26.10.2001

Myndlistarþing


Myndlistarþing,
26. október, 2001.


Ég vil í upphafi máls míns óska Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Myndstefi til hamingju með að efna til þessa myndlistarþings og taka hér til umræðu viðfangsefni, sem tengjast stöðu myndlistarmanna við nýjar og breyttar aðstæður, í ljósi nýrrar tækni og breytinga á íslenskum myndlistarmarkaði.

Hvarvetna þar sem menningarmálaráðherrar koma saman á alþjóðavettvangi eru áhrif upplýsingatækninnar til umræðu, en þau birtast í svo mörgum myndum á menningarlegum vettvangi, að í raun má segja, að á örfáum árum hafi hann tekið á sig gjörbreytta mynd. Nú er talið, að um 500 milljónir manna hafi aðgang að netinu og hvergi er hlutfallið hærra hjá einni þjóð en hér á landi. Hin mikla notkun netsins kallar á það, að menn hugi að því að nýta það sem best til að kynna menningu af öllu tagi, og víða eru myndlistarmenn og söfn með verkum þeirra komin langt á þeirri braut.

Þessi nýja tækni krefst þess einnig að hugað sé að höfundarrétti með öðrum hætti en hefur verið gert áður. Í því efni þarf að líta til margra þátta, því að í senn stendur viljinn til þess, að verk listamanna séu aðgengileg sem flestum og að réttur þeirra til verka sinna sé verndaður.

Með nýrri innlendri höfundarréttarlöggjöf hefur staða myndlistarmanna hér á landi breyst til batnaðar síðustu ár og er ekki neinn vafi á því, að þar hefur Myndstef unnið gott og árangursríkt starf. Ég nefni til dæmis nýju lögin um bóksafnssjóð höfunda, þar sem komið er til móts við rétt myndlistarmanna til greiðslu fyrir afnot af verkum þeirra í bókasöfnum eins og verkum annarra.

Ekki er mjög langt um liðið síðan hart var deilt um nýja reglugerð, þar sem ákveðið var höfundarréttargjald á ónotaða geisladiska. Hef ég aldrei fengið eins mörg skammarbréf í tölvupósti eins og vegna þeirrar gjaldtöku, en látið var í veðri vaka, að með henni væru óbærilegar álögur lagðar á þá, sem nota þessa diska í tölvum sínum, og jafnframt stuðlað að því að drepa hugbúnaðargerð í landinu í dróma. Frá mínum bæjardyrum séð, er mikils virði að búa þannig um hnúta, að þeir, sem sinna skapandi störfum fái umbun fyrir þau og aðrir geti ekki nýtt þau án virðingar fyrir eignarréttinum. Virða ber höfundarréttinn og sjá til þess með almennum reglum, ef nauðsyn krefst, að greitt sé fyrir almenn afnot af þessum eignum manna eins og öðrum.

Menntamálaráðuneytið hefur stuðlað að því að gera íslenska myndlist aðgengilega á netinu, einkum með því að veita fé til Upplýsingamiðstöðvar myndlistar, en um hana hefur verið fjallað fyrr á þessu þingi, þannig að ég þarf ekki að lýsa fyrir ykkur því mikla starfi, sem þar hefur verið og er unnið. Samningur ráðuneytisins um miðstöðina rennur út í árslok 2002, en frá upphafi til loka samningstímans er gert ráð fyrir, að 15 milljónum króna sé varið til miðstöðvarinnar úr ríkissjóði.

Menntamálaráðuneytið stefnir að því að á næsta ári verði gert átak í skráningu á menningarefni á netið og er undirbúningur þess hafinn. Mun ráðuneytið hafa forgöngu um útgáfu leiðbeininga við slíka skráningu. Má nefna, að Gunnar J. Árnason heimspekingur hefur tekið að sér að vinna að þessu verkefni fyrir menntamálaráðuneytið. Jafnframt verður unnið að því að endurskilgreina hlutverk Menningarnetsins í því skyni að gera menningarefni aðgengilegra á netinu en nú er. Það verði menningargátt með leitarvél sem dragi saman efni frá öllum þeim sem bjóða aðgang að menningu og listum. Leitað verður eftir samstarfi við einkaaðila og stofnanir um skipulag menningargáttar.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er með öðrum orðum gert ráð fyrir 10 m. kr. til svonefndrar lýsigagnaskráningar á menningarefni. Hugmyndin er sú að allar menningarstofnanir og aðrir sem vinna með menningarefni skrái það samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Stefnt er að því að gera upplýsingar aðgengilegar á netinu og samhæfðar þannig að hægt sé að tengja saman efni frá mörgum söfnum og menningarstofnunum. Sem dæmi um þá kosti sem slík skráning býður má nefna að hægt væri að finna á einum stað upplýsingar um öll listaverk sem unnin voru á ákveðnu tímabili eða tengjast tiltekinni liststefnu. Þannig er hægt að fá fram allt það efni sem er á boðstólum um listaverkin s.s. myndir og umfjöllun úr ólíkum áttum. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir miðlun íslensks menningararfs innanlands og á alþjóðlegum vettvangi þar sem gengið er út frá alþjóðlegum stöðlum um skráningu menningarefnis. Slíkt kerfi skapar nýjar forsendur á mörgum sviðum eins og fyrir menningartengda ferðaþjónustu þar sem hægt væri að draga saman upplýsingar frá ólíkum söfnum og menningarstofnunum til að miðla til ferðamanna.

Á vegum ráðuneytisins hefur undanfarin tvö ár verið unnið að þróun samsvarandi skráningar á menntaefni. Sú reynsla mun nýtast vel við skráningu menningarefnis og einnig opnast spennandi leiðir til að samnýta mennta- og menningarefni t.d. við listkennslu í skólum.

Einstakar stofnanir á vegum menntamálaráðuneytisins vinna að því að setja efni frá sér inn á netið eða búa til aðgengilega gagnagrunna. Má þar nefna Listasafn Íslands, sem á morgun stígur stórt skref á þessari braut með því að opnaður verður að hluta stafrænn gagnagrunnur þess og í tölvum geta gestir skoðað um 1000 verk Gunnlaugs Schevings.

Kynning á íslenskri myndlist er mikið og verðugt verkefni. Er nú unnt að vinna að henni eftir fleiri leiðum en nokkru sinni fyrr og ber að nota þær allar og eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Til dæmis er það nú orðið algengara en áður, að sérfræðingar fari á milli landa og kynni sér listaverk og starf listamanna í því skyni að taka síðan að sér að koma þeim á framfæri. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að huga að því, hvernig best verði staðið að því að sinna verkefnum hér heima fyrir á þessu sviði.

Hinn 10. október síðastliðinn var sýning á verkum 14 listamanna úr Listasafni Íslands opnuð í hinu viðurkennda Cocoran-safni í Washington. Er það mál sérfróðra manna, að sjaldan eða aldrei hafi íslenskum myndlistarmönnum verður sýndur jafnmikill sómi á alþjóðavettvangi og með sýningu í þessu einstaka safni.

Sýningin í Washington er afrakstur hins mikla kynningarstarfs í tengslum við árþúsundamótin og fund Ameríku. Sannast enn með henni, hve mikils virði það er að setja sér háleit markmið við kynningu á íslenskri list erlendis og vinna hiklaust að því að ná þeim, þótt þau kunni að virðast fjarlæg, þegar lagt er af stað.

Fyrir fáeinum dögum kom ég frá París, þar sem ég átti þess meðal annars kost að ræða við þá starfsmenn franska menningarmálaráðuneytisins, sem vinna að því með fulltrúum íslenskra stjórnvalda að undirbúa íslenska menningarkynningu í Frakklandi en stefnt er að því að til hennar verði efnt á árinu 2004.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að menn eigi að treysta um of á frumkvæði opinberra aðila við kynningu á list, heldur skuli unnið að þessum verkefnum í samvinnu þeirra og samtaka listamanna eða þeirra, sem vinna að kynningu íslenskrar myndlistar og annarra listgreina heima og erlendis.

Undanfarin ár hef ég átt gott samstarf við Samband íslenskra myndlistarmanna og fengið þaðan margar ábendingar um það, sem mætti betur fara meðal annars í löggjöf um starfslaun listamanna. Vegna þess hef ég ákveðið að skipa starfshóp til að fara yfir þessi lög og láta mér í té álit á því, hvort ástæða sé til að breyta þeim með hliðsjón af athugasemdum SÍM eða vegna annarra vankanta á þeim. Hefur verið óskað eftir því, að Bandalag íslenskra listamanna og stjórn starfslaunasjóðs listamanna tilnefni hvor sinn fulltrúa til að vinna að þessu máli með fulltrúa frá ráðuneytinu.

Góðir þingfulltrúar!

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur. Í dag skapast nýjar og betri aðstæður í starfi Sambands íslenskra myndlistarmanna, þegar myndlistarsamtökin fá nýtt húsnæði til afnota í hjarta gömlu miðborgarinnar. Má segja, að ekki sé vanþörf á því, að þar festi ný starfsemi rætur og munu myndlistarmenn í framtíðinni eiga samastað í næsta nágrenni við tónlistarhúsið, sem rís hér við höfnina.

Þess sjást víða merki, að forráðamenn sveitarfélaga skynja gildi þess að búa menningarstarfsemi sem best skilyrði til að auðga og bæta mannlífið hver á sínum stað og nýlega var kynnt merkileg skýrsla með hugmyndum um menningartengda ferðastarfsemi, sem sjálfsagt er fyrir listamenn að kynna sér, því að þar fær skapandi starf þeirra enn nýja viðurkenningu.

Ég lýk máli mínu með því að óska íslenskum myndlistarmönnum velgengni við hinar nýju aðstæður, sem eru kynntar hér á þessu þingi. Þeir búa svo sannarlega yfir nægilegum sköpunarmætti til að nýta sér þær og þjóðinni allri til heilla.