26.7.2001

Jacquillat-styrkur

Minningarsjóður
Jean Pierre Jacquillat,
Sigurjónssafni,
26. júlí 2001.



Við komum hér saman af ánægjulegu tilefni, þegar veittur er styrkur í tíunda sinn úr Minningarsjóði Jean Pierre Jacquillat hljómsveitarstjóra. Enn einu sinni fáum við tækifæri til að samfagna með ungum tónlistarmanni,
sem fær stuðning úr sjóðnum til að afla sér aukinnar menntunar og reynslu á sviði tónlistar. Vil ég færa öllum, sem hafa staðið að sjóðnum, þakkir fyrir störf þeirra og áhuga á að vinna að markmiðum hans með metnaðarfullum hætti.

Stundin hér í dag er einnig til þess fallin að rifja upp þátt Jean Pierre Jaquillat í íslensku tónlistarlífi en hann var fastráðinn aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1978 til 1986.

Þegar hljómsveitin varð 50 ára á síðasta ári var ýmislegt rifjað upp úr sögu hennar og minntust þá margir Jean Pierre í hópi þeirra stjórnenda, sem hefðu haft verulega mótandi áhrif á þróun hennar. Jón Þórarinsson tónskáld, sem þekkir sögu hljómsveitarinnar betur en nokkur annar, komst meðal annars svo að orði í viðtali við Morgunblaðið:

„Jean Pierre Jacquillat sem var hér um árabil var prýðisstjórnandi þó hann væri kannski of mikið ljúfmenni til að vera mjög aðgangsharður
hljómsveitarsrjóri. Engu að síður skilaði hann mjög góðum árangri og fór til dæmis með hljómsveitina í vel heppnaða tónleikaferð til Frakklands 1985."

Í þessum fáu orðum Jóns kemur fram með hvaða hætti Jean Pierre leiddi hljómsveitina til aukins þroska en hann lét sér mjög annt um velferð hljóðfæraleikaranna og á meðan hann dvaldist hér fóru fram miklar umræður um tónlistarhús og gerðar voru tillögur um það, sem náðu þó ekki fram að ganga, þegar á reyndi.

Merki tónlistarhússins var síðan tekið upp að nýju og um þessar mundir er unnið að skipulagsvinnu í miðborg Reykjavíkur, sem miðar að því, að hið langþráða hús rísi þar í tengslum við ráðstefnumiðstöð og nýtt hótel.

Nefnd á mínum vegum skilaði tillögum um innviði tónlistarhússins, sem kynntar voru opinberlega í júní 1997. Þar er lagt til, að húsið verði ekki byggt með leiksviðsaðstöðu meðal annars vegna þess að Íslenska óperan telji 1200 til 1300 sæta sal of stóran við íslenskar aðstæður og kostnaðarauki af leiksviðsaðstöðu yrði að lágmarki 450 milljónir króna. Auk þess sé hætt við
að leiksviðsaðstaða leiddi til þess að hljómburður fyrir sinfóníska tónlist verði lakari.

Hefur verið unnið á þessum forsendum við áætlanagerð vegna tónlistarhússins síðan. Er ástæða til að minna á á þetta, því að í blaðagreinum, síðast í Morgunblaðinu í dag, er látið eins og ekki hafi verið tekin afstaða til óperuflutnings í tillögugerð vegna tónlistarhússins eða um það mál ríki einhver óeðlileg þögn af opinberri hálfu. Svo hefur aldrei verið og raunar hef ég litið þannig á, að síðan þessar hugmyndir voru kynntar árið 1997
hafi ríkt um þær sæmileg sátt. Má spyrja, hvort það sé viðleitninni til að reisa hér tónlistarhús til framdráttar að vekja upp síðbúnar deilur um þetta mál núna og efna ef til vill til óvinafagnaðar vegna þess. Ég hef unnið í góðri
trú um að á vettvangi Samtaka um tónlistarhúss hafi verið gert út um þennan þátt málsins.

Ef menn vilja hin bestu hljómgæði í hinu nýja húsi fyrir flutning sinfónískrar tónlistar, verður að standa að gerð þess í samræmi við þá kröfu. Að sjálfsögðu kemur til álita að hafa hljómsveitargryfju í stóra tónlistarsalnum og alls ekki er sanngjarnt að draga upp þá mynd, að í tillögum um tónlistarhúsið felist vanmat á gildi þess, að hér gefist
tækifæri til að flytja og hlýða á óperur við boðlegar aðstæður.

Við úthlutun styrkja úr sjóði Jean Pierre Jacquillat á undanförnum árum hefur þess verið gætt eins og kostur er að líta til allra, sem koma að því að efla íslenskt tónlistarlíf, söngvara, hljómsveitarstjóra, tónskálda og
hljóðfæraleikara. Hið sama er haft að leiðarljósi við gerð
tónlistarhússins.

Að þessu sinni valdi sjóðsstjórnin hljóðfæraleikara úr hópi þeirra, sem sóttu um styrk í sjóðinn.

Pálína Árnadóttir fiðluleikari, sem hlýtur styrkinn í dag, er verðugur fulltrúi þess unga tónlistarfólks, sem mun efla íslenskt tónlistarlíf á komandi árum. Um leið og ég færi henni innilegar hamingjuóskir með þessa góðu og ánægjulegu viðurkenningu, vil ég biðja Örn Jóhannsson, formann sjóðsstjórnar, og frú Cecile Jacquillat, ekkju Jean Pierree, að koma hingað og afhenda Pálínu styrkinn.