla og grunnskóla og stuðlum að því að þeir starfi í nánum tengslum við borgarbúa með virkri þátttöku þeirra.

Það var stórt skref fyrir marga frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að bjóða sig fram til borgarstjórnar. Ekkert okkar í þeim góða hópi sér eftir því skrefi vegna þess hve kosningabaráttan hefur verið ánægjuleg og ný kynni við þúsundir borgarbúa hafa gefið okkur mikið. Þessi tengsl munum við leggja okkur fram um að rækta á komandi kjörtímabili með hag allra Reykvíkinga að leiðarljósi.

Fyrir hönd okkar frambjóðenda D-listans færi ég þakklæti fyrir þann góða hug, sem við höfum mætt. Við erum stolt af stefnu okkar og leggjum hana hiklaust í dóm kjósenda. Við munum ekki bregðast trausti þeirra, sem veita okkur brautargengi.