7.5.2002

Við luktar dyr

Við luktar dyr
Morgunblaðsgrein 7. maí 2002

----------------------

Morgunblaðið birti frétt um það síðastliðinn sunnudag, að um 300 manns af 650, sem hafa sótt um húsnæði hjá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, „geti varla beðið lengur eftir húsnæði“ eins og það er orðað. Starfsmenn félagsþjónustunnar segja ekki beint hægt að segja þennan hóp fólks á götunni – hann er samt skráður húsnæðislaus, þar sem hann á ekki öruggt heimili.

Þessar tölur koma þeim ekki á óvart, sem hefur undanfarið hitt þúsundir Reykvíkinga á fundum víðsvegar um borgina og skipst á skoðunum um brýn viðfangsefni við stjórn borgarinnar. Húsnæðisvandann ber víða á góma.

Of dýrt húsnæði

Dæmið úr Grafarholti er ekki til fyrirmyndar. Margir verktakar, sem þar eru að byggja glíma við mikinn vanda, ekkert selst og menn sitja uppi með ónotað húsnæði og háan vaxtakostnað, sem er að sliga marga. Meginástæðan fyrir lítilli sölu er sú, að verðið á húsnæðinu er of hátt vegna þess hve lóðirnar voru seldar dýrt. Lóðaskorturinn í Reykjavík knúði menn til yfirboða og þeir eru nú að súpa seyðið af því. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svarar gagnrýni á þann veg, að almenn ánægja sé með þetta fyrirkomulag og verktakar geti bara minnkað hjá sér hagnaðinn.

Í samtölum við þá, sem vel þekkja til mála, hefur komið fram, að í 5 ár hafi lóðarverð í Kópavogi hækkað mjög lítið. Á sama tíma er R-listinn að réttlæta uppboð á lóðum undir par-, rað- og einbýlishús fyrir margfalt verð í samanburði við Kópavog.

Þegar rætt er um þennan þátt húsnæðismálanna, lóðaskortinn, skömmunarstefnuna og uppboðsleiðanna til að skýra hluta af hinum mikla vanda í húsnæðismálum Reykvíkinga, rýkur R-listafólkið upp á nef sér og fer að tala um ríka fólkið. R-listastefnan í húsnæðismálum hefur hins vegar leitt það af sér, að hvorki ríkir né þeir, sem hafa minna fé á milli handanna, telja hag sínum í húsnæðismálum best borgið í Reykjavík.

Hlutur hinna verst settu

Samanburður á afstöðu fólks til félagslegrar þjónustu sýnir, að óánægja með þennan þátt í starfi sveitarfélaga er mun meiri hér í Reykjavík en í Garðabæ, Kópavogi eða á Seltjarnanesi, svo að dæmi séu tekin. Þrátt fyrir mikinn stærðar- og tekjumun hefur Reykjavíkurborg ekki tekist að sinna þessari þjónustu á viðunandi hátt, ef draga má lærdóm af könnunum fræðimanna.

Vandinn felst í því, að ekki er komið til móts við borgarana með nægilega skilvirkum hætti. Það er til dæmis ekki áhugi á því hjá forystumönnum R-listans, að vinna að breytingum á húsaleigubótakerfinu á þann veg, að það taki mið af þörfum þess vaxandi hóps Reykvíkinga, sem býr í herbergi án eldunaraðstöðu eða snyrtingar. Afstaða Helga Hjörvars, talsmanns R-listans í þessum málaflokki, er á þann veg, að frekar beri að taka mið af norrænum reglum en því, sem er hér í Reykjavík – það eigi með reglum um húsaleigubætur að knýja fólk til að búa í húsnæði, sem reglurnar viðurkenna.

Því miður er Páll Pétursson félagsmálaráðherra ekki málefnalegri í afstöðu sinni eins og henni er lýst í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Vandi þessa fólks verður ekki leystur með því að ásaka mig fyrir að segja húsaleigubótakerfið bregðast þeim Reykvíkingum, sem verst eru settir bæði fjárhagslega og vegna húsnæðisskorts. Er unnt að líta á þennan vanda, án þess að huga að öryggisneti velferðarkerfisins?

Ný stefna D-listans

Stefna R-listans í lóða- og húsnæðismálum leiðir til þess, að bæði þeir, sem vilja byggja, og hinir, sem búa við þröngar aðstæður, eru í sömu sporum. Þeir koma að luktum dyrum vegna skorts á vilja og skilningi til að leysa húsnæðisvandann. Þessu verður að breyta.

Í stefnu okkar, sem skipum D-listann í kosningunum 25. maí segir: Við ætlum að tryggja nægar lóðir í borginni fyrir fólk og fyrirtæki og afnema lóðauppboð. Við viljum fara sömu leið og gert var 1982, þegar með stórhuga hætti var lagður grunnur að Grafarvogshverfinu. Við ætlum að haga gatnagerðargjöldum eða söluverði lóða í samræmi við kostnað borgarinnar við gerð byggingarsvæða.

Við ætlum að leysa húsnæðisvanda þeirra, sem búa í dag við óviðunandi aðstæður og eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Þetta er skýrt markmið og að því verður að sjálfsögðu meðal annars unnið í samræmi við þær reglur, sem gilda um Íbúðalánasjóð. Að segja, að réttur Reykvíkinga til nýta sér lán úr þessum opinbera sjóði, brjóti gegn því stefnumiði D-listans að stöðva skuldasöfnun R-listans, er enn til marks um rakalausan málflutning andstæðinga okkar, sem miðar að því að gera sem minnst úr óða-skuldasöfnuninni um þessar mundir. Það þarf að taka húsnæðisvandann nýjum tökum. Við hljótum að taka mið af stöðu húsnæðismála í Reykjavík og leysa vandann með hag borgarbúa að leiðarljósi.