17.11.2001

Málræktarþing

Íslenska
á evrópsku tungumálaári,
Málræktarþing,
Hafnarfirði,
17. nóvember, 2001.


Enn boðar Íslensk málnefnd til málræktarþings í tilefni af degi íslenskrar tungu og er þetta því í sjötta sinn, sem við komum saman af þessu tilefni. Þegar ég lít yfir viðfangsefni þinganna undanfarin ár, sýnist mér, að stefið hafi verið svipað, því að við höfum jafnan verið að velta fyrir okkur stöðu tungunnar, það er í skólum, í ljósvakamiðlum, í þýðingum og gagnvart þeirri spurningu, hvort Íslendingar séu að verða tvítryngdir, eins og við ræddum árið 1996, en í fyrra var á dagskrá, hvernig íslenskan stæði sem annað tungumál. Stefið byggist á viðleitni til að komast að því, hvort hætta steðji að tungunni og í ár ræðum við um íslensku á evrópsku tungumálaári.

Evrópuráðið og Evrópusambandið standa sameiginlega að þessu ári í því skyni að draga athygli að gildi tungumálsins og gildi þess að kunna mörg tungumál, því að þekking á tungumáli þjóðar sé best til þess fallin að eyða fordómum, stuðla að umburðarlyndi og draga úr spennu milli fólks af ólíku þjóðerni. Það er með öðrum orðum talið ýta undir ófrið milli manna að leggja sig ekki fram um að umgangast aðrar þjóðir með því opna hugarfari, sem felst í að læra tungumál þeirra og skilja menningu þeirra og þjóðlíf á þeim forsendum.

Á þeim tímum, sem við lifum núna, þegar átök milli ólíkra menningarheilda setja svip á þróun heimsmála, er brýnna en áður að hvetja til þess umburðarlyndis, sem felst í þekkingu og skilningi milli manna af ólíku þjóðerni. Viðvaranir í þágu friðar eru ekki lengur alfarið í höndum þeirra, sem vita gleggst, hvaða ógn felst í vígbúnaði, það er ekki síður hlutverk þeirra, sem boða trú eða leggja áherslu á menningarlega ræktarsemi, að haga málflutningi sínum af hófsemd og umburðarlyndi í garð manna af öðru þjóðerni, með aðra skoðun eða trú.

Menntamálaráðuneytið lét í tilefni af Evrópsku tungumálaári 2001 gera könnun á viðhorfi almennings til tungumálanáms- og kennslu. Jafnframt var fólk beðið að meta eigin kunnáttu í erlendum tungumálum. Niðurstöður könnunarinnar liggja fyrir í skýrslu og eru um margt mjög áhugaverðar. Meðal helstu niðurstaða er eftirfarandi:
· Yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda eða um 93% telur að allir Íslendingar ættu að kunna ensku og um 71% telur að allir Íslendingar ættu að kunna eitt Norðurlandamál.
· Rúmlega 96% þátttakenda telja ensku vera það erlenda tungumál sem mikilvægast er að hafa vald á. Þau tungumál sem þátttakendur telja næst mikilvægast að hafa vald á eru þýska, spænska og danska. Ungt fólk á aldrinum 18-29 ára telur spænsku mikilvægari en þeir sem eru í elsta aldurshópnum, 50-67 ára, en þeir telja dönsku mikilvægari en þeir sem yngri eru.

Af þessari könnun verður ekki annað ráðið en Íslendingar hafi verulegan áhuga á að geta átt víðtæk samskipti við annarra þjóða menn og ræða við þá á erlendu tungumáli. Könnunin sýnir einnig, hve mikla trú Íslendingar hafa á því, að enskan opni þeim best dyrnar til alþjóðlegra tengsla.

En hver er staða íslenskrar tungu á evrópsku tungumálaári? Þorsteinn Gylfason, prófessor í heimspeki, hefur fært rök fyrir því, að hugsun á móðurmálinu sé forsenda þess, að hugsað verði á öðru tungumáli, en vandi íslensks máls og hugsunar kunni að vera verulegur “þar sem við sértæk hugtök er að fást”, þrátt fyrir mikið og merkilegt starf að því að neyta skapandi máttar íslenskrar tungu á 19. og 20. öld hafi ekki verið gert nærri, nærri nóg.

Undir það má taka, að mikið verk sé enn óunnið til að unnt sé að glíma við öll viðfangsefni með sértækum hugtökum á íslensku og hefti það menn í hugsun eða þekkingarleit, er hætta á því, að þeir leggi ekki á sig erfiði í þágu íslenskunnar. Við sjáum þó sárafá merki um þetta í þeim textum sem við lesum eða umræðum, sem við heyrum, um sífellt fleiri viðfangsefni. Ég glímdi við það sem blaðamaður á sínum tíma að fjalla um öryggismál og hernaðarleg efni og leitaðist við að gera það án þess að að fara í kringum viðfangsefnið vegna skorts á íslenskum orðum eða hugtökum heldur smíða ný orð, ef svo bar undir, og lifa sum þeirra enn og skilningur hefur vaxið á inntaki ýmissa hugtaka, sem voru vafalaust framandleg, þegar tekið var til við að nota þau. Og ég hef oft hlustað á fræðilega fyrirlestra um margvísleg efni, sem eru fluttir á svo góðu íslensku máli, að mig undrar, að til séu í máli okkar orð um allt, sem þar kemur fram. Er enn ástæða til að þakka hið mikla og óeigingjarna starf, sem hefur verið unnið í málnefndum fjölmargra starfsgreina, við að smíða nýyrði, en milli 40 og 50 orðanefndir starfa nú í landinu.

Verulegt átak hefur verið gert til að nýta hina nýju upplýsingatækni í þágu íslenskrar tungu. Unnið er að gerð kennsluvefja á netinu bæði fyrir þá, sem eiga íslensku að móðurmáli, og hina, sem læra hana sem annað mál.

Í gær var margmiðlunardiskurinn Alfræði íslenskrar tungu afhentur Davíð Oddssyni forsætisráðherra sem fullbúið verk. Alfræðin á að miðla fræðandi efni um íslenska tungu og mál almennt á áhugavekjandi hátt, auka skilning á fjölbreytileika íslensks máls í sögu og samtíma, vinna gegn misskilningi og fordómum um mannlegt mál og eðli þess, sýna tengsl íslensku við önnur mál og sýna fram á að tungumál lýtur eigin lögmálum, óháð mannasetningum. Er mikils virði, að þessu verki skuli lokið en eins og önnur brautryðjendaverk er það ekki aðeins gagnlegt í sjálfu sér heldur mun geta af sér margt annað í þágu íslenskrar tungu.

Síðastliðinn þriðjudag efndu menntamálaráðuneytið og verkefnisstjórn um tungutækni til ráðstefnu um leiðir til að styrkja stöðu íslenskrar tungu í heimi upplýsingatækninnar. Er það spennandi verkefni bæði í okkar eigin þágu en einnig með það að markmiði, að Íslendingar geti lagt sitt af mörkum á þessu vísinda- og tæknisviði og virkjað til þess málfræðinga og tæknimenn á nýjum alþjóðlegum forsendum. Í mínum huga er enginn vafi á því, að þarna eru mörg tækifæri, sé rétt á málum haldið. Hitt er jafnhættulegt ef látum ekki að okkur kveða á þessu sviði og fljótum sofandi að feigðarósi.

Á þessu ári hefur ríkisstjórnin samþykkt tvær tillögur mínar um fjárhagslegan stuðning til erlenda háskóla vegna kennslu í íslensku innan þeirra. Þar er annars vegar um að ræða Manitoba-háskóla í Winnipeg og hins vegar Humboldt-háskóla í Berlín. Ég lít ekki á samþykkt þessara tillagna sem almennt fordæmi fyrir slíkum stuðningi við alla erlenda háskóla, sem kenna íslensku, enda yrði slíkt ógerlegt. Í samningunum við skólana felst hins vegar viðurkenning á mikilvægi þess, að íslenska sé kennd í háskólum erlendis.

Hér heima hefur verið unnið að því að koma enn frekar til móts við þá, sem ekki hafa fullt vald á íslenskri tungu. Hef ég meðal annars lagt á ráðin um það, að gert verði sérstakt átak á framhaldsskólastigi í þágu nýbúa, en þar er víða unnið gott starf á þessu sviði, til dæmis í Iðnskólanum í Reykjavík.

Áhugi á íslenskri tungu kemur víða fram og má þar til dæmis nefna nýlega skýrslu, sem Tómas Ingi Olrich alþingismaður og formaður nefndar um menningartengda ferðaþjónustu hefur skrifað um það efni og samgönguráðuneytið gaf út í ágúst á þessu ári. Þar er að finna athyglisverðar hugleiðingar um gildi íslenskrar tungu fyrir þróun þessarar ferðaþjónustu. Höfundur segir afar mikilvægt að meta þann hlut sem íslensk tunga á og getur átt í menningarlegu aðdráttarafli samtímans. Telur hann brýnt, ekki síst frá viðskiptalegu sjónarmiði, að reyna að ýta undir að sérkenni íslenskrar nútímamenningar verði skilgreind og þar sé tungumálið, málmenningarstefna Íslendinga og áhrif málræktar á mjög marga þætti þjóðlífsins grundvallaratriði. Tómas Ingi segir, að margt bendi til þess, að Íslendingar geri sér ekki vel grein fyrir því, hve árangursrík og sérstæð málmenningarstefna þeirra er í alþjóðlegum samanburði, málverndarstefnan hafi eflst við aukin samskipti við útlönd og aukna málakunnáttu þjóðarinnar og eigi þessi stefna samleið með þeim, sem vilja efla kennslu í erlendum tungumálum.

Góðir áheyrendur!

Ég ætla ekki að tíunda fleiri atriði, sem sýna, að íslensk tunga er ekki í vörn um þessar mundir, þegar litið er til margvíslegra stórverkefna og hugmynda, sem tengjast henni. Tungan er ekki safngripur heldur lifandi tæki, sem við eigum að nýta á skapandi hátt á mörgum sviðum. Alþjóðlegur skilningur á gildi þess að standa vörð um tungumál til að varðveita menningarlega fjölbreytni er meiri en nokkru sinni og við Íslendingar eigum að nýta okkur tækifærin, sem í því felast.