5.9.1998

Háskólahátíð - Háskóla Íslands

5. september 1998
Háskólahátíð Háskóla Íslands

Umhverfi háskólastarfs tekur nú örum breytingum. Að búa nemendur undir líf og starf með góðri menntun er mikilvægara en nokkru sinni. Þeim fjölgar einnig stöðugt, sem stunda háskólanám. Leiðir til að afla sér menntunar verða líka sífellt fjölbreyttari. Skólar taka örum breytingum og fá nýja keppinauta um nemendur og fjármuni. Þær stofnanir og raunar þjóðir dragast fljótt aftur úr, sem fylgja ekki kröfum tímans. Við verðum að tileinka okkur nýja tækni við miðlun þekkingar, skapa starfsaðstæður í samræmi við nýja stjórnsýsluhætti og bregðast við nýjum skilyrðum um ráðstöfun á opinberum fjármunum.

Þegar ég var hér við laganám fyrir 30 árum og starfaði í Stúdentaráði Háskóla Íslands, tókst gott samkomulag milli háskólayfirvalda, stúdenta og menntamálaráðuneytisins um nýja stjórnarhætti við að gæta félagslegra hagsmuna stúdenta. Í ár hefur þess einmitt verið minnst með ýmsum hætti, að þrjátíu ár eru liðin frá því að lögin um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands voru samþykkt og tóku gildi.

Sagan sýnir, að í lok sjöunda áratugarins, var lagður grunnur að mörgu, sem helst hefur einkennt þróun Háskóla Íslands síðan. Rifjum til dæmis upp, að árið 1968 hafði enginn stúdentagarður verið reistur við Háskólann síðan Nýi garður var tekinn í notkun 1943. Vegna laganna um Félagsstofnun og starfa hennar hefur orðið stökkbreyting í þjónustu við námsmenn á starfssviði stofnunarinnar síðustu 30 ár.

Á námsárum mínum voru margir enn þeirrar skoðunar, að betra væri að treysta á brjóstvitið en alla þessa fræðinga. Stúdentar andmæltu þessu með sérstakri herferð til að sannfæra allan almenning um að víst yrði bókvitið látið í askana.

Hugarfarið hefur gjörbreyst í þessu efni. Nú er almennur skilningur á því, að íslenska þjóðin stenst ekki samkeppni við aðra nema mikil rækt sé lögð við menntun, rannsóknir og vísindi. Nýjar áherslur í byggðamálum taka nú loks mið af því, að huga verði meira en áður að menntun og menningu hvarvetna í landinu. Kveða má svo fast að orði, að nú sé helg skylda að tryggja Íslendingum rétt til bestu menntunar. Þar reynir í æðri menntun enn mest á Háskóla Íslands, þótt hann sé ekki lengur eini háskólinn í landinu. Síðast í gær var nýr skóli að koma til sögunnar, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík.

Aukinn áhugi á menntun og skylda okkar til að veita hana sem flestum skapar ný og spennandi úrlausnarefni. Skólar verða í senn að taka á móti fleiri nemendum og gæta þess að ekki slakni á kröfum um inntak náms og rannsókna. Hvernig er best að bregðast við þessu? Ég nefni þrennt:

Í fyrsta lagi að sinna öllum nemendum vel og gleyma því ekki, að kennsla í háskóla hlýtur ávallt að miðast við það, að í hópnum séu einhverjir, sem ætla að verða vísindamenn. Með háskólanámi er ekki aðeins verið að búa menn undir tilgreind störf heldur einnig undir að fást við hið óþekkta. Auðvelda á góðum nemendum að stunda rannsóknanám. Þetta hefur meðal annars verið gert með Rannsóknanámssjóði til stuðnings námsmönnum og með því að skilgreina sérstaka fjárveitingu til Háskóla Íslands vegna rannsóknanáms.

Í öðru lagi ber háskólum, sem veita svipaða menntun, að auka samstarf sitt. Í fámennu landi okkar eru hvorki góðir kennarar né nemendur til skiptanna. Þess vegna er fræðilegt samstarf háskóla og samræming náms og kennslu nauðsynlegt, meðal annars til að stuðla að gagnkvæmri viðurkenningu á námsþáttum á milli skóla. Í sumum tilvikum er beinlínis æskilegt, að skólar samræmi stundarskrár sínar, svo að nemendur í einum skóla geti til dæmis fylgst með kennslu í öðrum fyrir tilstuðlan hinnar nýju upplýsingatækni.

Í þriðja lagi er brýnt, að ávallt sé tekið mið af því besta, sem gerist á alþjóðavettvangi. Fámennar þjóðir þurfa ekki síst á alþjóðlegum samanburði að halda. Þess vegna er háskólum nauðsynlegt að leggja mikla rækt við alþjóðlegt samstarf og stöðugt eftirlit með gæðum kennslunnar og hæfni kennara.

Á þessum þremur sviðum á Háskóli Íslands að vera í fararbroddi. Við verðum að nýta kosti stærðarinnar innan hans um leið og öðrum háskólum er gert kleift að þróast á eigin forsendum.

Innra starfið, markmið kennslu og rannsókna, er að sjálfsögðu kjarni hvers háskóla. Ytri umgjörðin skiptir þó ekki síður máli. Hún verður einnig að vera í samræmi við skynsamlegar kröfur hverju sinni.

Með nýjum lögum um háskóla, sem tóku gildi 1. janúar 1998, var í fyrsta sinn mótuð heildarumgjörð um háskólastarf hér á landi. Lögum um Kennaraháskóla Íslands hefur þegar verið breytt til samræmis við heildarlögin. Frumvarp hefur verið kynnt á Alþingi um Háskólann á Akureyri og í menntamálaráðuneytinu liggja fyrir tillögur að frumvarpi um Tækniháskóla Íslands. Unnið er að því að koma Listaháskóla Íslands á fót sem einkaskóla.

Nefnd í umboði okkar Páls Skúlasonar háskólarektors hefur unnið að endurskoðun laga um Háskóla Íslands. Fagna ég því, að gott samkomulag hefur tekist í nefndinni.

Við stöndum nú á mikilvægum tímamótum, þegar litið er til þróunar Háskóla Íslands.

Í fyrsta lagi munu ný lög um skólann auka sjálfstæði hans til mikilla muna. Háskóli Íslands á að geta þróast á eigin forsendum innan rúmra lagaákvæða. Stjórnsýsla skólans mun taka mið af nýjum kröfum. Réttur nemenda verður betur tryggður en áður.

Í öðru lagi eru viðræður að komast á lokastig um svonefnt reiknilíkan fyrir Háskóla Íslands. Með því er vísað til inntaks í samningi, sem gerður yrði milli menntamálaráðuneytisins og háskólans með aðild fjármálaráðuneytisins um fjárveitingar til skólans. Við afgreiðslu fjárlaga undanfarin tvö ár hefur orðið nokkur raunaukning á fjárveitingum til Háskóla Íslands og hefur hún miðað að því að brúa bilið með tilliti til þess markmiðs, sem menn settu sér í slíkum samningi. Í sumar fékkst mikilvæg stærð inn í þetta stóra reikningsdæmi, þegar kjaranefnd felldi úrskurð sinn um launakjör prófessora. Er óhætt að segja, að þar með hafi orðið ánægjuleg þáttaskil fyrir þennan forystuhóp háskólasamfélagsins. Hefur með úrskurðinum orðið til ný viðmiðun fyrir aðra kennara í háskólanum. Ég legg áherslu á, að menn komi sér sem fyrst saman um inntak hins nýja samnings um fjárveitingar til Háskóla Íslands. Á grundvelli hans verður auðveldara að meta hina raunverulegu fjárþörf skólans og til hverra þátta skattpeningarnir renna.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að tryggja meira öryggi og vel skilgreindar kröfur við ráðningu starfsmanna við Háskóla Íslands. Skólinn er fjölmennasti vinnustaður í landinu. Hann nýtur mikillar og um þessar mundir vaxandi virðingar þjóðarinnar. Innan skólans verður að gæta vandaðra vinnubragða við mannaráðningar. Auglýsingar um ný störf verða að vera skýrar og við framgang á hvorki að ríkja sjálfvirkni né óeðlileg tregða. Til menntamálaráðuneytisins berast ætíð nokkrar kvartanir vegna þess að einstaklingar telja sér misboðið við stöðuveitingar innan skólans. Afskiptaréttur ráðuneytisins og annarra er næsta lítill, því að það er til dæmis mat umboðsmanns Alþingis, að ekki sé unnt að fá sérfræðilegu áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda hnekkt nema hugsanlega fyrir dómstólum. Oft er erfitt að skipa dómnefndir óhlutdrægra eða óvilhallra manna hér í fámenninu. Störf þeirra eru vandasöm og vanþakklát. Ég tel nauðsynlegt, að allar hliðar stöðuveitinga séu ræddar af hreinskilni og fyrir opnum tjöldum.

Góðir áheyrendur!

Ég fagna því, að Páll Skúlason rektor hefur stofnað til þessarar hátíðar hér í dag. Stundum getur verið erfitt að sitja þegjandi sem gestur úti í sal, þegar menn láta gamminn geysa um samskipti háskóla og ríkisvaldsins. Með öllu er ástæðulaust að draga upp þá mynd, að um andstæðinga sé að ræða. Svo er auðvitað alls ekki. Hvor hefur hins vegar sínum skyldum að gegna. Samskiptin þróast best, þegar færi gefst á því að skiptast á skoðunum, vega og meta sjónarmið hvor annars og taka síðan ákvörðun. Verst er að láta reka á reiðanum og berast fyrir veðri og vindum.

Háskóli Íslands hefur skýr markmið sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar og leiðandi afl í vísindalegum rannsóknum og kennslu. Til hans eru og verða gerðar auknar kröfur og æ fleiri munu sækja þangað grunnmenntun og endurmenntun. Skólinn á ótrauður að sækja fram. Honum er skylt að gera skipulegt átak til að efla fjarnám. Hann á að svara kalli tímans en standa fast á þeirri miklu reynslu og þekkingu, sem skapast hefur innan veggja hans.

Ný skólastefna fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla kemur brátt til framkvæmda. Auknu fé verður varið til nýs námsefnis og endurmenntunar kennara. Markmiðið er að háskólar fái betri nemendur, sem nái enn meiri árangri.

Fái ég nokkru ráðið verður næsta stóra átakið í íslenskum menntamálum í þágu háskóla, rannsókna og vísinda. Við blasir nýtt tækifæri til að taka höndum saman um nýjungar í stjórnarháttum og fjárveitingum. Þetta tækifæri á að nýta til að sækja fram með auknum þunga við upphaf nýrrar aldar.

Tryggjum, að nemendur geti litið um öxl til skólans síns og glaðst yfir hinu góða veganesti, menntun, sem aldrei eyðist og stenst alþjóðlegan samanburð. Með þeim hætti tryggjum við einnig best, að Ísland verði land tækifæranna fyrir komandi kynslóðir.