5.11.2001

Landsaðgangur að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum


Aðgangur að
rafrænum tímaritum,
málþing,
Þjóðarbókhlaðan,
5. nóvember, 2001.


Í nýjasta hefti vikuritsins The Economist ritar Peter Drucker, hinn heimsfrægi ráðgjafi um þróun þjóðfélaga og fyrirtækja, um komandi eða næsta samfélag okkar mannanna. Þar segir hann, að hugtökin “þekkingariðnaður”, “þekkingarstörf” og “þekkingarstarfsmaður” séu aðeins 40 ára gömul. Þau hafi fæðst um svipað leyti en þó ekki á sama stað eða tíma og hafi hann búið til tvö þeirra. Nú noti allir þessi hugtök, þótt fáir ef nokkur skilji til fulls, hvaða áhrif þau hafi á mannleg gildi og mannlega hegðun, hvernig megi nýta þau við stjórn fyrirtækja eða til að auka framleiðni þeirra, og á hvaða hátt þau eigi eftir að breyta efnahagsmálum og stjórnmálum. Hitt sé hins vegar ljóst, að væntanlegt þekkingarþjóðfélag og þekkingarefnahagskerfi verði allt annars konar er þjóðfélagið og efnahagslífið á síðustu áratugum 20. aldarinnar.

Ég ætla ekki að rekja það hér, hvernig Drucker sér þjóðfélagið þróast með þekkinguna að leiðarljósi og sem ráðandi afl. Á hinn bóginn vek ég máls á hugmyndum hans hér í upphafi þessa málþings til að árétta, að undanfarin ár hef ég lagt á það áherslu, að við skipulag íslenskra menntamála, rannsókna og vísinda verði tekið mið af því, að Ísland verði í fremstu röð meðal þekkingarríkja.

Í mínum huga gegnir upplýsingatæknin miklu máli við þróun þekkingarþjóðfélagsins og árið 1996 markaði menntamálaráðuneytið upplýsingatæknistefnu sína. Frá þeim tíma hefur hin nýja tækni og áhrif hennar orðið sífellt ríkari þáttur við alla stefnumótun í menntun og menningu og nýlega breytti ég skipulagi menntamálaráðuneytisins til að styrkja hlut þessa þáttar enn frekar innan þess. Á þremur árum hefur ríkisstjórnin lagt alls 450 milljónir króna til upplýsingatækniverkefna á vegum ráðuneytisins. Hefur þessum fjármunum meðal annars verið varið til að standa straum af kostnaði við endurmenntun kennara, gerð kennsluhugbúnaðar, þróun fjarkennslu og tækjabúnað.

Kjarni þekkingarþjóðfélagsins er aðgangur allra að sem mestum og bestum upplýsingum til að þróa eigin þekkingu. Miðlun upplýsinga er því óhjákvæmileg til að styrkja inniviði þessa þjóðfélags. Íslendingar geta nýtt sér kosti hinnar nýju tækni með einstökum hætti í þessu skyni vegna þess, hve hátt hlutfall þjóðarinnar hefur aðgang að netinu og öllu því, sem það hefur að bjóða. Þróunin hefur verið einstaklega ör á þessu sviði, eins og sést til dæmis á því, að fjöldi þeirra, sem stunda fjarnám við íslenska skóla tvöfaldast á þessu ári miðað við hið síðasta, og er nú rúmlega 2000. Við eigum að búa þannig um hnúta, að hið rafræna umhverfi standi öllum Íslendingum opið og þar sitji menn við sama borð án tillits til búsetu eða aðstöðu að öðru leyti. Í þessu sambandi nefni ég sérstaklega tvö nýleg verkefni, sem nú eru að koma til sögunnar: Landskerfi bókasafna og aðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.

Frá árinu 1997 hefur verið unnið að því undir forystu menntamálaráðuneytisins að koma á sameiginlegu bókasafnskerfi, sem á að þjóna öllum bókasöfnum í landinu. Lagði nefnd með fulltrúum ráðuneytisins, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga til að fest yrðu kaup á Aleph 500 kerfinu frá ísraelska fyrirtækinu ExLibris. Hefur ráðuneytið unnið að því að tryggja fé til að kaupa og reka kerfið og síðar í þessum mánuði verður stofnað hlutafélag um landskerfið. Hafa allir, sem málið varðar, sýnt þessu verkefni mikla velvild og áhuga - jafnt sveitarfélög, ríkisstofnanir sem starfsmenn bókasafna víða um land. Þegar er hafin vinna við að setja kerfið upp og hafa verið ráðnir þrír kerfisbókaverðir til að sinna því verkefni. Með Landskerfi bókasafna verður gjörbreyting á bókasafnsþjónustu hér á landi og verður Ísland í fremstu röð ríkja við miðlun upplýsinga um bækur og tímarit og efni þeirra.

Vorið 1998 skipaði ég nefnd til að skilgreina þörf bókasafna, stofnana og einstaklinga fyrir rafræn gagnasöfn. Þann ánægjulega árangur, sem náðst hefur í samningum um rafræn gagnasöfn og tímarit og kynntur er hér í dag, má rekja til góðra starfa þessarar nefndar. Að samið sé um aðgang heillrar þjóðar að rafrænu efni á þann hátt, sem hér um ræðir, er einstakt í heiminum.

Þeir, sem best til þekkja, fullyrða, að með Landskerfi bókasafna og hinu nýja, almenna aðgengi að rafrænum gögnum sé Ísland í raun komið í fremstu röð í miðlun upplýsinga og bókasafnsgagna. Rafrænu gagnasöfnin og tímaritin mynda raunar nýtt rafrænt upplýsingasafn og stórauka þannig gagna- og ritakostinn í bókasöfnum landsins. Vil ég færa verkefnisstjórninni, sem hefur unnið að samningum um aðgang að rafrænum gagnasöfnum, og Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni, sem hefur tekið að sér umsýslu með rafrænum gögnum, bestu þakkir fyrir þann árangur, sem náðst hefur á skömmum tíma í þessum efnum.

Flestir nýgerðra samninga gilda til loka ársins 2002. Tímann á að nota til að meta að árangurinn af þeim og síðan verður tekin ákvörðun um framhaldið. Enn hefur ekki tekist að finna öruggan fjárhagslegan grundvöll fyrir þessa nýju þjónustu. Þegar aðgangur er öllum opinn er hættan sú, að enginn telji sér skylt að greiða fyrir hann. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Að sjálfsögðu þarf að greiða fyrir þessa þjónustu, en hún hlýtur jafnframt að leiða til hagræðis hjá þeim, sem nýta hana. Er það von mín, að með aukinni kynningu átti fleiri en áður sig á því, hve miklir kostir fylgja þessari nýju þjónustu og taki þátt í því með ráðuneytinu og öðrum að tryggja fjárhagslegar forsendur hennar. Tilraunatíminn verður notaður til að finna bestu leiðina til að standa undir óhjákvæmilegum kostnaði.

Samkvæmt tölum um aðsókn að vefsíðunni hvar.is hafa rafrænu gagnasöfnin þegar fest sig í sessi. Þau eru ómetanlegt tæki til að styrkja stöðu íslenska þjóðfélagsins meðal þekkingarþjóðfélaga. Kostnaðurinn, sem fylgir hinum opna og ótakmarkaða aðgangi að þessum þekkingarbrunnum, er fjárfesting sem skilar sér með margföldum hætti. Ef við nýtum okkur ekki þetta einstæða tækifæri, felst í því ákvörðun um að vilja ekki verða áfram í fremstu röð meðal þjóða heims.


Ég segi málþingið um aðgang Íslendinga að rafrænum tímaritum á Netinu sett.