29.9.2001

Skólamálaþing - Akureyri


Skólamálaþing 2001
Fagmennska kennara og einkavæðing skóla,
29. september, 2001,
Menntaskólinn á Akureyri.



Mér er veitt sú ánægja og heiður að fá að flytja ræðu bæði á þessu skólamálaþingi hér á Akureyri og einnig hinu, sem haldið var í Reykjavík 8. september síðastliðinn.

Síðan þingið var haldið í Reykjavík hefur Kennarasamband Íslands eflst og stækkað með aðild Félags leikskólakennara. Óska ég forystu og félögum KÍ til hamingju með að þessum merka áfanga er náð. Skólamálaþingin eru skýr vitnisburður um mikinn metnað til að taka á viðfangsefnum og ræða þau frá ólíkum hliðum.

Var fróðlegt að hlýða á prófessor Andy Hargreaves lýsa þróun kennarastarfsins á þinginu í Reykjavík og hinum breyttu kröfum, sem til kennara eru gerðar og hvaða sjónarmið eru nú uppi í því efni. Þótti mér viðhorf hans falla að því, sem nú setur mark sitt á stefnu menntamálaráðuneytisins undir kjörorðinu: Forskot til framtíðar. Hún byggist á því, að upplýsingatæknin, krafa um sveigjanleika og náin tengsl skóla við heimili og vinnustaði krefjist nýrra vinnubragða við skipulag á öllu skólastarfi.

Prófessorinn taldi, að færðist skólinn ekki nær umhverfi sínu með nánara sambandi skóla og heimila, myndu kröfur um einkarekstur skólanna aukast, því að með slíkum rekstri teldi almenningur, að hann gæti á auðveldari hátt en ella skapað nauðsynleg tengsl sín við kennara. Hann lagði á það áherslu, að kennari ætti að nálgast nemanda sinn eins og læknir sjúkling, það er spyrja og fræðast um getu og hæfileika hvers og eins og veita menntun í samræmi við það en ekki telja sig vita fyrirfram og að óathuguðu máli, hvað hverjum og einum væri fyrir bestu.

Afstaða til skóla mótast að sjálfsögðu mjög af þeim hugmyndum, sem foreldrar hafa um fagmennsku og störf kennara og því er í senn tímabært og verðugt að ræða skólastarf undir þeim formerkjum, sem hér er gert.

Í ræðu minni í Reykjavík beindi ég athygli að þeim þætti, sem lýtur að samskiptum opinberra aðila og einkaaðila við rekstur skóla. Hér ætla ég hins vegar að fjalla um faglegu hliðina með því að ræða um framtak kennara í því í skyni að bæta lestrarkunnáttu og lögverndun kennarastarfsins.

Áður en ég kem að þessum efnum vil ég rifja upp, hve miklar og vaxandi kröfur eru gerðar til skólanna og þar með starfa kennara. Í skólastefnunni, sem hrundið var í framkvæmd með nýju námskránum fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sumarið 1999, segir, að menntakerfið eigi að vera sveigjanlegt til að mæta nýjungum og breyttum kröfum. Höfuðskylda þess sé þó að veita nemendum góða, alhliða menntun. Almenn menntun sé besta veganesti sérhvers einstaklings í þekkingar- og upplýsingasamfélaginu. Einstaklingurinn verði strax á ungum aldri að búa sig undir þá staðreynd, að menntun sé æviverk. Námskrá verði aldrei sett í eitt skipti fyrir öll, því að sjóndeildarhringurinn stækki og úrlausn fleiri viðfangsefna daglegs lífs færist inn í skólana. Vegna breytinga á fjölskyldu- og heimilislífi séu gerðar nýjar kröfur til skólanna.

Sjálfstraust, vilji og hæfileiki til að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir og hæfileiki til að bregðast fljótt og skynsamlega við nýjum aðstæðum auðveldi glímuna við samtíð og framtíð. Gagnrýnin hugsun, heilbrigð dómgreind og verðmætamat ásamt umburðarlyndi leggi grunn að farsæld. Í skólum beri að efla nemendum metnað og jákvæða sjálfsmynd. Þannig verði þeir sterkari einstaklingar. Þeir verði að geta látið skoðanir sínar í ljós, vera óhræddir við breytingar, geta tekið áhættu og borið ábyrgð á gerðum sínum. Rækta beri hæfileika til að njóta menningar og lista og til að leggja sitt af mörkum á þeim vettvangi. Til að styrkja einstaklinga eigi skólinn að bjóða nám, sem auðveldar þeim að átta sig á eigin stöðu í nútímasamfélagi. Þessar skyldur skólans falli undir hugtakið lífsleikni og miði að því að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með því að dýpka skilning þeirra á samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu, náttúru, fjölskylduábyrgð, fjármálaskyldum, einstaklingsskyldum og rétti.

Ég ætla ekki lýsa stefnunni að baki nýju námskránum frekar, en þessir kaflar sýna, hve miklar kröfur gerðar eru til skólanna í nútímaþjóðfélagi og hve miklar vonir eru bundnar við árangur af fagmennsku kennara við störf þeirra. Við gerð námskránna og framkvæmd þeirra hef ég kynnst því einna best á þeim rúmu sex árum, sem ég hef gegnt embætti menntamálaráðherra, af hve miklum metnaði kennarar ganga til sífellt mikilvægari starfa sinna.

Þess er í vaxandi mæli krafist, að í skólum sé lögð rækt við ákveðna grunnfærni. Þar skiptir lestur að sjálfsögðu sköpum, án þess að kunna að lesa náum við ekki árangri í neinu námi og njótum okkar ekki heldur í nútímaþjóðfélagi á borð við hið íslenska.

Alþingi samþykkti vorið 2000 ályktun um, að könnun færi fram á því, hvernig lestrarkunnáttu fullorðinna Íslendinga væri háttað. Endurspeglaði ályktunin áhyggjur þingmanna vegna vaxandi ólæsis meðal fullorðinna. Í sumar þótti fréttnæmt, að ég hefði ekki enn látið framkvæma þessa könnun. Í umræðum um málið gaf ég þá skýringu, að sérfræðingur, Jón Torfi Jónasson prófessor við Háskóla Íslands, hefði sagt, þegar ráðuneytið leitaði álits hans, að ekki væri þörf á að verja fé til að spyrja um lestrarkunnáttuna, miklu nær væri að einbeita sér að því að auka hana.

Telur Jón Torfi að án sérstakrar rannsóknar megi álykta, að ólæsi fullorðinna sé 10 til 15% hér á landi og Rannveig G. Lund, forstöðumaður Lestrarmiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands, tekur undir þessa skoðun. Hún hefur staðfest við mig, að rannsóknir miðstöðvarinnar sýni, að 12,5% til 14,8% nemenda hafi ekki náð tökum á aðferðum við að lesa og stafsetja í lok 9. bekkjar, en þá er ekki langt í að þeir verði 18 ára og komist í tölu fullorðinna.

Ég er þeirrar skoðunar, að besta leiðin til að sinna þessu verkefni, sé, að auðvelda kennurum að takast sem fyrst á við vanda þeirra nemenda, sem glíma við lesröskun. Í því skyni hefur menntamálaráðuneytið nýlega gert samning við Ingibjörgu Símonardóttur og Jóhönnu Einarsdóttur talmeinafræðinga og Amalíu Björnsdóttur dósent um stuðning til að fullvinna greingartækið Hljóm, sem á að nýtast á leikskólastigi til að stuðla að því að finna sem fyrst og á markvissan hátt þau börn, sem hugsanlega geta síðar þurft að glíma við lestrarerfiðleika. Þetta takmark næst þó ekki með greiningartækinu einu heldur er mjög treyst á fagmennsku leikskólakennara og að unnt sé að flytja upplýsingar um börnin frá einu skólastigi til annars.

Í byrjun júní 2000 efndi menntamálaráðuneytið til málþings um lestrarörðugleika og lesskimun, sem um 300 manns sóttu. Eftir það ákvað ég að ganga til samninga við Guðmund B. Kristmundsson og Þóru Kristinsdóttur við Kennaraháskóla Íslands um að styrkja útgáfu á lesskimunarprófum fyrir 1. og 2. bekk grunnskóla, sem þau hafa þýtt og staðfært að norskri fyrirmynd og á liðnum vetri voru þau boðin grunnskólum til notkunar, en þau Guðmundur og Þóra fóru í fjölmarga skóla og kynntu prófin auk handbókar til kennara um lestrarkennslu. Hafa kennarar tekið þeim vel og þjónar framtakið vonandi því markmiði sínu, að auðvelda kennurum að skipuleggja markvissa lestrarkennslu og veita þeim nemendum stuðning, sem glíma við erfiðleika í lestri.

Nýlega barst mér í hendur skýrsla, sem Rósa Eggertsdóttir og Þóra Björk Jónsdóttir hafa unnið um aðstoð við nemendur með leshömlun á vegum Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri og Skólaskrifstofu Skagfirðinga og byggist á könnun í framhaldsskólum og háskólum veturinn 2000 til 2001. Þar kemur fram, að rúm 6% nemenda í framhaldsskólum búi við skilgreinda leshömlun en á háskólastigi njóti 1% nemenda einhvers konar fyrirgreiðslu eða aðstoðar vegna leshömlunar. Telja höfundar brýnt að skipuleggja stuðning við leshamlaða betur á þessum skólastigum, en fram kemur, að skólar taka á viðfangsefninu með mjög mismunandi hætti. Þá sé mikilvægt að miðla aukinni fræðslu um málið bæði til kennara og nemenda og móta stefnu varðandi greiningu á leshömlun og ræða hver skuli standa undir kostnaði við lesgreiningu, eftir að skyldunámi lýkur. Loks er talið nauðsynlegt, að menntamálaráðuneytið sjái til þess, að sérfræðingar geti öðlast réttindi eða viðurkenningu til að stunda lesgreiningar.

Mér finnst þessi lýsing á viðbrögðum við lesröskun eða leshömlun sýna vel, hvernig skólakerfið bregst við viðfangsefni af fagmennsku og leitast við að snúa vörn nemenda, sem eiga undir högg að sækja, í sókn, svo að hæfileikar þeirra njóti sín sem best. Á öllum skólastigum er leitað nýrra og betri úrræða til að auðvelda nemendum að sigrast á skilgreindum vanda. Að sjálfsögðu má gera betur og ég veit, að það verður gert, enda eru allar forsendur til þess með framkvæmd á því, sem þegar hefur verið undirbúið. Ég tel æskilegt, að stjórnendur og kennarar í háskólum og framhaldsskólum kynni sér hina nýju skýrslu um sín skólastig og hef í samvinnu við Háskólann á Akureyri gert ráðstafanir til að hún verði send hverjum skóla, svo að allir geti fetað í fótspor þeirra, sem standa best að þjónustu við lesblinda nemendur.

Þá tel ég brýnt, að skólar og aðilar vinnumarkaðarins, sem setja nú meira fé til menntamála en nokkru sinni, taki höndum saman í baráttunni gegn ólæsi og áhersla verði lögð á hana í símenntunarstarfi. Í stuttu máli eigum að láta verkin tala strax en ekki setjast við að rannsaka eitthvað, sem við vitum nú þegar.


Kem ég þá að seinna atriðinu, sem ég ætla að ræða hér í dag og varðar lögverndun kennarastarfsins. Skólastigin eru fjögur eins og við vitum og um tvö þeirra gilda lög um verndun starfsheitis og starfsréttinda kennara og skólastjóra, það er grunnskólann og framhaldsskólann. Leikskólakennarar hafa óskað eftir lögverndun á starfsheiti sínu en um það hefur ekki náðst samstaða, þá hafa talsmenn námsráðgjafa óskað eftir hinu sama og hér að framan gat ég um, að æskilegt sé talið að viðurkenna þá, sem stunda lesgreiningar.

Í júlí síðastliðnum ritaði ég Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og félagsvísindadeild Háskóla Íslands bréf og kynnti þeim áform menntamálaráðuneytisins um endurskoðun á lögverndunarlögunum svonefndu. Óskaði ég eftir sjónarmiðum þessara aðila varðandi efni laganna og hvort þeir teldu nauðsynlegt að breyta þeim. Svör hafa verið að berast allt fram í þessa viku en nú liggja viðhorf þeirra allra fyrir. Innan ráðuneytisins verða einstakar hugmyndir metnar og síðan lagt á ráðin um næstu skref.

Frumkvæði ráðuneytisins stafar af því, að rekstrarumhverfi skólanna hefur breyst mikið síðustu ár og snerta breytingarnar ekki síst tengsl stjórnenda við starfsmenn sína. Stjórnendur skóla eru sjálfstæðari en áður. Í því ljósi kann að þykja úrelt, að undanþágunefnd eða menntamálaráðherra eigi að hafa síðasta orðið um það, hver er ráðinn í tiltekna stöðu í skólum. Hvorki nefndin né ráðherra bera nokkra ábyrgð á innri starfsemi skóla eða mannahaldi hans almennt, hún hvílir á skólastjóra eða skólameistara. Þá ber einnig að hafa að leiðarljósi við endurskoðun laganna um starfsréttindi kennara, að þau endurspegli þann sveigjanleika í innra starfi skóla, sem hefur verið að þróast. Valfrelsi nemenda hefur aukist og á að halda þannig á málum, að fólk með víðtæka menntun og kennsluréttindi geti fengið fast starf í skólum.

Í lögverndunarlögunum er kröfum um menntun eða starfsréttindi kennara og skilyrðum til ráðningar eða framkvæmd ráðningar blandað saman. Eitt er að skilgreina menntunarkröfur kennara í grunn- og framhaldsskólum og veita þeim réttindi, sem fullnægja þessum kröfum. Annað er að ráða kennara til starfa. Menntamálaráðuneytið sér um fyrri þáttinn en skólastjórnendur hinn síðari.

Ég vildi ekki starfa við þær aðstæður sem menntamálaráðherra, að eiga það undir ákvörðun aðila, sem ekki ber beina ábyrgð á starfsemi menntamálaráðuneytisins, hvort ég mætti ráða hinn hæfasta að mínu mati til að starfa undir minni stjórn í ráðuneytinu. Ég yrði að leggja það í hendur annarra, ef ég fengi ekki mann með löggilt réttindi, hvern ég réði til að tryggja lögbundna starfsemi í samræmi við strangar opinberar kröfur og á mína ábyrgð. Í raun er faglegum metnaði skólastjórnenda vantreyst með hinu flókna undanþáguferli. Draga má í efa, að mikil vá sé fyrir dyrum, ef stjórnendur og ábyrgðarmenn viðkomandi skóla annast að öllu leyti ráðningu kennara og annarra starfsmanna sinna á grundvelli skýrra reglna og krafna.

Góðir áheyrendur!

Ný lög um öll skólastigin, nýjar námskrár og nýir kjarasamningar marka skólastarfinu ytri ramma og öll þessi nýmæli kalla á endurskoðun lögverndunarlaganna. Hún er viðkvæm og vandasöm og ég ætla að ganga til hennar með því hugarfari að leita sátta um niðurstöðuna. Heiti ég á Kennarasamband Íslands að líta á málið af víðsýni og án ótta við, að vegið sé að fagmennsku eða metnaðarfullu skólastarfi. Eins og undanfarin ár vil ég eiga opið og hreinskilið samstarf við kennara um hið sameiginlega markmið okkar að gera góða skóla enn betri.

Megi þetta skólamálaþing verða til þess að þoka okkur áfram á þeirri braut!