18.7.2001

Mál Árna Johnsens - Morgunblaðsviðtal

Miðvikudaginn 18. júlí, 2001 - Innlendar fréttir

Menntamálaráðherra um embættisfærslur formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins:

Skil ekki hvernig svona getur gerst


Björn Bjarnason menntamálaráðherra segir að Árni Johnsen alþingismaður hafi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins algjörlega brugðist því trausti sem honum hafi verið sýnt. Í samtali við Björn Inga Hrafnsson segir ráðherrann að sér þyki óskiljanlegt hvernig málum hafi verið háttað.MORGUNBLAÐIÐ leitaði til menntamálaráðherra vegna máls Árna Johnsen, fráfarandi formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins, eftir að fram kom á fundi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra með blaðamönnum á mánudag, að Árni hefði ekki haft umboð til að starfa með þeim hætti sem hann hefði gert síðastliðin ár. Sagðist hann sjálfur hafa talið að nefndin
væri ekki lengur starfandi. Og samkvæmt þeim gögnum sem hann hefði, hefði hún ekki átt að hafa annað með höndum en
áætlanagerð.

Menntamálaráðherra sagði við Morgunblaðið í gær að tilvist nefndarinnar hefði ekki verið neitt leyndarmál hennar ætti til dæmis að vera getið í nefndaskýrslu ríkisins.

"Í samtali mínu við forsætisráðherra kynnti ég honum hinar skýru forsendur fyrir starfi nefndarinnar. Annars vegar er um að ræða erindisbréf nefndarinnar frá árinu 1996, og hins vegar bréf frá í júlí 1997 um sérstakt verkefni hennar varðandi áætlun til framtíðar um uppbyggingu Þjóðleikhússins. Það eru þau gögn sem ég legg til grundvallar þegar ég hef litið til starfa nefndarinnar."

Hafa þær upplýsingar sem komið hafa fram, þá komið þér algjörlega á óvart?

"Já, og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að menn stæðu þannig að þessum framkvæmdum að formaður nefndarinnar væri sjálfur í verslunum að taka út vörur og fara þannig langt út fyrir verksvið sitt. Þegar farið er á vegum ráðuneytisins að taka út vörur í verslunum þarf sérstakar beiðnir og heimildir. Séu þær ekki til staðar, þarf að leita eftir þeim. Þannig þýddi ekkert fyrir mig sjálfan að fara í byggingavöruverslun og taka út timbur á
þeim forsendum að það væri fyrir menntamálaráðuneytið. Það myndi enginn og ætti enginn að taka mig trúanlegan, heldur álykta sem svo að eitthvað óeðlilegt væri á ferðinni. Svona hlutir eiga ekki að geta gerst og allra síst með minni heimild eða sérstöku leyfi mínu."

Engar undanþágur veittar fyrir útboðum

Fram kom í Morgunblaðinu í gær, að Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri sagði sig og þriðja fulltrúann í byggingarnefndinni,
Steindór Guðmundsson, hafa margsinnis gert athugasemdir við embættisfærslur Árna sem formanns. Þeir hafi hins vegar ávallt fengið þau svör að heimild væri í ráðuneytinu og hjá Framkvæmdasýslunni fyrir því að sleppa útboðum. Er þetta rétt og gafst þú heimild til að undanþiggja framkvæmdir við Þjóðleikhúsið frá því að fara í útboð?

"Nei, það gerði ég aldrei. Helst af öllu ættu menn sem eru sérstaklega að sinna framkvæmdum fyrir ríkisvaldið að átta sig á því að þar gilda ákveðnar reglur sem þeir eru fróðari um heldur en ég. Ég hef heldur ekki neinar heimildir til að fara á svig við þær almennu leikreglur sem gilda í þessum efnum. Þannig má geta þess að fyrir skömmu vakti ég máls á því í Morgunblaðinu að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefði sett mér skorður um framkvæmdir við framhaldsskóla í Reykjavík vegna þess aðekki væri búið að ganga frá samkomulagi við Reykjavíkurborg um fjármögnun nýbygginga. Þetta átti við um tvo menntaskóla, MR og MH. Ég hef farið að þeim leikreglum og tel auðvitað að það eigi allir að gera sem koma að opinberum framkvæmdum. Það á ekki við nein rök að styðjast, að ég hafi veitt heimildir til þess að fara ekki að þessum
leikreglum. Ef til vill eru menn með þessu að skýla sér frá skyldum sem þeim voru á móti skapi. Það var hins vegar ekki með
minni heimild og aldrei heimilað af mér."

Er þetta mál ekki mikil vonbrigði fyrir þig og þá stjórnsýslu sem þú hefur staðið fyrir í ráðuneytinu?

"Jú, enda hefur formaður byggingarnefndarinnar algjörlega brugðist því trausti sem ég hef borið til hans. Og þeim trúnaði sem hann átti að sýna gagnvart mér og sínum yfirboðurum. Að sjálfsögðu átti hann að starfa samkvæmt þeim
erindisbréfum sem gefin voru út og eftir þeim almennu leikreglum sem gilda um framkvæmdir.

Ég get þess vegna ekki annað en harmað hvernig málum er háttað og vona að það skaði hvorki Þjóðleikhúsið né menntamálaráðuneytið, því að hvorug þessara stofnana á að bera tjón vegna þessarar einstæðu embættisfærslu."

Eftir sem áður stendur sú staðreynd að byggingarnefndin heyrir undir þig og ábyrgðin er þín sem ráðherra. Þannig myndir
þú þurfa að svara fyrir þessi mál gagnvart þinginu?

"Að sjálfsögðu. Ég mun svara fyrir þetta á þeim vettvangi. Forseti Alþingis hefur beint til Ríkisendurskoðunar erindi um rannsókn þessa máls og hann mun síðan væntanlega fá skýrslu hennar og gera þinginu grein fyrir niðurstöðum hennar. Í hinni pólitísku umræðu á þingi mun ég gera grein fyrir því sem ég hef gert í þessu máli.

Því má ekki gleyma í allri orrahríðinni nú, að gerðar hafa verið miklar endurbætur á Þjóðleikhúsinu á undanförnum árum sem voru mjög brýnar og nauðsynlegar. Þegar ég kem að þessum málum var framkvæmdum við Þjóðleikhúsið ekki lokið og í gildi alls konar undanþágur. Það hefur verið unnið að því að bæta aðstæður í Þjóðleikhúsinu, þótt enn sé mikið ógert. Það er því ekki eins og þessum peningum sem hefur verið varið til endurbóta á Þjóðleikhúsinu á undanförnum árum hafi verið kastað á glæ eða þeir runnið í vasa formanns byggingarnefndarinnar.

Hins vegar hefur komið í ljós á undanförnum sólarhringum, að formaðu byggingarnefndarinnar hefur bersýnilega misfarið með það traust sem honum hefur verið sýnt."

Vildi ekki vera í sporum Árna á þessari stundu

Hefur þá ekki eftirlitsþátturinn brugðist í þessu máli?

"Sama gildir hvaða eftirlitskerfi við setjum á fót eða hvaða stjórnsýslureglur við höfum , kerfið eða reglurnar duga ekki ef menn fara ekki eftir þeim og hunsa allt það sem við þá er sagt um nauðsyn þess að virða almennar leikreglur. Ég vil hins vegar leggja áherslu á, að hið opinbera eftirlitskerfi fór af stað af miklum þunga um leið og athugasemdir bárust um óeðlileg vinnubrögð formanns bygginganefndar í viðskiptum fyrir hennar hönd. Er nú hafin rannsókn og athugun á þessu máli öllu."

Hvernig hefur samskiptum þínum við Árna Johnsen verið háttað undanfarna daga?

"Ég talaði við hann á föstudag þar sem ég var staddur austur á Egilsstöðum. Blaðamenn voru þá farnir að reyna að ná í mig út af einhverju máli sem ég gerði mér ekki grein fyrir hvað væri. Ég hringdi því í hann og fékk þau svör að aðeins væri um að ræða smámisskilning sem yrði leiðréttur. Ég sagðist þá vona að það væri svo og ég þyrfti ekki að hafa frekari áhyggjur af málinu. Við vitum síðan hvað hefur gerst í framhaldinu, en ég hef ekki talað við hann síðan."

Nú er Árni, sem þú hefur sagt að hafi algjörlega brugðist trausti þínu, einnig þingmaður og félagi þinn í Sjálfstæðisflokknum.
Hefur hann nægilegt traust til að sinna þeim starfa?

"Við Árni höfum þekkst vel í marga áratugi og starfað saman hér á Morgunblaðinu og á alþingi. Ég vildi ekki vera í hans
sporum á þessari stundu. Mig tekur þetta mál allt mjög sárt og vona, að Árna takist að finna á því farsælan enda fyrir sig.
Ég tek undir með með forsætisráðherra og formanni flokks okkar sem sagði í gær [á mánudag] að lykilatriði væri fyrir
okkur sem störfum að stjórnmálum að njóta trausts og hafa trúverðugleika þeirra sem við störfum fyrir. Ef við glötum því
þá eigum við að snúa okkur að einhverju öðru."© Morgunblaðið, 2001