22.1.2016

Brugðist við vopnaskaki Rússa í Norður-Evrópu

Morgunblaðsgrein 22. janúar 2016


Á níunda áratugnum var deilt var um eldflaugar í miðhluta Evrópu en breytingar á herafla eða skipulagi hans vöktu hvorki óvissu né ótta hjá stjórnendum Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar. Öllum var ljóst hver umgjörðin var. Finnar voru með vináttusamning við Rússa, Svíar stóðu utan hernaðarbandalaga. Fráleitt var að ímynda sér að þessar þjóðir stofnuðu til formlegs varnarsamstarfs við NATO-ríki, því síður við NATO sjálft.


Staðan var óljósari á hafinu í nágrenni Íslands. Sovétmenn lögðu kapp á að efla úthafsflota sinn, einkum á Kóla-skaga fyrir austan Noreg. Herskip, kafbátar og flugvélar sóttu út á hafið. NATO dró varnarlínu frá Grænlandi um Ísland til Skotlands, GIUK-hliðið. Starfsemi Bandaríkjahers í Keflavíkurstöðinni jókst á níunda áratugnum með endurnýjun tækja og mannafla. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti staðfesti nýja flotastefnu. Átti hún þátt í að sovéska herveldið hrundi – í raun eins og spilaborg að lokum.

Rússar hafa í nokkur ár notið góðs af háu hráolíu- og gasverði og sótt í sig veðrið hernaðarlega. Þeir vildu hindra náið samstarf milli Úkraínu og ESB á árinu 2013 og beittu til þess skjólstæðingum sínum við stjórnvölinn í Kænugarði.  Þeir hröktust loks frá völdum vegna mótmæla og uppljóstrana um spillingu. Í mars 2014 urðu þáttaskil þegar Rússar innlimuðu Krímskaga þvert á fyrirheit frá 1994 um að virða landamæri Úkraínu. Alþjóðalög voru brotin og uppbrot varð í öryggismálum Evrópu.

Um tildrög og tilefni þessa uppbrots geta menn deilt. Afleiðingarnar blasa á hinn bóginn við öllum. Hér verður drepið á birtingarmynd þeirra í Norður-Evrópu.

Hervæðing Rússa

Fyrir tæpum tveimur vikum tilkynnti Sergej Sjojgu, varnarmálaráðherra Rússa, að þremur nýjum herdeildum – allt að 30.000 mönnum – yrði komið fyrir á vestur herstjórnarsvæði Rússa sem liggur að Finnlandi, Eystrasaltsríkjunum og Úkraínu. Í þessu felst að til sögunar koma nýjar herstöðvar, æfingasvæði og vopnabúr í vesturhluta Rússlands. Að auki verða settar niður fimm nýjar kjarnorku-hersveitir á sömu slóðum og verða þær virkar fyrir lok árs 2016.

Stjórnir Eystrasaltsríkjanna og Póllands hafa óskað eftir að bandarískur herafli undir merkjum NATO verði í löndum sínum. Þessum óskum hefur verið svarað með flutningi þungavopna til landanna og nýjum, fámennum herstjórnarstöðvum auk viðbragðsliðs undir stjórn NATO.

Viðbrögð Finna og Svía

Forsætisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar, Juha Sipilä og Stefan Löfven, gripu til þess einstæða ráðs 10. janúar  að birta sameiginlega grein til að gera þjóðum sínum grein fyrir nánari hernaðarsamvinnu ríkjanna kæmi til hættuástands. Þeir sögðu að nú steðjaði mesta hætta að öryggi Evrópu frá því í kalda stríðinu og boðuðu enn nánari samvinnu ríkjanna í varnarmálum.

Forsætisráðherrarnir sögðu Finna og Svía geta staðið saman andspænis hættum og vopnuðum átökum framtíðarinnar tækju stjórnvöld hvors lands um sig nauðsynlegar pólitískar ákvarðanir til að tryggja að þannig yrði að málum staðið.

„Stigin hafa verið mikilvæg skref nýlega til að styrkja varnarsamstarf Finna og Svía. Það nær nú til sameiginlegra æfinga, aukinnar upplýsingamiðlunar og sameiginlegra afnota af höfnum og flugvöllum hvors annars,“ sögðu forsætisráðherrarnir og að staða ríkja þeirra utan hernaðarbandalaga væri „mjög trúverðug“. Finnar og Svíar kysu að rækta öryggisstefnu sína til langs tíma í anda gagnkvæmrar samvinnu og sífellt nánari tengsla.

Á tíma kalda stríðsins hefði þótt óhugsandi að leiðtogar Svía og Finna skrifuðu grein af þessum toga. Bæði ríkin lögðu áherslu á öflugar eigin varnir en jafnframt pólitíska sérstöðu. Nú eru varnirnar veikari heldur en á þeim tíma en pólitíska samstaðan meiri.

Svíar tengjast NATO

Fjórum dögum eftir að þessi grein forsætisráðherranna birtist, fimmtudaginn 14. janúar, rituðu Peter Christensen, varnarmálaráðherra Dana, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, undir tvíhliða varnarsamning milli ríkjanna.

Danski ráðherrann áréttaði pólitískt gildi þess að ríkin sýndu sameiginlegan vilja til að „gæta Eystrasalts“ auk þess auðveldaði samningurinn dönskum orrustuvélum á leið í veg fyrir óþekktar flugvélar að sinna skyldum sínum, þær hefðu nú heimild til að fljúga yfir Suður-Svíþjóð án þess að óska fyrirfram í hverju tilviki um leyfi til þess. Þá fengju sænsk herskip meira athafnarými en áður til dæmis í nágrenni Borgundarhólms.

Christensen sagði fleiri norræn ríki geta gerst aðilar að þessu samkomulagi til dæmis Finnar. Danir færu í ár með formennsku í Nordefco, samstarfsvettvangi Norðurlanda um varnarmál, og þar yrði málið rætt við norræna vini.

Danski ráðherrann vildi ekki segja neitt um hvort túlka ætti samninginn sem skref Svía í átt til NATO. Á þann veg er hins vegar óhjákvæmilegt að túlka gistilandssamning Svía við NATO sem sænska þingið tekur brátt til meðferðar.

Peter Hultqvist hvetur til þess að samningurinn við NATO verði staðfestur ásamt nauðsynlegum breytingum á sænskum lögum enda styrki hann samstarfið við NATO sem nú hvílir á samningi frá árinu 1995. Nýi samningurinn gerir meðal annars ráð fyrir samstarfi á ófriðartímum.

Hultqvist segir að Rússar standi að baki lygaherferð um efni samstarfs Svía við NATO, til dæmis um að það leiði til flutnings kjarnorkuvopna til Svíþjóðar eða að Svíar verði skyldaðir til að hafa herafla undir merkjum NATO í landi sínu. Sagði ráðherrann að áróður og blekkingar væru fjórði þátturinn í hernaðarstefnu Rússa við hlið landhers, flughers og flota. Honum væri nú beitt gegn Svíum.

Samstöðuyfirlýsingar Finna, Svía og Dana eru hluti af heildarviðbrögðum við vopnaskaki Rússa gagnvart Norður-Evrópuríkjum.

Óvissa í stað stöðugleika

Sé staðan nú borin saman við það sem var fyrir rúmum 30 árum má segja að nú ríki óvissa í stað stöðugleikans sem þá var í Norður- og Mið-Evrópu. Ástandið í þessum hlutum Evrópu minnir nú á stöðuna á Norður-Atlantshafi áður en Bandaríkjamenn tóku af skarið á níunda áratugnum til dæmis með endurnýjun og eflingu Keflavíkurstöðvarinnar.

Eitt er að ríki gefi pólitískar yfirlýsingar um samstarf annað að því sé fylgt eftir á trúverðugan hátt. Það gerist ekki í Norður-Evrópu nema með virkri þátttöku Bandaríkjamanna. Hún krefst meðal annars öryggis og yfirráða á Norður-Atlantshafi og þar kemur Ísland inn í myndina. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra Norðurlanda og NATO að tengingar við Bandaríkin séu skýrar og öruggar. Nú eins og áður er Ísland tengipunktur.