27.5.2001

LÍN stenst fyllilega samanburð - Morgunblaðsgrein
LÍN stenst fyllilega samanburð.

Grein í Morgunblaðinu 27. maí 2001.FIMMTUDAGINN 17. maí birtist í Morgunblaðinu opið bréf til mín en höfundur þess er Inga Þórðardóttir, námsmaður við Háskólann í Björgvin. Í grein sinni ber höfundur íslenska
lánasjóðskerfið saman við styrkja- og lánasjóðskerfið á Norðurlöndum. Er mér bæði ljúft og skylt að svara höfundi og benda á nokkrar staðreyndir í tilefni af því.

Í bréfi Ingu Þórðardóttur kemur fram að kannanir frá 1998 sýni að hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi er 21% en hlutfallið sé 26% í Noregi og 28% í Svíþjóð. Samkvæmt upplýsingum
menntamálaráðuneytisins eru þessar tölur ekki réttar sé miðað við ritið Nordisk utbildning i fokus, sem útgefið er af Norræna ráðherraráðinu árið 1999. Þar kemur fram að Ísland er í
öðru sæti á meðal Norðurlandanna sé miðað við hlutfall einstaklinga með háskólagráðu á aldrinum 25-64 ára. Árið 1997 er hlutfall Íslendinga með háskólagráðu 15,6%. Hlutfallið á
hinum Norðurlöndunum er 16,9% í Noregi, 12,5% í Svíþjóð, 12,1% í Finnlandi og 15,2% í Danmörku. Meðaltal OECD-ríkjanna er 12,7%. Sé miðað við hlutfall háskólamenntaðra
einstaklinga er hlutfallið hæst á Íslandi, eða 32%, 28% í Noregi, 27,3% í Svíþjóð, 21,6% í Finnlandi og 21,9% í Danmörku. Meðaltal OECD-ríkjanna er 20%. Á undanförnum árum
hefur háskólastigið tekið stakkaskiptum á Íslandi. Alls eru nú starfandi átta skólar á háskólastigi og fjölbreytni í háskólanámi hefur aukist mikið íslenskum nemendum til hagsbóta, en
fjöldi íslenskra háskólanema hefur fjórfaldast síðan 1977.

Framlög til rannsóknar- og þróunarstarfsemi aukast

Inga Þórðardóttir segir að hagsmunaþróun og tækniþróun hvers ríkis byggist á menntun hverrar þjóðar. Norsk stjórnvöld sjái greinilega fyrir sér menntaðan starfskraft sem grundvöll
fyrir tækniþróun, þar sem tækniþróunin sé háð menntuðu fólki. Í tilefni af þessum orðum vil ég benda á nýjar áherslur í skipan rannsóknarmála á Íslandi, en nýlega voru kynntar
breytingar á lögum Rannsóknarráðs Íslands (Rannís). Fela þær í sér gjörbreytta tilhögun Rannís og er haft að leiðarljósi að stefna í vísindum, rannsóknum og þróun setji ótvíræðan svip
á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Tillögurnar gera m.a. ráð fyrir því að Rannsóknarráð Íslands móti stefnu í vísinda- og tæknimálum til þriggja ára í
senn. Litið verði til þess, hvert sé gildi starfs á þessu sviði fyrir allt efnahagslíf þjóðarinnar. Af hálfu menntamálaráðuneytisins er lögð höfuðáhersla á að styrkja grunnrannsóknir og
stuðla að menntun ungra vísindamanna. Hlutverk ríkisins á þessu sviði verður samkvæmt því annars vegar að fjármagna öfluga sjóði til að styrkja grunnrannsóknir og hins vegar að
stuðla að meistara- og doktorsnámi á háskólastigi. Er óhætt að fullyrða að með nýrri skipan rannsóknarmála muni Íslendingar enn frekar treysta stöðu sína í fremstu röð meðal þjóða.

Í nýlegu riti Norska rannsóknarsjóðsins kemur fram að nýjustu athuganir á framlagi til rannsókna- og þróunarstarfsemi á Norðurlöndum á tíunda áratug síðustu aldar sýna, að á sama
tíma og raunaukning útgjalda var tíu af hundraði á Íslandi, níu af hundraði í Finnlandi og sex af hundraði í bæði Danmörku og Svíþjóð var raunaukningin minni er þrír af hundraði i
Noregi. Sambærilegar árlegar vaxtartölur á tímabilinu 1997-99 voru tólf af hundraði í Finnlandi, tíu af hundraði á Íslandi og sex af hundraði í bæði Danmörku og Svíþjóð en undir
einum af hundraði í Noregi. Fjármagn til rannsókna og þróunarstarfsemi var árið 1999 í fyrsta sinn lægra í Noregi en annars staðar á Norðurlöndum, sama hvort miðað er við verga
þjóðarframleiðslu eða höfðatölu.

Skipan mála til fyrirmyndar

Fyrir tveimur árum var gefin út evrópsk samanburðarskýrsla um stuðning við námsmenn í ýmsum Evrópulöndum. Af þeirri skýrslu má ráða, að sú skipan mála, sem hér gildir í þessu
efni, sé í mörgu tilliti til fyrirmyndar. Þar er meðal annars vísað til fjárhagslegs sjálfstæðis námsmanna, þess að íslenskir námsmenn sjálfir en ekki foreldrar þeirra hafa rétt til að taka
lán og upphæð lánanna miðast við tekjur námsmanna og stöðu þeirra en ekki fjárhag foreldra. Þá tekur íslenska námslánakerfið ríkara tillit til félagslegra aðstæðna námsmanna en önnur
sambærileg kerfi og kemur þannig meira til móts við þarfir einstakra lánþega en almennt gerist í Evrópu.

Í bréfi Ingu Þórðardóttur gerir hún námsstyrkina sem norskir námsmenn eiga rétt á að umtalsefni. Ekki hefur verið farin sú leið að greiða nemendum námsstyrki á Íslandi heldur eru lán
miðuð við grunnframfærslu hverju sinni, en tekið skal fram að hér er um lágmarksfjárhæð að ræða en til viðbótar er tekið tillit til framfærslu barna og maka og ýmiss kostnaðar, svo
sem vegna ferða og skólagjalda.

Í nýjum úthlutunarreglum LÍN er grunnframfærsla hækkuð um 4,5% fyrir skólaárið 2001-2002, eða úr 66.500 kr. í 69.500 kr. Fjölmargir þættir námsaðstoðarinnar taka mið af
grunnframfærslunni og hækka samhliða henni, s.s. lán vegna maka, barna og lán til bóka-, tækja- og efniskaupa. Fróðlegt er að bera íslenska námslánakerfið við skipan mála í Noregi
og skulu hér tekin nokkur dæmi:

Grunnframfærsla í Noregi hjá LÍN fyrir einstakling er Nkr. 7.318 sbr. nýju úthlutunarreglurnar (lánað er meðan skóli stendur yfir, yfirleitt í 9 mánuði).

Grunnframfærsla í Noregi hjá norska sjóðnum fyrir einstakling er Nkr. 6.950 á mánuði (lánað er í 10 mánuði, þar af er styrkur Nkr. 2.080 og lán Nkr. 4.870).

Ef ofangreint er tekið saman og bókaláni LÍN bætt við íslensku framfærsluna eru árstölurnar eftirfarandi:

Lágmarksframfærsla einstaklings hjá LÍN skólaárið 2000-2001 er Nkr. 67.275

Lágmarksframfærsla einstaklings hjá norska sjóðnum skólaárið 2000-2001 er Nkr. 69.500.

Samsvarandi tölur vegna einstæðs foreldris með eitt barn eru:

Grunnframfærsla í Noregi hjá LÍN fyrir einstætt foreldri með eitt barn er Nkr. 10.230 á mánuði (lánað á meðan á skóla stendur, yfirleitt í 9 mán.).

Grunnframfærsla í Noregi hjá norska sjóðnum fyrir einstætt foreldri er Nkr. 8.220 á mánuði (veitt í 10 mán., þar af styrkur Nkr. 4.910 og lán Nkr. 3.310).

Ef þetta er tekið saman og bókaláni LÍN bætt við íslensku framfærsluna eru árstölurnar eftirfarandi:

Lágmarksframfærsla einstæðs foreldris með eitt barn hjá LÍN skólaárið 2000-2001 er Nkr. 95.950.

Lágmarksframfærsla einstæðs foreldris með eitt barn hjá norska sjóðnum skólaárið 2000-2001 er Nkr. 82.200.

Ríkara tillit tekið til fjölskylduaðstæðna

Þessi dæmi sýna að LÍN þolir fyllilega samanburð við fyrirgreiðslu norska sjóðsins. Samanburður er þó erfiður því að kerfin eru um margt ólík. Fjölskyldutillit LÍN er meira þannig að
námsmönnum með börn á framfæri er tryggð hærri framfærsla hjá LÍN en norska sjóðnum. Einnig má nefna að námsmaður sem stundar nám á sumrin getur fengið sumarlán hjá LÍN og
LÍN lánar í fleiri ár en norski sjóðurinn. LÍN lánar samtals í 10 ár en norski sjóðurinn að hámarki í 8 eða 9 ár. Skólagjaldalán LÍN vegna náms erlendis eru hærri en sambærileg lán hjá
norska sjóðnum.

Styrkur ríkisins 52%

Tekjutillit hjá LÍN er meira en hjá norska sjóðnum. Síðan 1991 hefur á hinn bóginn markvisst verið dregið úr tekjutillitinu hjá LÍN. Svokallað frítekjumark hefur verið hækkað umfram
verðlag og skerðingarhlutfall vegna tekna hefur verið lækkað úr 70% í 40%.

Athygli vekur að hjá norska sjóðnum er styrkhluti fyrirgreiðslunnar 30% til einstaklings en 60% til einstæða foreldrisins. Einnig er vert að hafa í huga að lánin sem norski sjóðurinn
veitir eru nokkurs konar markaðskjaralán, þ.e. lán sem eru á sambærilegum kjörum og bankar veita.

Námslán á Íslandi eru með mjög hagstæðum kjörum. Endurgreiðsla þeirra fer eftir tekjum lánþegans og Ríkisendurskoðun hefur reiknað út að fyrir hverjar 100 krónur sem LÍN lánar þarf
52 krónur í ríkisframlag. Með öðrum orðum, að meðaltali er rúmlega helmingur venjulegs námsláns í raun og veru styrkur og einungis tæplega helmingur eiginlegt lán þegar tekið er
mið af hefðbundnum lánum á markaðnum. 30% og 60% styrkhlutföll norska lánasjóðsins má þannig bera saman við 52% styrkhlutfall íslensku lánanna.

Sátt um nýjar úthlutunarreglur

Undanfarin ár hefur skapast sátt og vinnufriður um LÍN. Í kjölfarið hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á starfsemi hans. Sjóðurinn er öflugri en áður og eykur sífellt þjónustu sína.
Fjárhagsleg staða hans er traust og gjörbreytt frá því fyrir rúmum áratug, þegar stefndi í gjaldþrot. Vegna þessarar traustu stöðu hefur jafnt og þétt verið unnið að því að rýmka hag
viðskiptavina sjóðsins, þótt seint verði unnt að uppfylla allar óskir þeirra.

Endurskoðun á úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2001-2002 er lokið og voru breytingarnar samþykktar samhljóða á fundi stjórnar sjóðsins í lok apríl sl. Stjórnina skipa fjórir
ríkisstjórnarfulltrúar og fjórir fulltrúar námsmanna. Taka nýjar úthlutunarreglur gildi 1. júní nk. Á grundvelli þeirra er áætlað að veita um 6.000 námsmönnum lán að upphæð 4.225
milljónir króna á næsta skólaári. Helstu breytingar frá árinu áður eru hækkun grunnframfærslu, hækkun frítekjumarks, hækkun framfærslu erlendis og hækkun á lágmarki eigin
fjármögnunar skólagjalda.

Áfram verður unnið að því að taka á einstökum þáttum í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna í því skyni að bæta hag lánþega. Hin góða sátt um starf Lánasjóðs íslenskra
námsmanna um þessar mundir gefur ekki til kynna, að jarðvegur sé fyrir hugmyndir Ingu Þórðardóttur um breytingar á sjóðnum. Á hinn bóginn er sjálfsagt og eðlilegt að ræða nýjar
hugmyndir og velta þeim fyrir sér og þakka ég Ingu Þórðardóttur bréf hennar og þetta tækifæri til að fjalla um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Höfundur er menntamálaráðherra.

© Morgunblaðið.