8.11.2001

Vélstjóraþing


Vélstjóraþing
Grand hótel,
Reykjavík,
8. nóvember, 2001.Ég þakka stjórn Vélstjórafélags Íslands fyrir að bjóða mér hingað til þessa þings til að ræða við ykkur um þau málefni, sem falla undir menntamálaráðuneytið og snerta vélstjóra.

Þegar við hugum að menntakerfinu er nauðsynlegt að hafa skýra framtíðarsýn fyrir íslenska þjóðfélagið. Í mínum huga er enginn vafi á því, hver þessi sýn er.

Íslendingar verða ekki áfram í fremstu röð meðal þjóða nema lögð sé áhersla á þær atvinnugreinar, sem byggjast á menntun, rannsóknum og vísindum. Hvort heldur við lítum til sjávar eða sveita, snúast umræður frekar um það, hvað við þurfum að gera til að vernda auðlindir sjávar eða gróður jarðar og dýralíf, en hvernig við eigum að auka nýtinguna með meiri sjósókn eða stærri virkjunum, svo að dæmi séu tekin. Jafnframt er að takast víðtækari alþjóðasamvinna en áður um takmörkun á iðnaðarstarfsemi þróaðra þjóða í þágu umhverfisverndar, en Kyoto-samningurinn snýst ekki síst um þetta.

Í þessari stöðu er þess krafist af þjóðum heims, að þær nýti náttúruauðæfi betur en áður og árangur næst ekki í því efni nema með meiri menntun, rannsóknum og þróun. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi hefur undanfarin misseri einkum byggst á störfum, sem krefjast mikillar raunvísindamenntunar.

Snemma árs 1998 kynnti ég nýja skólastefnu og efndi til umræðna um hana um land allt og lagði hana síðan til grundvallar við gerð nýrra námskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og var þeim hrundið í framkvæmd árið 1999. Samhliða vinnu við námskrár í bóknámi framhaldsskólanna var stofnað til starfsgreinaráða á 14 sviðum, sem ná til allra þátta íslensks atvinnulífs. Þessi ráð eiga að gera tillögur til menntamálaráðuneytisins um inntak í starfsnámi, hvert á sínu sviði. Þau eru að meirihluta skipuð fulltrúum atvinnurekenda og launþega og var kvartað undan því á sínum tíma, að skólastjórnendur og kennarar hefðu ekki næg ítök innan þeirra. Það er engin tilviljun að þannig er að málum staðið, því að með framhaldsskólalögunum frá 1996 er einmitt gert ráð fyrir að starfsnám verði eflt í nánu samstarfi við atvinnulífið.

Með þessum lögum voru afnumin sérstök lög um vélstjórnarnám og Stýrimannaskólann. Vélskóli Íslands starfar nú sem sérskóli á grundvelli framhaldsskólalaganna og um innra starf hans gildir námskrá, sem sett er í samráði við starfsgreinaráð sjávarútvegsgreina og siglinga, en þar er Jón Sigurðsson formaður.

Starfsgreinaráðið hefur verið vel virkt og hefur tekið til meðferðar öll mál, sem upp hafa komið og afgreitt þau fljótt og vel, en ekki hefur enn komið til eiginlegrar námskrárgerðar. Nú blasir hins vegar við að laga nám stýrimanna og vélstjóra að alþjóðlegu STCW-reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Lög um þetta voru samþykkt á alþingi í maí 2001. Til að hrinda þeim í framkvæmd er nauðsynlegt að eiga gott samstarf við samgönguráðuneyti og Siglingastofnun, stofnunin þarf að votta, að skólarnir fullnægi þessum reglum, en með þeim er tryggt, að nám í skólunum veitir nemendum þeirra alþjóðleg réttindi. Hefur Vélskóli Íslands fengið styrk frá þróunarsjóði framhaldsskóla til að laga sig að STCW-reglunum.

Unnt er að stunda vélstjóranám til 4. stigs í Vélskóla Íslands og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hér staldra ég sérstaklega við Vélskólann en nafn hans gefur markmið námsins vel til kynna og skólinn stendur á gömlum merg. Námið innan hans er mikið og gott, 4. stigs vélskólapróf er 208 námseiningar, en til stúdentsprófs er krafist 140 eininga. Á þessu ári er fjárveiting úr ríkissjóði á hvern nemanda skólans, sem þreytir próf, 835 þúsund krónur.

Að frumkvæði menntamálaráðuneytisins var framhaldsskólalögum breytt á þann veg árið 2000, að nemendur í starfsnámi geta bætt við sig námi í almennum bóklegum greinum og lokið stúdentsprófi. Telur ráðuneytið, að nemendur, sem hafa lokið 3. stigi vélstjóranáms, þurfi að bæta við sig 27 einingum og þeir sem lokið hafa 4. stigi 20 einingum í bóklegu greinum. Þessum einingum fækkar, ef viðkomandi bóknámsskóli metur sérnám vélstjóranema jafngildi þeirra raungreina, sem er krafist. Verkfræðideild Háskóla Íslands hefur á hinn bóginn tilkynnt, að þeir, sem lokið hafa 4. stigi vélskólaprófs þurfi aðeins að bæta við sig 6 einingum í stærðfræði til að fá inngöngu í deildina.

Vélskóli Íslands er starfræktur á Rauðarárholti innan ramma Sjómannaskóla Íslands, það er í sambýli við Stýrimannaskólann og með eininganámi í báðum skólunum hefur verið stefnt að því að samþætta kennslu innan þeirra. Fyrir nokkrum árum varpaði ég fram þeirri hugmynd, að skólarnir flyttu í nábýli við Tækniskóla Íslands á Höfðabakka. Var því ákaflega illa tekið og talið miklu skipta fyrir framtíð skólanna, að þeir yrðu áfram í Sjómannaskólahúsinu, enda yrði ráðist í endurbætur á því. Hefur það gengið eftir og er nú unnið að endurbótum á húsinu.

Eitt er ytri rammi skólastarfs, en honum hef ég lýst hér með vísan til Vélskóla Íslands, hitt er, að skólar höfði til nemenda og starfi í samræmi við þá sýn, sem þeir hafa á eigin framtíð og atvinnulífsins. Í störfum mínum sem menntamálaráðherra hef ég kynnst skólastarfi í ýmsum myndum og séð skóla vaxa og hnigna. Ég hef einnig hlustað á marga sérfræðinga lýsa þróun skólastarfs og hvað það er, sem ræður vali nemenda á einni námsbraut frekar en annarri.

Niðurstaða mín um val nemenda á námsbrautum er sú, að það ráðist ekki af því, hvar skóli starfar eða hve miklu opinberu fé er veitt til hans, heldur hinu, hvort nemandinn telji tíma sínum vel varið í skólanum og námið þar gefi honum tækifæri til búa sig undir það starf, sem hann sér framundan. Og við val á námsbrautum við núverandi aðstæður vilja nemendur ekki loka sig inni á þröngu sviði, heldur eiga marga kosti. Í því ljósi er athyglisvert, að við innritun á nýjar námsbrautir í framhaldsskólum er náttúrufræðabrautin vinsælust, til dæmis er það svo í Menntaskólanum í Reykjavík, að 80% nemenda eru á náttúrfræðabraut en 20% á málabraut. Ástæðan fyrir vinsældum þessarar brautar er ótvírætt sú, að hún veitir nemandanum meira val við háskólanám að loknu stúdentsprófi, einnig er líklegt, að nemendur átti sig á því, að störfum fjölgar enn á raunvísindasviðinu, ef íslenska þjóðfélagið ætlar að halda áfram að vera í fremstu röð.

Með nýjum innritunarreglum í framhaldsskóla og afnámi skyldunnar til að taka samræmt próf upp úr grunnskóla, hefur verið stofnað til meiri samkeppni en áður milli framhaldsskóla og einstakra námsbrauta. Skiptir miklu, að höfðað sé með réttum hætti til grunnskólanema, ef menn vilja hvetja þá til að leggja eitthvert sérgreint nám fyrir sig. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á það, að ekki sé um blindgötur í framhaldsskólum að ræða og er markmiðið, að af öllum brautum geti nemendur haldið áfram upp á háskólastig, ef þeir kjósa, þótt leiðin geti verið misjafnlega löng. Hefur menntamálaráðuneytið þegar kynnt reglur um viðbótarnám að loknu þriggja og fjögurra ára starfsnámi og er að smíða reglur um viðbótarnám að loknu námi á styttri starfsnámsbrautum. Þeir, sem þessar brautir velja, geta þá í senn aflað sér starfsréttinda með framhaldsskólanámi og lagt grunn að háskólanámi.


Mikið hefur verið rætt um hvað veldur minni aðsókn nemenda í sjómannanámið og hver sem ástæðan er, verður ekki snúið af þessari braut nema með einum hætti, að námið í þessum starfsgreinum höfði meira en nú er til ungs fólks. Góður vilji yfirvalda menntamála í garð þessa náms skiptir vissulega máli en ræður engum úrslitum. Meginmáli skiptir að skapa það andrúmsloft meðal ungs fólks í kringum þetta nám, að það höfði til stærri hóps en nú er. Í því sambandi er nauðsynlegt að kynna námið vel og sýna, hvaða kosti það býður.

Ég hef kynnst því, hve mikill kraftur er í einkaaðilum, sem taka að sér skólarekstur. Umsvifin margfaldast á skömmum tíma eins og við höfum séð í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Eftir þriggja til fimm ára starf er nú meira að segja farið að ræða um það á alþingi, að þessir skólar ógni 90 ára gamalli stofnun eins Háskóla Íslands. Hvers vegna? Jú, vegna þess að skólarnir höfða svo sterkt til nemenda, jafnvel þótt þeir þurfi að greiða mörg hundruð þúsund krónur í skólagjöld. Háskólinn í Reykjavík hefur reist 4000 fermetra nýbyggingu á tæpu ári fyrir 460 milljónir króna og tvöfaldaði þar með húsnæði sitt, án þess að ríkissjóður veitti nokkru fé til þeirrar byggingar. Ráðgerir skólinn frekari stækkun vegna mikillar aðsóknar.

Ég hef spurt mig: Hvers vegna er ekki unnt að fá einkaaðila til að koma að rekstri skóla í þágu annarra greina en viðskipta- og tölvugreina eða listgreina?

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur undanfarið sýnt vaxandi áhuga á því að taka að sér rekstur Stýrimannaskólans og Vélskóla Íslands og hef ég fagnað því frumkvæði. Hef ég hvatt til þess að leitað verði samstarfs við sem flesta í viðkomandi greinum til að koma að þessum skólarekstri, en í mínum huga er þar ekki um úrslitaatriði að ræða. Mestu skiptir fyrir nemendur að skólinn veiti gott og markvisst nám en ekki hverjir sitja í stjórn hans, og fyrir ríkið, að það hafi traustan viðsemjenda, sem tekur að sér verkefnið með metnaðarfull markmið fyrir skólastarfið í huga.

Ég geri mér grein fyrir því, að í Vélskóla Íslands leita menn ekki einungis til að mennta sig til starfa til sjós. Skólinn hefur víðtækari skírskotun með námi sínu. Ég er þeirrar skoðunar, að hver sem hefur áhuga á að reka skólann muni vilja styrkja þá ímynd hans, að hann veitti hagnýtt nám til margra starfa á sjó og landi. Hann mennti fólk, sem verði virkir þátttakendur á öllum sviðum atvinnulífsins og njóti réttinda til starfa á alþjóðavettvangi.

Góðir áheyrendur!

Ég hóf mál mitt á að lýsa því, að við skipulag menntakerfisins yrðum við að hafa skýra framtíðarsýn fyrir íslenska þjóðfélagið. Í mínum huga er enginn vafi á því, að menntun á borð við þá, sem nú er veitt í Vélskóla Íslands, á sinn þátt í því að gera Ísland að landi tækifæranna.

Ég lýk máli mínu með að fagna því, að þið skulið helga fyrsta dag þings ykkar menntamálunum og fá hingað skólamenn og fulltrúa atvinnulífsins til að ræða þau. Ég er fús til að vinna með ykkur að framgangi allra góðra hugmynda til að styrkja menntun á starfssviði ykkar og stuðla að því að hún höfði sem mest til ungs fólks.