15.5.2002

Veikburða málsvörn fyrir R-listann

--------------------------------------------------------------------------------


Morgunblaðið.Miðvikudaginn 15. maí, 2002 -
Veikburða málsvörn fyrir R-listann


Málsvörn R-listans í kosningabaráttunni hér í Reykjavík, segir Björn Bjarnason, tekur á sig ýmsar skringilegar myndir.
Björn Bjarnason


MÁLSVÖRN R-listans í kosningabaráttunni hér í Reykjavík tekur á sig ýmsar skringilegar myndir. Þrjú dæmi um það mátti sjá á síðum Morgunblaðsins í gær.
Í fyrsta lagi er því mótmælt í lesendabréfi, að vond lykt sé í miðborginni, og mitt nafn tengt yfirlýsingu um það efni. Vegna þess vil ég taka fram, að ég hef ekki fjallað um þetta sérstaka stórmál í kosningabaráttunni, þótt ég hafi drepið á margt í málflutningi mínum. Mig minnir, að þeir hafi helst kvartað undan vondri lykt, sem hafa haft horn í síðu Faxamjöls.


Myndir í auglýsingum
Í öðru lagi fer eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur orðum um þá auglýsingu okkar sjálfstæðismanna, sem sýnir með grafískum hætti hvernig hreinar skuldir borgarinnar hafa vaxið úr rúmum 3 milljörðum króna í 34 milljarða á átta árum. Þeirri staðreynd er ekki mótmælt, enda engar forsendur til þess, en hins vegar er farið mörgum orðum um það, hvernig eigi að lýsa þessari gífurlegu hækkun með súluritum í samanburði við Ráðhúsið. Ef stuðningsmenn R-listans finna huggun frá umræðum um hina alvarlegu skuldastöðu Reykjavíkurborgar í vangaveltum um súluritin í auglýsingum okkar er ekkert við því að segja. Hugleiðingarnar breyta hins vegar engu um efni málsins og enn síður lækka þær skuldirnar.

Úr því að gerð auglýsinga ber á góma væri ekki úr vegi að vísindasagnfræðingurinn skoðaði auglýsingu R-listans um Geldinganesið. Þar er birt mynd af suðurhlíð þess en sett skyggna yfir gjána, sem mynduð hefur verið með 250 þúsund rúmmetra efnistöku úr nesinu. Þessi mynd minnir á vinnubrögðin, sem stunduð voru í Sovétríkjunum á sínum tíma, þegar Kremlverjar vildu blekkja með röngum ljósmyndum. Undir myndina setur R-listinn síðan af alkunnri hógværð og virðingu fyrir sannleikanum orðin: Rétt skal vera rétt.


Húsaleigubætur
Í þriðja lagi fer Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fram á ritvöllinn og rifjar upp, að þær Guðrún Ögmundsdóttir hafi flutt frumvörp á alþingi, þar sem komið sé til móts við hóp þess fólks, sem býr við verstar aðstæður á leigumarkaði en fær ekki húsaleigubætur.
Ég hef ekki skipt um skoðun varðandi húsaleigubætur heldur er ég að ræða um rétt fyrir fólk, sem á að mínu mati undir högg að sækja. Frumvörp þeirra Ástu Ragnheiðar og Guðrúnar ganga of skammt. Ásta Ragnheiður hefur væntanlega séð það í Morgunblaðinu undanfarið, að Páll Pétursson félagsmálaráðherra hefur skipt um skoðun í þessu máli, eftir að hann gagnrýndi mig fyrst fyrir afstöðu mína. Ég hef hins vegar ekki séð, að Helgi Hjörvar, borgarfulltrúi R-listans, hafi horfið frá því sjónarmiði sínu, að hér beri frekar að miða við reglur á Norðurlöndum en ástandið á leigumarkaði í Reykjavík.

Ef Ásta Ragnheiður ber hag hinna verst settu á leigumarkaði í raun fyrir brjósti er leiðin til þess ekki að gera afstöðu mína tortryggilega. Kannski fylgir ekki annar hugur máli hjá henni en að koma höggi á pólitískan andstæðing? Kemur það í sjálfu sér ekki á óvart eftir sífelld upphlaup hennar á alþingi, sem spilla hverju málinu eftir öðru. Málstaður þeirra, sem standa verst gagnvart húsaleigubótakerfinu, á vissulega betri málsvara skilið en Ástu Ragnheiði.

Enn get ég ekki sleppt því, þegar ég ræði húsaleigubætur, að vekja athygli á því, að í afrekaskrá R-listans, sem dreift var til Reykvíkinga, stendur þessi setning: "Gamalt baráttumál um afnám tekjuskatts af húsaleigubótum náðist einnig fram." R-listinn átti enga hlutdeild í því að þetta mál náði fram heldur beitti ríkisstjórnin sér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Að skreyta sig með fjöðrum annarra hefur aldrei þótt stórmannlegt.


Sölunefnd Alfreðs
Í lokin vil ég vekja athygli á því, að sölunefnd Alfreðs Þorsteinssonar á vegum Reykjavíkurborgar er enn að störfum. Öllum er kunnugt um það, hvernig hún hefur unnið að því að selja Perluna. Nú er okkur sagt, að sala á Línu.neti sé á næsta leiti, en þegar betur er að gáð kemur í ljós að það verður kannski ekki fyrr en "undir haustið eða næsta vetur". Átti ekki að vera búið að selja Perluna fyrir kosningar?