30.4.2002

Tilbúnar tölur í stað málefna.

Tilbúna tölur í stað málefna
Morgunblaðið 30. apríl 2002.


VIÐ sjálfstæðismenn höfum kynnt stefnuskrá okkar og samning við Reykvíkinga á grundvelli hennar. Með samningnum heitum við að framkvæma það, sem í honum stendur, fáum við meirihluta atkvæða í kosningunum 25. maí. Hver einstakur kjósandi getur skuldbundið okkur með atkvæði sínu. Skýrara fyrirheit er ekki unnt að gefa og ríkari skuldbindingu.

Nú hefði mátt ætla, að andstæðingar okkar á R-listanum tækju mið af þessu, þegar þeir kynntu mál sín fyrir kjósendum. Flestir væntu þess, að þeir reyndu að gera betur en við, nógu langan tíma tók að minnsta kosti að undirbúa stefnuskrá þeirra, sem kynnt var sumardaginn fyrsta. Þegar stefna R-listans er lesin er hins vegar erfitt að greina á milli aðal- og aukaatriða auk þess sem þar er að finna margnota loforð, sum allt frá 1994. R-listinn hefur því haft átta ár til að framkvæma þessi loforð og viðurkennir í raun virðingarleysi sitt fyrir eigin orðum með því að koma fram með þau nú óefnd í þriðja sinn.


Flótti í talnaleik
Þegar ræða á hin ólíku stefnumið D-listans og R-listans forðast andstæðingar okkar að ræða einstök mál og kjósa þess í stað að búa til tölur um kostnað við okkar stefnu og eru þær á bilinu 10 milljarðar til 25 milljarðar króna eftir því við hvaða R-listaframbjóðanda er rætt. Eftir að þessum tilbúnu tölum er slegið fram er þess síðan krafist af okkur, að við sýnum fram á, hvernig við ætlum að útvega fjármuni til að framkvæma þetta hugarfóstur R-listans!
Málefnasnauðari framgöngu í stjórnmálabaráttu er ekki unnt að ímynda sér en þessa talnaleiki R-listans. Þeir skila kjósendum að sjálfsögðu engu, enda er tilgangurinn með þeim að beina athygli frá hinum raunverulegu ágreiningsmálum: baráttunni gegn biðlistunum, stöðvun skuldasöfnunar borgarinnar, vörn gegn umhverfisslysunum í Geldinganesi og við Eiðisgranda og endurreisn miðborgarinnar, svo að nokkur séu nefnd.

Öll vitum við, að meðferð fjármála fer eftir því, hver á heldur. Tveir einstaklingar með sömu tekjur komast af með mismunandi hætti, annar stofnar til skulda en hinn leggur fyrir. Þetta á ekki síður við, þegar rætt er um ráðstöfun opinberra fjármuna, sem sóttir eru í vasa okkar skattgreiðenda. Einmitt í þessu efni skilur á milli sjálfstæðismanna og vinstrisinna, hvort heldur litið er til fjármála ríkisins eða Reykjavíkurborgar.

Undanfarin góðærisár hefur ríkissjóður létt af sér skuldaböggum og jafnframt hefur ríkisstjórnin lækkað skatta. Á sama tíma hefur Reykjavíkurborg R-listans hækkað skatta og jafnframt aukið skuldabaggana. R-listinn gat meira að segja ekki unnt Reykvíkingum þess að njóta til fulls skattalækkunar ríkisstjórnarinnar heldur þurfti að hrifsa hluta af henni til sín.

Það er þessi mælistika, sem kjósendur eiga að nota til að átta sig á því, hverjum er best að trúa fyrir atkvæði sínu í kosningunum og fjármunum sínum að þeim loknum. Hún er að minnsta kosti öruggari en upphrópanir R-listaframbjóðendanna um, hvað kosningastefnuskrá okkar sjálfstæðismanna kostar. R-listinn hefur enga annan áhuga á kostnaði við stefnuskrá okkar en gefa ranghugmyndir um hann. Síst af öllu mundi ég treysta R-listanum til að framkvæma stefnu okkar með hagsýni að leiðarljósi.


Kostnaður - auknar tekjur
Það er rangt, að kostnaðarmat sé að finna í stefnuskrá R-listans. Þar er ekki að finna neinar fjárhæðir.
Í stefnuskrá okkar segjum við á D-listanum, að á næstu fjórum árum ætlum við að verja 250 milljónum kr. á ári til að auka hjúkrunarrými í Reykjavík. Við ætlum að stórlækka fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja og kostar það um 220 milljónir kr. á ári, þá ætlum við að fella holsræsaskattinn, sem er 860 milljónir króna, niður í áföngum á kjörtímabilinu. Við höfum aldrei vikist undan þessum tölum en höfnum reiknikúnstum R-listans.

Við gefum fyrirheit um að auka tekjur Reykjavíkur með því að laða hingað fólk og fyrirtæki. Við lítum ekki á landbrot fyrir nýja íbúa sem kostnaðarsama áþján heldur tækifæri. Við viljum skapa fyrirtækjum betri starfsaðstæður í Reykjavík.

Við ætlum ekki að verja þremur til fjórum milljörðum króna til að eyðileggja Geldinganesið heldur viljum við, að þar fái um 10.000 manns heimili sitt.

Við ætlum ekki að halda áfram að auka rekstrarkostnað Reykjavíkurborgar með nýjum milliliðum og sífellt lengri boðleiðum. Slíkir stjórnarhættir hækka ekki aðeins rekstrarútgjöld á kostnað skattgreiðenda heldur valda borgurunum beinum útgjöldum og vaxandi óánægju.

Kostir í kosningunum hafa skýrst enn frekar síðustu daga. R-listinn heldur áfram fjármálaleikfimi sinni en forðast málefni. D-listinn býður borgarbúum að gera við sig samning um skýr mál og markmið.