11.5.2002

Til móts við hagsmuni aldraðra

Til móts við
hagsmuni aldraðra.
Morgunblaðsgrein 12. maí


Fundir með eldri borgurum í Reykjavík undanfarna daga og vikur hafa verið mjög ánægjulegir og gefandi. Er ljóst, að stefna okkar sjálfstæðismanna um að stórlækka fasteignaskatta á þá, sem eru 67 ára og eldri og öryrkja, mælist vel fyrir í þessum hópi. Fólk á erfitt með að skilja, hvers vegna andstæðingar okkar leitast við að gera þessa stefnu okkar tortryggilega með tali um aðra hluti og án þess að hafa sjálfir nokkuð til mála að leggja, sem kemur með jafnskýrum hætti til móts við hagsmuni þessa fjölmenna hóps fólks.

Tölfræði um aldraða segir sitt um aðstæður þessa hóps, en nú eru um 32 þúsund Íslendingar í honum. Ef við lítum á heimilisaðstæður þeirra, sem eru á aldrinum 65 til 80 ára búa ríflega 91% í eigin húsnæði. Þess vegna skiptir mjög miklu, hvernig sveitarfélög koma til móts við eldri borgara með skattheimtu á heimili þeirra.

Heimaþjónusta

Stefna okkar sjálfstæðismanna er að auðvelda eldri borgurum að búa í eigin heimilum og hún tekur mið af raunverulegum aðstæðum. Til að þessi stefna beri góðan árangur er einnig nauðsynlegt að huga að heimaþjónustu við eldri borgara og aðra, sem á slíkri þjónustu þurfa að halda.

Þótt það hafi verið rætt í ár og áratugi að sameina þá heima- og heimilisþjónustu, sem er veitt undir merkjum félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og á vegum heilbrigðiskerfis ríkisins, hefur það ekki enn tekist. Slík sameining má ekki stranda á því, að verkefnin falla annars vegar undir sveitarfélagið og hins vegar ríkið, heldur eiga hagsmunir þeirra, sem njóta þjónustunnar að ráða. Ber að setja sér það sem markmið og finna skynsamlega leið að markinu.

Ferðaþjónusta fatlaðra veitir hópi fólks ómetanlega aðstoð. Er nauðsynlegt að búa vel að henni, svo að bifreiðar séu ávallt þannig, að unnt sé að veita sem besta þjónustu og öryggi.

Skýr stefnubreyting

Síðustu átta árin, sem sjálfstæðismenn fóru með stjórn Reykjavíkur fyrir 1994, var varið um 3600 milljónum króna til þess að reisa þjónustuíbúðir og hjúkrunarrými fyrir eldri borgara. Á átta árum R-listans hefur 600 milljónum króna verið varið til þessa málaflokks og kyrrstaða og doði tekið við af framtaki og frumkvæði.

Kosningastefna okkar sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir því, að á næstu fjórum árum verji Reykjavíkurborg sérstaklega 1000 milljónum króna til að reisa hjúkrunarrými fyrir aldraða í borginni. Með því er ekki aðeins verið að bæta úr brýnni þörf fyrir þennan hóp heldur stuðla að því, að létta undir með sjúkrahúsum og eyða biðlistum þar.

Við eigum ekki að sætta okkur við það lengur, að bæði yngstu og elstu borgarar Reykjavíkur séu á biðlistum eftir eðlilegri þjónustu. Eyðum biðlistum og setjum Reykjavík í fyrsta sæti.

Þetta kjósendur gert með því að veita okkur á D-listanum stuðning í kosningunum 25. maí.