Nýtt hús Háskólans í Reykjavík
Nýtt hús
Háskólans í Reykjavík.
5. nóvember 2001.
Ég óska Háskólanum í Reykjavík innilega til hamingju með daginn í dag, þegar húnæði skólans tvöfaldast og verður átta þúsund fermetrar. Hraðinn við þessar framkvæmdir er í góðu samræmi við hina öru og metnaðarfullu þróun skólans frá því að starfsemi hans hófst hér á þessum stað haustið 1998. Þá voru nemendur skólans 300 en nú í haust eru 957 innritaðir í Háskólann í Reykjavík.
Þegar mér var fyrst kynnt hugmyndin um þennan háskóla, taldi ég nauðsynlegt að fá lagaheimild til að viðurkenna hann og semja við stjórnendur hans um greiðslu kostnaðar vegna reksturs hans úr ríkissjóði. Þetta gekk eftir með háskólalögum, sem tóku gildi 1. janúar 1998 og á grundvelli þeirra viðurkenndi ég síðan skólann, veitti honum starfsleyfi og samdi við hann um fjárframlög.
Ég rifja þetta upp núna til að árétta, hve mikið hefur áunnist á skömmum tíma með Háskólanum í Reykjavík. Skólinn hefur ekki aðeins eignast glæsilegan samastað í þessum góðu húsakynnum á undraskjótan hátt heldur hefur hann áunnið sér vinsældir og traust meðal nemenda, undir merkjum hans hefur orðið til alþjóðlegt samstarf og þróast endurmenntun og stjórnendanám, sem höfðar til margra.
Skólinn er dæmigerð þekkingarmiðstöð og þar með hornsteinn þeirrar atvinnustarfsemi, sem við Íslendingar verðum að treysta á til framtíðar, ef við viljum halda áfram að vera í fremstu röð og lifa í landi tækifæranna.
Á öllum málum eru að minnsta kosti tvær hliðar, einnig stuðningi ríkisins við einkaháskóla, en vinsældir þeirra meðal nemenda og aukið námsframboð hefur kallað á umræður um fjárveitingar til ríkisháskóla og stöðu þeirra í samkeppninni. Fyrir eðlilega framvindu háskólastigsins er nauðsynlegt að ræða nýjar aðstæður af opnum huga og með sanngjarna niðurstöðu að leiðarljósi, án þess að skorður séu settar við frjálsu framlagi nemenda í einkaháskólum til eigin menntunar.
Ég veit, að stjórnendur Háskólans í Reykjavík stefna að enn frekari vexti skólans og eru nú meðal annars að undirbúa kennsku í lögfræði. Vil ég í því efni hvetja þá að huga ekki síður að raunvísindum en hugvísindum. Athyglisvert er, að við innritun í framhaldsskóla á þessu hausti er áhugi nemenda á hinni nýju náttúrufræðibraut meiri en vænta hefði mátt miðað við umræður um áhugaleysi á raunvísindum. Við getum ekki við það unað, að frá íslenskum háskólum komi hlutfallslega færri raungreinamenntaðir kandidatar en hjá nokkurri annarri þjóð á sambærilegu menntunarstigi. Minnumst þess, að atvinnustarfsemi hér heima og erlendis byggist sífellt meira á raunvísindalegri þekkingu.
Mér er ljóst, að innan Háskólans í Reykjavík er mikill áhugi á því að efla rannsóknastarfsemi, hér og í öðrum háskólum er þess beðið, að samið sé um fjármögnun ríkisins á þessum þætti í starfi skólanna eins og kennsluþættinum. Töluverð vinna hefur verið unnin við að undirbúa slíka samninga, línur hafa skýrst og tryggðar hafa verið 450 milljónir króna í heild á þremur árum til að auka framlag ríkisins til rannsókna. Samningur hefur hins vegar ekki enn verið gerður við neinn skólanna og vil ég ekki lofa neinum tímamörkum í því efni á þessari stundu. Á hinn bóginn gerði menntamálaráðuneytið sérstakan samning á dögunum við Háskólann í Reykjavík um rannsóknir í þágu fjarskipta með tölvum.
Góðir áheyrendur!
Ég ítreka heillaóskir mínar til Háskólans í Reykjavík á þessum tímamótum í starfi hans. Megi hann halda áfram að eflast með mikinn metnað á öllum sviðum að leiðarljósi.