14.9.2001

Stofnun Sigurðar Nordals 15 ára


Stofnun Sigurðar Nordals
15 ára,
14. september, 2001.



Í síðustu viku var í annað sinn efnt til átaks í þágu símenntunar. Markmiðið er að vekja athygli sem flestra á gildi þess að bæta við sig þekkingu og auka hæfni sína til leiks og starfa. Að þessu sinni var lögð áhersla á tungumála- og tölvukunnáttu.

Þegar við Íslendingar ræðum um tungumálakunnáttu, leitar hugurinn ekki endilega fyrst til móðurmálsins heldur hins, að því aðeins getum við átt góð samskipti við aðra, ef við leggjum á okkur að læra tungu þeirra. Við gerum sem sagt ekki almennt ráð fyrir því, að útlendingar leggi á sig að læra íslensku til að njóta sín sem best meðal Íslendinga.

Þetta viðhorf er að breytast. Í viku símenntunar átti ég þess kost, að sækja fundi víða um land og kynnast fræðslustarfi á vegum símenntunarmiðstöðva, sem hafa komið til sögunnar á síðustu árum og vaxið ört vegna hins þakkláta starfs, sem þær vinna. Einnig sá ég skýr merki þess, hve mikil áhrif það hefur þegar haft, að í síðustu kjarasamningum var ákveðið að leggja fé í sameiginlega fræðslusjóði, atvinnurekendur og launþegar hafa tekið höndum saman til að styrkja forsendur menntunar.

Allir þessir nýju þátttakendur í menntamálum, eru að þreifa fyrir sér um bestu leiðir til að kenna íslensku. Íslenskukennsla fyrir útlendinga hefur löngum byggst á því, að gera þeim kleift að lesa íslenskar bókmenntir, einkum fornbókmenntirnar, og kynnast þannig hinu einstæða framlagi Íslendinga til heimsbókmenntanna. Nú er á hinn bóginn verið að þróa námsefni og aðferðir til að kenna íslensku miðað við tungutak í einstökum starfsgreinum hvort heldur það er vegna vinnu á elliheimilum og sjúkahúsum eða í fiskvinnslu og við slátrun. Með námsefninu er ekki skírskotað til þeirra, sem koma hingað af akademískum áhuga á tungu og menningu þjóðarinnar, heldur hinna, sem eru hér til að afla sér lífsviðurværis með störfum á hinum almenna vinnumarkaði.

Almennt gerum við okkur líklega ekki næga grein fyrir hinni öru breytingu, sem er að verða á þjóðlífi okkar með virkri alþjóðavæðingu þess, og á ég þá við þátttöku fólks af erlendum uppruna í öllum greinum atvinnulífsins og aðild framhaldsskóla og háskóla að alþjóðlegu samstarfi. Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki og skólar standa frammi fyrir ákvörðunum um það, hvaða tungumál skuli nota til að ná sem mestum og bestum árangri. Enskan hefur fengið sama sess og latínan áður sem tungumál mennta og vísinda, og erlent vinnuafl er lífsnauðsynlegt fyrir atvinnulífið, að minnsta kosti eins og nú árar. Kunnátta í tungumálum er forsenda þess, að dragast ekki aftur úr við atvinnurekstur eða nám.

Ég minnist á þetta hér, því að menntamálaráðuneytið hefur falið Stofnun Sigurðar Nordals að gegna veigamiklu hlutverki varðandi kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis í samvinnu við aðila innan Háskóla Íslands sem utan, og auk þess annast stofnunin þjónustu við íslenska sendikennara í umboði ráðuneytisins.

Fáir hafa kveðið fastar að orði um gildi hins einstæða íslenska menningararfs frá miðöldum en prófessor Sigurður Nordal. Hann komst meðal annars svo að orði í Íslenskri menningu:

“Íslenskar fornbókmenntir, - ef til þeirra er talið allt, sem varðveitt var á Íslandi og hvergi annars staðar, - eru frumlegustu og að flestu leyti sígildustu bókmenntir allra miðalda, milli klassiskra rita Grikkja og Rómverja og rita frumkristninnar annars vegar og þroskuðustu bókmennta endurreisnartímanna hins vegar. En þær eru auk þess langfyllstu og fullkomnustu heimildir um hina germönsku uppsprettu vestrænnar menningar, kjarni hinnar þriðju ritningar Norðurlandaþjóðanna. Þær eru furðulegt, veraldarsögulegt afrek smárrar þjóðar, en hafa líka goldið þess að vera ritaðar í afskekktu landi og á tungu, sem fáir útlendingar nema til hlítar, svo að heiminum hefur sést of mjög yfir þær. Hitt er annað mál, hver gaumur þeim kann að þykja gefandi, ef eigi er aðeins hugsað um þær sem sögulegar heimildir eða listaverk, heldur yngilind nútíðarmenningar á borð við hinar ritningarnar tvær.”

Þessi orð sýna, hve vel er við hæfi að fela Stofnun Sigurðar Nordals að sinna þeirri íslensku menningarmiðlun, að hafa umsjón með kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis. Með þessu fær stofnunin einnig í raun mikilvægt hlutverk, sem lýtur að pólitískri og efnahagslegri velgengni þjóðarinnar.

Á síðasta ári fékk menntamálaráðuneytið þá Guðmund Hálfdanarson og Þorleif Hauksson til að gera úttekt á kennslu í nútímaíslensku við erlenda háskóla. Þar kemur fram, að Stofnun Sigurðar Nordals gegnir lykilhlutverki með margþættum stuðningi við þessa kennslu. Í samræmi við ábendingar í úttektinni hefur ríkisstjórnin ákveðið að tillögu menntamálaráðuneytisins, að gera samninga um fjárhagslegan stuðning úr ríkissjóði við íslenskukennslu í Manitoba-háskóla í Winnipeg og Humboldt-háskóla í Berlín. Hefur þegar verið samið við skólayfirvöld í Winnipeg og unnið er að gerð samnings við viðræðuaðila í Berlín. Hefur ráðuneytið falið Stofnun Sigurðar Nordals að annast umsýslu vegna þessara samninga.

Í úttektinni kemur fram, að mikill skortur sé á námsefni í íslenskukennslu handa erlendum háskólanemum, sem og nýbúum á Íslandi. Er lagt til, að gert verði átak við að styðja og stuðla að framleiðslu efnis, sem nýtir sér tölvutækni og samskipti á netinu við kennslu nútíma-íslensku. Hefur þetta einnig gengið eftir.

Fyrir tæpu ári veitti menntamálaráðuneytið Símenntunarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands styrk til að þróa fjarkennsluvef í íslensku og heimspekideild Háskóla Íslands styrk til að vinna kennsluefni fyrir erlenda háskólanema í samvinnu við Madison-háskóla í Bandaríkjunum. Hefur Stofnun Sigurðar Nordals nú tekið upp samstarf við tvo síðarnefndu háskólana um íslensku á netinu og leggur stofnunin af mörkum efni, sem hún hefur unnið við gerð margmiðlunarefnis í tungumálakennslu í evrópsku samvinnuverkefni.

Góðir áheyrendur!

Í upphafi málþings um íslensk fræði við aldamót hef ég kosið að beina athygli, að þeirri staðreynd, að við stöndum frammi fyrir nýjum og spennandi verkefnum og höfum fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að kenna fólki af öðru þjóðerni íslensku. Við eigum að nýta okkur þessi tækifæri með því fjölgum ekki aðeins þeim, sem tala og skilja íslensku, heldur styrkjum innviði tungumálsins.

Við eigum ekki að óttast náin samskipti við aðra í þessu efni og ég vitna að nýju í Íslenska menningu máli mínu til stuðnings, en þar segir:

“Sú firra er helsti algeng meðal erlendra fræðimanna, að Íslendingar hafi náð þeim þroska, sem bókmenntir þeirra að fornu bera vitni, fyrir einangrun, fyrir að vera í fásinni og búa að sínu, bæði á afskekktu landi og afskekktum býlum. Ekkert er fjær sönnu. Þeir voru einhverjir mestu veraldarflakkarar í Norðurálfu á 10. – 13. öld, allra þjóða víðförlastir erlendis, og höfðu vegna alþingis einstök tök á að gera ferðaminningarnar heyrinkunnar, er heim kom.”

Nú höfum við netið, fræðimenn og stofnanir til að miðla þekkingu og leggja fram kennsluefni fyrir alla, sem vilja kynnast íslenskri tungu og sögu.

Reynslan síðustu 15 ár sýnir, að Stofnun Sigurðar Nordals gegnir mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Er æskilegt að efla hlut stofnunarinnar og annarra, sem sinna hinum íslenska tungumála- og menningararfi. Verður það best gert innan öflugs rannsóknaumhverfis á vettvangi Háskóla Íslands.

Ég óska Stofnun Sigurðar Nordals heilla á þessum tímamótum í fullvissu þess, að hún muni halda áfram að dafna í þágu íslenskrar menningar.