16.6.2001

Skáldað í tré - Ljósafossi

Skáldað í tré,
Skurðlist úr Þjóðminjasafni,
Ljósafossi,
16. júní, 2001.


Með samstarfi sínu við Félag íslenskra myndlistarmanna síðastliðið sumar
og sem máttarstólpi hins mikla menningarborgarverkefnis, M2000, fór
Landsvirkjun inn á nýja og spennandi braut. Er hún fetuð áfram á þessu
sumri með sýningunni, sem er að hefjast hér í dag, og framhaldi á
sýningu á myndverkum í Láxarvirkjun og auk þess með nýlegum
samstarfssamningi Landsvirkjunar og Þjóðminjasafns Íslands, en samkvæmt
honum verður Landsvirkjun bakhjarl safnsins næstu þrjú árin.

Vil ég þakka þennan stuðning, en það er ómetanlegt fyrir þá, sem sinna
menningarmálum að njóta slíks skilnings hjá öflugum fyrirtækjum.
Stuðningurinn eflir þá ekki einungis fjárhagslega heldur felur í sér vel
metna viðurkenningu og hvatningu. Jafnframt verður öllum æ betur ljóst,
að fyrirtæki hafa hag af því, að tengja nafn sitt viðburðum á sviði
menningar og lista.

Með því að leggja þjóðminjasafni til þessa glæsilegu sýningaraðstöðu
opnar Landsvirkjun auk þess virkjun sína fyrir almenningi. Fyrir utan
einstæða sýningargripi fáum við hér að kynnast sölum, sem áður hýstu
rofabúnað stöðvarinnar að Ljósafossi. Landsvirkjun hefur unnið að
endurgerð stöðvarinnar undanfarin ár, en hún hóf að framleiða raforku
árið 1937 og húsið er talið eitt af meistaraverkum Sigurðar
Guðmundssonar. Er aðdáunarvert, hvernig leitast hefur verið við að
varðveita sem best yfirbragð mannvirkisins, þrátt fyrir víðtækar
tæknilegar breytingar og styrkingu gegn jarðskjálftum.

Til Landsvirkjunar eru gerðar miklar kröfur, því að við viljum á skömmum
tíma virkja orkugjafa landsins sem mest og best án þess þó að ganga á
hlut náttúrunnar. Reynir vissulega mikið á stjórnendur Landsvirkjunar,
þegar leitast er við að ná þessum markmiðum í góðri sátt við sem flesta.

Í mínum huga er enginn vafi á því, að kynning á Landsvirkjun og
metnaðarfullu starfi hennar er mikilvægur liður í því að skapa sátt um
starf og stefnu fyrirtækisins. Við höfum nú lögfest strangar reglur um
umhverfismat, sem tryggja, að tillit er tekið til allra sjónarmiða,
þegar teknar eru ákvarðanir um svigrúm Landsvirkjunar til að nýta
orkugjafa á hálendinu og annars staðar.

Vernd fornminjastaða er meðal þeirra þátta, sem þarf að hafa í huga við
þetta mat, og í samningi Landsvirkjunar og þjóðminjasafnsins er gert
ráð fyrir sérstöku átaki við merkingu slíkra staða og sögulegra húsa
safnsins um land allt. Raunar sé ég ekki neinar andstæður á milli þess
að virkja krafta náttúrunnar og efla menntun og menningu þjóðarinnar,
heldur tel ég þvert á móti, að þetta tvennt haldist í hendur. Undir
merkjum Landsvirkjunar hefur verkmenntun þjóðarinnar til dæmis tekið
stakkaskiptum.

Þjóðminjasafnið býr við sérstakar aðstæður, á meðan unnið er að viðgerð
á húsi þess við Suðurgötu. Nú er beðið tilboða í næsta stóráfanga
verklegra framkvæmda við endurgerð hússins og að kappi er unnið að því
að skipuleggja grunnsýningu safnsins við nýjar og gjörbættar aðstæður.
Kynningarstarf á vegum safnsins liggur þó síður en svo niðri og nýlega
sendi það meðal annars frá sér þjóðminjakort, þar sem finna má
upplýsingar um friðlýstar fornleifar og minjastaði, húsasafn
þjóðminjasafnsins og byggða- og minjasöfn um land allt.

Á lokadegi sínum í vor samþykkti alþingi auk þess gjörbreytingu á lögum
um safnið og um fornminjavernd . Verða lögin birt og taka gild um miðjan
næsta mánuð og koma að fullu til framkvæmda um miðjan október. Á hin
nýja löggjöf eftir að styrkja allt safnastarf í landinu og skapa
forleifavernd nýjar og betri starfsaðstæður.

Sýningin, sem nú er að hefjast, staðfestir viðleitni þjóðminjasafnins
til að gefa almenningi kost á að skoða kjörgripi þess, þrátt fyrir að
hús safnsins sé lokað. Hér má sjá gripi, sem sýna skurðlistaverk frá
landinu öllu og frá ýmsum tímaskeiðum, en sögu útskurðar má rekja allt
til fyrstu alda Íslandsbyggðar og hefur hann því lengi verið snar þáttur
í alþýðulist þjóðarinnar og verkin á sýningunni geyma lýsingu á
hugmyndaheimi hennar í aldanna rás.

Áhugi á þessari listgrein er vaxandi, en hún er raunar skilgreind sem
iðngrein innan skólakerfisins og hinn 14. nóvember síðastliðinn voru
afhent tvö sveinsbréf í myndskurði eftir 46 ára hlé. Er mikils virði að
leggja rækt við greinina í skólum ekki síður en sýna hina fornu og
sögulega muni, sem hér eru.

Sýningin, sem nú er að hefjast á þjóðargersemum okkar í skurðlist við
þessar óvenjulegu aðstæður, á vonandi eftir að vekja áhuga margra á því
að kynnast þessum merkilega þætti í menningu okkar enn frekar.

Auk Landsvirkjunar og Þjóðminjasafns Íslands kemur Byggðasafn Árnesinga
að sýningunni. Óska ég öllum aðstandendum sýningar Skáldað í tré til
hamingju með framtakið. Jafnframt ítreka ég heillaóskir mínar til
þjóðminjasafns og Landsvirkjunar vegna hins nýgerða samstarfssamnings.
Með Landsvirkjun fær Þjóðminjasafn Íslands verðugan bakhjarl.

Megi sem flestir njóta listverkanna hér í Ljósafosstöð. Ég lýsi
sýninguna opna.