5.2.2002

Aðalskipulag Reykjavíkur

Reykjavík
á nýrri öld,
fundur sjálfstæðismanna um skipulagsmál
5. febrúar 2002.Í gær tók ég þátt í skemmtilegri athöfn í Smáralind í Kópavogi, þegar tekið var á móti landsliðshópnum eftir sigurferð hans til Svíþjóðar. Það voru rúmlega 4000 manns í Vetrargarðinum svonefnda og fögnuðu strákunum okkar innilega. Allt er þarna svo stórt í sniðum, að þessi fjöldi rúmaðist mjög vel og hvorki við komu né brottför þurfti að bíða í bílaröðum.

Ég rifja þetta upp hér vegna þess, að fleiri en einn hafði á orði við mig, á meðan við biðum eftir landsliðinu, að nú væri svo komið, að fara þyrfti til Kópavogs til að finna hæfilegt húsnæði undir athafnir af þessum toga. Um þá staðreynd verður ekki deilt né hitt, að sé litið á höfuðborgarsvæðið í heild, kemur í ljós, að meirihluti borgarbúa býr í þriggja kílómetra fjarlægð frá Smáralind.

Þessa staðreynd er gott að hafa í huga, þegar við komum saman til að ræða um nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík, en það hlýtur að sjálfsögðu að taka mið af því, hvernig byggð hefur þróast og hvernig staðið hefur verið að því að búa í haginn fyrir atvinnustarfsemi og þjónustu.

Skipulagsmálin hafa verið í miklu uppnámi hjá núverandi
meirihluta hér í Reykjavík. Þetta hefur birst borgarbúum í ómarkvissri uppbyggingu svæða fyrir íbúðir og fyrirtæki. Þetta hefur birst borgarbúum í biðröðum og öngþveiti í umferðarmálum. Þetta hefur birst borgarbúum í marklausum kosningum um tilvist flugvallarins. Þetta hefur birst borgarbúum í síendurteknum deilum borgaryfirvalda við íbúa í einstökum hverfum um skipulagsmál svo að fátt eitt sé nefnt. Ekki þarf að fara í neinar grafgötur um það, að fólk í úthverfum borgarinnar telur sig afskipt og ekki sé tekið nægilegt tillit til sjónarmiða þess. Ef ekki er unnt að sætta sjónarmið íbúanna í smærri málum, hvernig geta borgaryfirvöld þá ráðið við stærri úrlausnarefni í skipulagsmálum? Á þeim verður að gera bragarbót og ég get lofað því, að á skipulagsmálum verður betur haldið af sjálfstæðismönnum en gert hefur verið af R-listanum.

Sumum kann að þykja, að með loforðinu sé ekki mikið sagt, miðað við frammistöðu R-listans, en í því felst skýrt fyrirheit um að setja sér metnaðarfull markmið við framkvæmd skipulagsmála, sem miðast að því að virkja sem best krafta atvinnulífsins og hlú að fjölskylduvænu borgarsamfélagi.

Þegar unnið er að gerð skipulagstillagna er jafnan mikil hætta á því, að menn nálgist úrlausnarefnið með gömlu mistökin ofarlega í huga og nái því aldrei að skoða málið úr þeirri fjarlægð, sem er nauðsynleg til að framsýni fái að ráða ferðinni. Með skipulagsvinnu er verið að móta tæki til að takast á við framtíðina og þess vegna er nauðsynlegt að nálgast viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli.

Ýmsar tillögur í nýja aðalskipulaginu fyrir Reykjavík bera greinilega með sér, að þar hefur þröngsýni R-listans og þvermóðska vegið of þungt, hvað sem líður góðu handbragði við útfærslu á tillögunum. Til dæmis hefur R-listinn bitið sig fastan í það, að leggja eigi stein í götu íbúðabyggðar í Geldinganesi. Hitt er jafnvel enn verra að standa þannig að því að framkvæma skipulagið, að fara þarf um hálfa öld aftur í tímann til að finna sambærilegar biðraðir eftir lóðum og hafa verið síðustu ár. Þessu viljum við sjálfstæðismenn breyta.

Þegar tillögur og lausnir í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur eru skoðaðar, skil ég til dæmis ekki, hvernig unnt er að flytja flugvöll á brott „í áföngum” eins og R-listinn boðar. Í því felst ekki annað en að þrengja jafnt og þétt að flugvallarstarfseminni með það fyrir augum, að hún hrekist að lokum á brott frá borginni. Sérfræðingar benda á, að verði ákvörðun tekin um að loka N-S brautinni á flugvellinum og halda aðeins A-V brautinni opinni, eins og er hugmynd R-listans, þýði það, að ekki sé hægt að lenda á flugvellinum rúmlega 2 mánuði ár hvert að meðaltali og þess vegna tæplega gerlegt að reka þaðan áætlunarflug.

Tillagan um flugvöllinn í aðalskipulaginu er þannig blekking, ef með henni á að koma til móts við þau sjónarmið Framsóknarflokksins innan R-listans, að áfram verði stundað áætlunarflug frá Reykjavík.

Hið sama má segja um ýmsar aðrar illa ígrundaðar málamiðlanir í skipulagsstillögunum og er ástæða til að nefna miðborgarsvæðið í því sambandi, en nýleg úrsögn Bolla Kristinssonar kaupmanns úr miðborgarstjórninni og áform hans um að selja verslunarhús sitt við Laugaveg endurspegla enn einu sinni hinn stjórnsýslulega og stjórnmálalega vandræðagang í skipulagsmálum borgarinnar. Sá vandi verður ekki leystur með neinu aðalskipulagi heldur með því að fela nýjum meirihluta forystu í málefnum borgarinnar.

Ef hugmyndin um að þrengja að flugvellinum í áföngum, er sett fram til að styrkja miðborgina, stenst hún ekki þær kröfur. Nart í flugvallarsvæðið á löngu árabili mun ekki skila þeim árangri, heldur leiða til þess að eyðileggja endanlega þann kost, að flugvallarsvæðið verði skipulagt sem samfelld miðborgarbyggð.

Öflugustu tillögurnar um að styrkja miðborgarmynd Reykjavíkur hafa síðustu daga og mánuði komið frá ríkisvaldinu með tónlistarhúsi, ráðstefnumiðstöð og hóteli á norðurvæng miðborgarinnar og þekkingar- og sjúkrahúsþorpi í suðri.

Ég legg mikla áherslu á það, að tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðin verði samofin miðborgarlífinu og veiti því meiri reisn en nú er. Þá er nauðsynlegt að huga að því, hvernig unnt er að nýta rými í Hljómskálgarðinum sem best til að tengja saman norður- og suðurvæng miðborgarinnar, en á þessum ási er fjölmennur vinnustaður á borð við Menntaskólann í Reykjavík og enn mætti styrkja hann með því að opna Miðbæjarskólann að nýju fyrir skólabörnum auk þess sem taka þarf ákvarðanir um framtíð svæðisins, þar sem Kvennaskólinn í Reykjavík er núna.

Góðir fundarmenn!

Hér á þessum fundi munum við sjálfstæðismenn kynna sýn okkar í skipulagsmálum við upphaf nýrrar aldar. Við teljum ekki þörf á því að bíða eftir neinni borgarstefnu frá ríkisstjórn eða alþingi til að Reykvíkingar setji fram hugmyndir um þróun borgar sinnar, enda eigum við að gera það á eigin forsendum um leið og tekið er eðlilegt mið af þróun þjóðfélagsins í heild.

Kemur ekki á óvart, að borgarstjórinn í Reykjavík taki kipp og bregðist illa við, þegar rætt er um samkeppni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og lögð áhersla á nauðsyn hennar til að ýta við þeim, sem kjósa kyrrstöðu í stað framkvæmdagleði. Við Reykvíkingar finnum að stöðnunarstefna R-listans stuðlar að hnignun og er miðborgin skýrasta dæmið um það. Það er síðan eins og hver önnur reyksprengja ef ekki uppgjöf að reyna að draga athyglina frá kyrrstöðustefnunni með umræðum um að skipta Reykjavík upp í mörg minni sveitarfélög.

Það skiptir mestu fyrir framtíð Reykjavíkurborgar að hún, og raunar höfuðborgarsvæðið allt, þróist með það að leiðarljósi að borgin
sé samkeppnisfær í alþjóðlegu samhengi. Þróunin hér á landi hefur
lengi verið sú að fólk flytur úr sveit til borgar og bæja, en straumurinn stöðvast ekki endilega þar heldur hefur haldið áfram og nú leitar fólk út fyrir landsteinana í ríkari mæli en áður. Við verðum að hafa metnað til að skapa sambærilegar aðstæður hér og bestar gerast erlendis.

Við erum að keppa í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi, þar sem menntun og menning skiptir miklu. Borgarsamfélagið þarf að vera samkeppnisfært og við verðum að leggja alla áherslu á að skapa þær forsendur fyrir mannlífi í borginni að fólk kjósi að búa hér og fjölskyldunum líði vel.

Skipulag er eitt af tækjunum til að ná þessum markmiðum og í þeim kafla hins nýja aðalskipulags, sem snýst um framtíðarsýn, er áréttað mikilvægi þess, að Reykjavík sé forystuafl á sviði þekkingar og alþjóðavæðingar. Borgin verði efld sem útvörður Íslands í vaxandi alþjóðlegri samkeppni borga og borgarsvæða um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn.

Ég tek heilshugar undir þessi meginsjónarmið. Þau eru mikilvægt leiðarljós en duga skammt, ef ekki er jafnframt kjörin forystusveit í borginni, sem hefur vilja, samstöðu og afl til að vinna að þessum markmiðum. Í þeim efnum býður Sjálfstæðisflokkurinn skýran og góðan
kost.