19.1.2002

Tónlistarhúsið Laugarborg


Tónlistarhúsið Laugarborg,
Eyjafirði,
19. janúar, 2002.



Þegar ég fékk boð um að koma og vera með ykkur hér á þessari hátíð í kvöld, var mér ljúft að þiggja það, því að mér þótti mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að samfagna með ykkur á þessari stundu.

Ég viðurkenni fúslega, að þá vissi ég ekki mikið um það, sem er að gerast hér í Eyjafjarðarsveit, en bað um að fá kynningarefni um byggðina ykkar og brást Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri vel við þeirri ósk og vil ég í upphafi máls míns óska ykkur til hamingju með Fréttabréf Eyjafjarðarsveitar og þá skemmtilegu mynd sem þar er dregin af sveitarfélaginu.

Það vekur sérstaka athygli mína af hve miklum krafti þið hafið staðið að því undanfarin misseri að efla Hrafnagilsskóla með stækkun hans og þróun á innra starfi undir þeim formerkjum, að allir hafi hið góða í sér og hæfileikann til að verða betri manneskjur.

Ég er sammála því, sem Karl Frímannsson skólastjóri segir, að fjölmiðlaumræður um grunnskólann almennt eru oft óeðlilega neikvæðar, því að innan veggja skólanna er unnið mikið og gott starf og það gefur alls ekki rétta mynd af stöðu íslenska skólakerfisins í alþjóðlegum samanburði að nota dökka liti til að lýsa því. Þvert á móti er ljóst, að við höldum hvað best utan um nemendahópinn og gætum betur en flestar aðrar þjóðir að þeim, sem ná slökum árangri. Hér er ekkert félagslegt bil á milli skóla eins og blasir við hjá hinum fjölmennari þjóðum. Á hinn bóginn mundum við standa okkur betur í samanburðinum, ef við ættum fleiri nemendur í bestu flokkunum. Er það verðugt markmið, að hlú betur að hinum bestu án þess að láta aðra gjalda þess.

Jafnframt finnst mér lofsvert, að þið hafið nýtt ykkur kosti nýju aðalnámskránna fyrir leikskóla og grunnskóla með því að stofna til skipulegs samstarfs milli Hrafnagilsskóla og Leikskólans Krummakots. Er ég ekki nokkrum vafa um að það eflir báða skólana og miðar að því að aldrei verði slaki í námi barnanna, en hann veldur því hjá mörgum, þegar farið er af einu skólastigi á annað, að námsáhuginn minnkar, af því að verkefnin eru ekki nógu verðug.

Í því felst tvímælalaust rétt skírskotun í kynningarblaðinu um sveitina ykkar, að leggja áherslu á hið fjölskylduvæna samfélag, sem sækir styrk sinn til menntunar og menningar.

Og nú komum við saman hér í þessu glæsilega húsi til að staðfesta þann ásetning ykkar enn frekar að teysta forsendur slíks samfélags með því að opna hér tónlistarhús.

Breytt viðhorf til félagsheimilanna eru til marks um þróun og þjóðfélagsbreytingar, sem hafa orðið frá því, að mörg okkar hér inni vorum yngri og þekktum nöfn þeirra af auglýsingum um dansleiki um helgar og .argir töldu það ómissandi þátt í tilverunni að bregða sér á sveitaball. Hér í sveit voru það Laugarborg og Freyvangur, sem einkum voru auglýst í útvarpinu, og drógu til sín mikinn fjölda fólks, oft um langan veg, þegar miklu meiri tíma tók að aka á milli staða en núna. Þótt böllin séu úr sögunni standa húsin enn og mörg verkefnalaus, jafnvel sem baggi á sveitarfélögunum.

Menntamálaráðuneytinu barst á síðasta ári erindi frá sveitarstjórninni hér, þar sem leitað var heimildar til að ein stjórn færi með málefni félagsheimilinna í sveitarfélaginu í stað þess að sérstök stjórn væri yfir hverju þeirra. Samþykktum við það, enda miði áætlanir að því að hagræða í rekstri félagsheimilanna til menningar- og félagsstarfsemi með hliðsjón af vilja íbúanna. Undir þessum formerkjum hafið þið nú ákveðið, að Freyvangur nýtist einkum til leiklistar og Laugarborg til tónlistar.

Bera þessar ákvarðanir vott um metnaðarfulla stefnumörkum í menningarmálum. Starfinu í Tónlistarhúsinu Laugarborg er ekki aðeins sköpuð góð umgjörð með endurbótum á því í þágu hljómgæða heldur styrkist inntak þess vegna samstarfsins við Tónlistarfélag Akureyrar og þess trausts til hússins, að innan veggja þess sé flygill Minningarsjóðs Ingimars Eydals.

Góðir áheyrendur!

Ég setti fram þá hugmynd á dögunum í umræðum á alþingi, að rás 2 Ríkisútvarpsins yrði miðstöð svæðisútvarpa með höfuðaðsetur á Akureyri. Málið var tekið fyrir á vettvangi útvarpsins og þriggja manna nefnd tveggja fréttamanna og varaformanns útvarpsráðs setti fram ígrundaðar tillögur um, hvernig skynsamlegt væri að framkvæma hugmyndina og er nú unnið að því.

Nefni ég þetta hér vegna þess, hve mér blöskrar margt af því, sem sagt hefur verið af þessu tilefni og að mínu mati einkennist af djúpstæðri en óréttmætri vantrú á því, að eitthvað gott og skemmtilegt geti gerst og þróast utan höfuðborgarsvæðisins. Að sjálfsögðu virði ég sjónarmið þeirra, sem eru á móti þessari hugmynd, en ég tek ekki gilt, að andstaðan byggist á því, að í henni felist aðför að gæðum rásar 2 vegna atgervisflótta.

Ef við ráðumst ekki í að skapa aðstöðu til mennta- og menningarstarfsemi utan mesta þéttbýlisins, nær engin slík starfsemi að þróast í dreifbýli. Þið hafið með stefnu ykkar í menntamálum og menningarmálum sýnt mikinn metnað og hann mun styrkja allt mannlíf í Eyjafjarðarsveit.

Ég óska ykkur innilega til hamingju með hið mikla og góða framtak að breyta Laugarborg í fyrsta tónlistarhúsið á Norðurlandi. Megi sú sýn sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar rætast, að hér verði vegur tónlistarinnar sem mestur og hér fái tónlistarfólk góða aðstöðu til að stunda list sína sér og öðrum til ánægju og hamingjuauka.