14.5.2002

Eflum innra starf leikskólanna
Morgunblaðið
Þriðjudaginn 14. maí, 2002 -
Eflum innra starf leikskólanna


Á SÍÐUSTU átta árum hafa orðið miklar breytingar á stöðu leikskólans innan íslenska skólakerfisins. Hinn 19. maí árið 1994 samþykkti alþingi lög um leikskóla, þar sem segir í fyrstu grein: Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Er þá miðað við 1. september það ár sem börnin verða 6 ára. Leikskóli annast í samræmi við lög þessi að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.
Síðan hefur skipulag og þróun leikskólanna í landinu tekið mið af þessum lögum. Hinn 1. júlí 1999 tók fyrsta aðalnámskrá leikskóla gildi og fylgdi ég henni úr hlaði meðal annars með þessum orðum:

"Leikskólinn er fyrsta skólastigið og lengi býr að fyrstu gerð. Með nýrri aðalnámskrá fyrir leikskóla, hinni fyrstu sem gefin er út á Íslandi, er umhyggjan fyrir barninu höfð að leiðarljósi.

Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja leikskólastigið. Menntun leikskólakennara er nú öll á háskólastigi og meðal þeirra ríkir mikill metnaður til að gera góða leikskóla enn betri. Hið sama á við um fjölmarga aðra starfsmenn leikskólanna. Frá upphafi hafa þeir lagt ómetanlegan skerf af mörkum við mótun og þróun leikskólans. Þá reynslu og þekkingu ber að nýta eins og kostur er."


Karlagrobb
Í þessum anda er stefna okkar á D-listanum í málefnum leikskólanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor mótuð. Við horfum til framtíðar og teljum síðustu átta ár ekki frekar marka tímamót í leikskólasögu Reykjavíkur en annarra sveitarfélaga. Borgaryfirvöld hafa einfaldlega unnið að málefnum leikskólans á grundvelli gildandi laga, aðalnámskrár og annarra opinberra reglna. Við sjáum einnig, þegar litið er til fjárveitinga til mannvirkjagerðar í þágu leikskólanna, að á síðustu fjórum árum hefur verið varið svipaðri fjárhæð til leikskólabygginga á sambærilegu verðlagi og sjálfstæðismenn vörðu á síðustu fjóru árunum, sem þeir fóru með stjórn Reykjavíkur fram að 1994, eða samtals rúmlega 1.300 milljónum króna hvort tímabilið.
Það er dæmigert karlagrobb, þegar R-listinn hrósar sér af því að hafa staðið sig einstaklega vel í málefnum leikskólanna í Reykjavík. Þvert á móti er staðan hér verri en í þeim sveitarfélögum, þar sem sjálfstæðismenn eru í meirihluta og biðlistum eftir leikskólaplássum hefur verið eytt. R-listinn blekkti kjósendur árið 1994 með loforðum um að eyða þessum biðlistum á fyrsta kjörtímabili sínu, honum hefur ekki enn tekist það í lok annars kjörtímabilsins, rúmlega 1.800 börn voru á biðlistum eftir leikskólaplássi í Reykjavík um síðustu áramót.


Samstarf á milli skólastiga
Sigurrós Þorgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hefur verið formaður leikskólanefndar bæjarins á þessu kjörtímabili og fjallar um málefni leikskólans í Kópavogi hér í blaðinu síðasta laugardag meðal annars með þessum orðum:
"Samvinna milli leik- og grunnskóla hefur stöðugt verið að aukast. Á síðasta ári var settur á laggirnar samvinnuhópur þar sem í eiga sæti verkefnastjórar úr þremur leikskólum og einum grunnskóla. Verkefnastjórarnir hafa unnið að því að auka samstarf milli leik- og grunnskóla fyrir 5 ára börn. Hugmyndin að baki þessu tilraunaverkefni er að koma á skipulagðri og markvissri samvinnu þessara skólastiga með þarfir barnanna í huga. Tilraunin felur m.a. í sér að 5 ára börn fái markvissa kennslu í gegnum leik í undirbúningi fyrir lestur, stærðfræði og tölvuþjálfun. Með þessari samvinnu gæti e.t.v. hluti af námsefni 1. bekkjar grunnskóla færst yfir í leikskóla. Niðurstöður þessa tilraunaverkefnis verða síðan kynnt í öllum leik- og grunnskólunum sem síðan geta nýtt sér þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið."


Skýr stefna D-listans
Það er í ljósi starfs af þessu tagi, sem ber að skýra eftirfarandi setningu í kosningastefnuskrá D-listans í Reykjavík: "Við ætlum að þróa betur samstarf leik- og grunnskóla og hefja tilraun með það að heimila 5 ára börnum að fara í grunnskóla." Þá er jafnframt ástæða til að vekja athygli á þessum setningum í stefnu okkar: "Við ætlum að efla innra starf leikskólanna með því að bjóða þar valfög sem tengjast listsköpun, hreyfingu, tjáningu eða öðru með því að hefja undirbúningskennslu í grunnfögum á síðasta ári leikskólans. Við ætlum að tryggja faglega samfellu á milli leik- og grunnskólastigsins til þess að upplýsingar um sértæka námsörðugleika nemenda flytjist með nemendum á milli skólastiga."
Hlýtur að vekja undrun fleiri en okkur, sem höfum mótað þessa stefnu, að hún skuli túlkuð á þann veg, að þar sé dregið í efa, að innan leikskólans sé unnt að sinna vel öllum börnum, sem eiga rétt til uppeldis og náms innan hans. Þá er það ekki nýmæli, að 5 ára börn setjist í grunnskóla, að minnsta kosti ekki í Reykjavík. Við teljum, að það eigi að vekja umræður um þetta efni með kynningu gagnvart foreldrum, svo að þeir geti ekki síður en fagfólk mótað sér skoðun á því, hvað börnum er fyrir bestu í þessu efni. Við hikum ekki við að nefna grunnskólann í tengslum við markvisst tilraunastarf í þessu skyni, þegar um það er að ræða að tengja betur fyrstu tvö skólastigin og byggja brýr á milli þeirra.

Metnaðarfull stefna um innra starf ræður ferð D-listans í málefnum leikskólanna. Við ætlum einnig að efla dagforeldrakerfið fyrir yngstu börnin með auknum sveigjanleika og skilvirkara eftirliti. Þá viljum við tryggja öllum leikskólabörnum sama styrk frá borginni hvort sem þau dvelja á einkareknum eða borgarreknum leikskólum.

Burt með biðlista á leikskólum, sem verði opnir öllum börnum 18 mánaða og eldri!