20.4.2002

Skólinn nær foreldrum

Skólinn nær foreldrum.
Foreldraþing Heimilis og skóla,
20. apríl, 2002.


Hlutverk foreldra gagnvart grunnskólanum tók á sig nýja mynd með flutningi skólans frá ríki til sveitarfélaga 1. ágúst 1996. Þar vísa ég ekki aðeins til laga um grunnskólann og ákvæða þar um hlut foreldra heldur einnig þeirrar staðreyndar, að með flutningnum var valdinu dreift. Skólarnir færðust stjórnarfarslega nær borgurunum en áður. Þeir geta því haft meira um þá að segja. Það er að mínu mati röng hugsun, að skólum sé fyrir bestu að starfa alfarið á eigin forsendum og án tengsla við nánasta umhverfi sitt, foreldrana. Þvert á móti er öflugt foreldrastarf í tengslum við skóla til þess fallið að styrkja skólann á allan hátt. Innra starfið í skólunum er það, sem skilar börnum mestum árangri og ekkert er mikilvægara en það, þegar um þessi mál er rætt.

Foreldrar bera höfuðábyrgð á börnum sínum og þótt skólinn ásamt fjölskyldunni sé mikilvægasti mótunaraðili barnsins getur hann aldrei tekið á sig að fullu uppeldisstarf foreldra og fjölskyldna. Foreldrar eru ásamt nemendum stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar og því rétt og eðlilegt að þeir hafi áhrif á það mikilvæga starf sem fram fer í skólum. Grunnskólinn er vinnustaður nemenda í 10 ár og þótt lög og reglugerðir eigi að tryggja að samskipti nemenda og kennara og allur aðbúnaður í skólum eigi að vera þannig að börnunum líði sem best má oft gera betur. Foreldrar eru þeir aðilar sem ef til vill verða þess fyrst varir ef börnunum líður illa í skólunum einhverra hluta vegna eða ef vinnuálag er of mikið og eru þess vegna betur í stakk búnir en t.d. fræðsluyfirvöld, sem óneitanlega eru fjarlægari daglegri starfsemi skólanna, til að gera skólanum viðvart og koma með tillögur til úrbóta. Foreldrar gera kröfur um að börn þeirra hljóti góða grunnmenntun og er eðlilegt að þeir fylgist vel með því starfi sem fram fer í skólum, komi með tillögur og leiti leiða til lausna í samvinnu við starfsfólk skólanna þegar eitthvað bjátar á. Gott samstarf heimila og skóla er ein forsenda þess að skólaganga barnanna skili sem bestum árangri á hverjum tíma. Mikilvægt er að foreldrar og skóli séu samstíga í þeim skilaboðum sem nemendur fá t.d. varðandi heimavinnu, útivistarreglur, umgengni og aga. Það veitir nemendum öryggi og stuðlar að betra skólastarfi sem skilar af sér heilsteyptum og ábyrgum einstaklingum.

Ég tel mikilvægt að komið verði upp samræmdum mælistikum til að kanna líðan grunnskólanemenda. Með því væri ekki aðeins komið til móts við nemendur með nýjum hætti heldur einnig foreldra, því að þeir fengju nýja mælistiku til að fylgjast með velferð barna sinna.

Skólarnir verða einnig að koma til móts við þarfir foreldranna. Í flestum tilvikum eru báðir foreldrar útivinnandi og vinnudagurinn er langur. Þar sem eitt foreldri sér um umönnun barnanna er ástandið oftast verra. Heilsdagsskólinn er mikilvægt skref í þá átt að bæta öryggi barnanna og velferð fjölskyldunnar. Einnig þarf að huga að lausnum fyrir yngstu börnin þegar löng frí eru í skólunum, svo sem jólafrí og sumarleyfi.

Á skólamálaþingi Kennarasambands Íslands síðastliðið haust flutti prófessor Andy Hargreaves erindi um tengsl foreldra og skóla. Hann sagði meðal annars, að skólar, sem legðu raunverulega áherslu á samvinnu meðal starfsmanna sinna innbyrðis og gagnvart foreldrum út á við byggju yfir innri styrk, sem gerði þeim kleift að standa gegn breytingum, sem væru siðlausar og vondar, þeir gætu fundið eigin leiðir og unnið eftir því, sem hentaði þeim. Hann sagði einnig, að gagnrýni foreldra gæti verið rétt eða endurspeglað vanlíðan foreldris, sem fyndist það hefði misst tökin á uppeldinu. Góður kennari stykki ekki í vörn, hann segði söguna af eigin mistökum sem uppalandi til þess að mynda tengsl við foreldrana. Þetta leiddi til aukins skilnings og stuðnings foreldra við starf kennarans. Kennsla væri ekkert einfalt mál. Kennarinn sem einráður kóngur eða drottning í ríki sínu væri liðin tíð. Foreldrar gætu orðið sterkustu stuðningsmenn, sem kennarinn mundi nokkurn tímann eignast.

Í mörgu tilliti falla sjónarmið þessa ágæta fyrirlesara á skólamálaþinginu vel að þeim sjónarmiðum, sem búa að baki íslensku grunnskólalögunum og hugmyndafræðinni, sem setja svip sinn á hlutverk foreldra samkvæmt þeim.

Þessa hugmyndafræði er meðal annars að finna í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu, sem starfaði á fyrri hluta síðasta áratugar undir formennsku Sigríðar Önnu Þórðardóttur alþingismanns.

Í skýrslunni segir meðal annars:
„Skólamálaumræða hefur einkum verið í höndum starfsfólks skólanna, án virkrar þátttöku foreldra. Mörg nýleg dæmi eru þó um að foreldrar hér á landi séu að vakna til vitundar um rétt sinn og skyldu til afskipta af skólamálum. Stofnuð hafa verið foreldrafélög við skóla eða foreldra- og kennarafélög, sem er ætlað að vera vettvangur fyrir foreldra til að ræða málefni skólans og barna sinna og til að vinna að ýmsum hagsmunamálum skólans. Foreldrafélög hafa sinnt fjáröflun, umferðarmálum, leikvöllum, félagslífi nemenda og fleira, oft með frábærum árangri. Smám saman virðist frumkvæði foreldra vera að aukast og í könnun sem Samtök foreldra og kennara gerðu meðal foreldra haustið 1991 kom í ljós að þeir vilja eiga mun meiri þátt í umfjöllun um mál eins og stundaskrár, námsefni, fjölda nemenda í bekk, fjölda kennslustunda, kennslutæki og markmið náms og kennslu. Nýlega voru stofnuð landssamtök foreldra, Heimili og skóli, sem vafalaust munu styrkja enn frekar rödd foreldra í skólamálaumræðunni.
Ákvæði um foreldraráð í grunnskólaögunum var fyrst og fremst hugsað til að gefa foreldrum formlegan vettvang til að koma sjónarmiðum sínum t.d. varðandi innihald og áherslur í skólastarfinu og skipulagi skólahalds á framfæri við stjórn skólans, bæði innan skólans og gagnvart skólanefnd og sveitarstjórn. Lagaákvæðið gerir t.d. ráð fyrir að foreldraráð gefi umsögn um skólanámskrá skólans, en í skólanámskrá eiga einmitt að koma fram atriði eins og skipulag náms og kennslu, skólareglur, öryggismál, skólatími, skóladagatal og námsmat svo eitthvað sé nefnt. Foreldraráð eiga jafnframt að geta lagt sitt til málanna þegar verið er skipuleggja breytingar og viðhald á skólabyggingum. Fræðsluyfirvöld vænta þess að með þessu fyrirkomulagi skapist grundvöllur fyrir gagnkvæman skilning, traust, samábyrgð og góða samvinnu milli foreldra og skólamanna um skólahald í landinu sem leiði til farsællra skólastarfs en ella.
Eðlilegt þykir í nútímaþjóðfélagi að þeim sem hagsmuna eiga að gæta verði gert bæði kleift og skylt að taka afstöðu til afgreiðslu mála sem þá varða. Foreldrar hljóta, næst á eftir börnum, að teljast stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar. Í mörgum löndum eru foreldrum tryggð formleg áhrif á skólastarfið fyrir milligöngu skólaráða. Í Danmörku hafa t.d. foreldrar allt frá árinu 1975 haft mikil áhrif með aðild að skólaráði og lögum samkvæmt eiga þeir að hafa meirihluta í ráðunum. Í Chicago í Bandaríkjunum, þar sem foreldrar eru í miklum meirihluta í skólaráðum, sjá skólaráðin um ráðningu skólastjóra og samþykkja fjárhagsáætlun skóla. Í Bretlandi sjá skólaráð, sem í sitja m.a. fulltrúar foreldra, um ráðningu skólastjóra og í skólum sem hafa fleiri en 200 nemendur gera þau einnig fjárhagsáætlun.
Svo virðist sem bæði stjórnvöld og starfsfólk skóla hér á landi telji æskilegt að auka afskipti foreldra af skólastarfi. Þannig segir í skólastefnu Kennarasambands Íslands "að þátttaka foreldra eigi að vera fastur og sjálfsagður þáttur í skólastarfi bæði á grunn- og framhaldsskólastigi." Allt frá setningu grunnskólalaga 1974 hafa verið til ákvæði um rétt foreldra til að fylgjast með skólamálum og hafa áhrif á þau. Þar var fyrst kveðið á um rétt foreldra til að stofna foreldrafélög og eiga áheyrnarfulltrúa á kennarafundum. Með lögunum 1991 var foreldrum tryggður áheyrnarfulltrúi í fræðsluráðum og skólanefndum. Þar er einnig ákvæði um skólaráð sem í sitji þrír fulltrúar, einn frá foreldrum, einn frá kennurum og einn fulltrúi nemenda, en skólastjóri skal sitja fundi ráðsins. Þessu ákvæði hefur ekki verið framfylgt.
Þrátt fyrir jákvæða þróun í samstarfi heimila og skóla er foreldrum eða samtökum þeirra enn ekki opin formleg leið til að hafa áhrif á skólastarfið. Mikilvægt er að treysta tengsl tveggja mikilvægustu heima barnsins og byggja upp gagnkvæman skilning foreldra og skólafólks. Slíkt verður ekki gert nema þessum aðilum verði sköpuð skilyrði til að ræða saman um uppeldis- og menntunarhlutverk grunnskólans, og að foreldrar hafi tækifæri til að taka virka afstöðu til stefnu skólans á hverjum tíma.“

Lítum á hvernig þessi hugmyndafræði er útfærð í lögunum um grunnskóla frá 1995. Samkvæmt þeim er skólahverfi sú eining, sem stendur að baki einum grunnskóla eða fleiri og í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd, sem fer með málefni grunnskóla eftir því lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn kann að fela henni. Eiga foreldrar ásamt kennurum og skólastjórum rétt til setu á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Foreldrafélag eða samtök foreldra í skólahverfinu eiga að kjósa einn úr sínum hópi til að starfa með skólanefnd og einn varamann.

Skólanefnd staðfestir áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Hún gerir tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi. Þá ber nefndinni að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla. Nefndin stuðlar að því að skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu og jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda.
Þegar þessi verkefni eru skoðuð sést, hve mikilvægt er að foreldrar nýti sér rétt til aðildar að skólanefnd og kynni sjónarmið sín varðandi atriði eins og skipulag náms og kennslu, rekstur skólans, byggingaframkvæmdir t.d. í sambandi við einsetningu skólans og skólaakstur ef um hann er að ræða fyrir skólanefnd, sem í umboði sveitarstjórnar fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða.

Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir honum faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn en honum ber í störfum sínum að hafa samráð við kennara og auk þess að minnsta kosti tvisvar á ári að boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og fjalla um málefni þessara ráða.

Í 15. gr. grunnskólalaganna segir að foreldrar barna í grunnskóla geti ákveðið að stofna samtök foreldra við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélög hafa verið vettvangur foreldra til að ræða málefni skólans og barna sinna og til að vinna að ýmsum hagsmunamálum skólans. Foreldrafélög hafa sinnt ýmsum málum varðandi skólahald á undanförnum árum, oft með frábærum árangri. Foreldraráð hvers skóla á að veita skólanefnd umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir varðandi skólahaldið. Einnig getur foreldraráð eða foreldrafélag valið að snúa sér beint til sveitarstjórnar með einstök málefni sem snerta skólann.

Þessi ákvæði laganna eru ætluð til þess að tryggja rétt foreldra til að hafa áhrif skipulag skólastarfs, veita skólum og skólanefndum aðhald og stuðning og til að stuðla að umbótum í skólastarfi.

Mér þykir líklegt, að næst þegar ráðist verður í endurskoðun grunnskólalaganna verði gengið lengra í þá átt að veita foreldrum aðild að stjórn skóla. Áhugi á því mun að sjálfsögðu ráðast af reynslunni af lögunum eins og þau eru núna og á hvern veg þau stuðla að nánara samstarfi milli skóla og heimila.

Sveitarstjórnir geta að sjálfsögðu innan ramma núgildandi laga veitt foreldrum meiri aðild að stjórn skóla en þeim er skylt lögum samkvæmt og víða er það vafalaust gert.
Í kosningastefnuskrá okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík leggjum við til, að borgaryfirvöld nýti sér heimildina í 11. grein grunnskólalaganna um, að skipta Reykjavík í fleiri en eitt skólahverfi.
Ef skoðuð er saga þessa lagaákvæðis, kemur í ljós, að það uppruna í frumvarpi til laga, sem þingmenn allra flokka undir forystu Guðrúnar Agnarsdóttur, þingmanns þáverandi Kvennalista, fluttu áríð 1988.
Í greinargerð með frumvarpinu er það rökstutt með þeim orðum, að verði fjarlægðin á milli foreldra og annarra velunnara nemenda og yfirstjórnar skólamála í skólahverfi of mikil minnki möguleikar á samstarfi þessara aðila. Yfirsýn skólayfirvalda yfir hinn eiginlega starfsvettvang verði einnig minni eftir því sem fjöldi nemenda sé meiri og skólahverfið stærra. Með því að skipta Reykjavík í skólahverfi sé yfirstjórn skólamála færð nær vettvangi, lýðræði aukið og jafnframt áhrif íbúa skólahverfis á stjórn skóla og þannig auðveldað samstarf einstakra skóla og skólanefnda og það gert markvissara en nú.
Í greinargerðinni segir orðrétt: „Fræðsluráð, sem lögum samkvæmt er jafnframt skólanefnd skólahverfisins Reykjavík, hefur átt æ erfiðara með að fá innsýn í starfsemi einstakra skóla. Það liggur í hlutarins eðli að eftir því sem skólum fjölgar í skólahverfi verður erfiðara að hafa yfirsýn yfir vanda einstakra skóla og að halda jafnt nánu samstarfi við skólana og aðstandendur nemendanna. Fundir með skólastjórum skólahverfisins vilja fá á sig ráðstefnusvip og eru þess vegna næsta sjaldan haldnir. Hætta er á að fræðsluyfirvöld fjarlægist þannig smám saman hið daglega skólastarf.“
Þegar þessi orð voru skrifuð voru 30 grunnskólar í Reykjavík en nú eru þeir orðnir 45 og þar með hefur leiðin enn lengst á milli þeirra og hinnar einu skólanefndar, sem situr í borginni, með einn áheyrnarfulltrúa fyrir meira en 30.000 foreldra. Árið 1988 sögðu þingmennirnir, sem fluttu tillöguna um skólahverfin í Reykjavík, að þá væri svo komið, að mörgum foreldrum þætti þeir vita harla lítið um skólastarf almennt í borginni og hefðu enn minni áhrif á stefnu og framkvæmd skólahalds í skólahverfinu.
Nú er unnt að kveða enn fastar að orði um þetta efni bæði með hliðsjón af fjölgun skóla í Reykjavík og þeim breytingum, sem urðu með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Í stuttu máli er ég þeirrar skoðunar, að hér í Reykjavík hafi sóknarfæri vegna flutningsins og ákvæðanna um skólahverfi í grunnskólalögunum ekki verið nýtt til fulls til að gera góða skóla enn betri.
Góðir áheyrendur!
Það er komið að lokum máls míns. Ég hef fært rök fyrir því, að samstarf heimila og skóla sé mikilvægur þáttur í góðu skólastarfi. Ég hef gert grein fyrir því, hvaða hugmyndir liggja að baki núgildandi lagaákvæðum um samstarf foreldra og skóla og hvert er inntak þessara ákvæða. Einnig hef ég beint athyglinni sérstaklega að Reykjavík og þeirri tregðu, sem þar hefur ríkt til að nýta sér kosti nánara samstarfs við foreldra með því að skipta borginni í skólahverfi. Það er löngu tímabært að skipta borginni á þennan hátt í skólahverfi, sem nái jafnt til leikskóla og grunnskóla, jafnframt er nauðsynlegt að meta framkvæmd grunnskólalaganna og huga að því, hvort endurskoða eigi ákvæðin um hlut foreldra í skólastarfi með það fyrir augum að auka vægi hans.