Kennaraháskóli Íslands - 30 ára
Kennaraháskóli Íslands
30 ára
9. júní 2001.
Ég fagna því að vera hér á þessum hátíðisdegi, sérstaklega óska ég ykkur, sem útskrifist við þessa athöfn, innilega til hamingju. Er ánægjulegt, að sjá jafnglæsilegan hóp ljúka nú námi og prófum, sem veita réttindi til starfa í skólum landsins. Þið hafið búið ykkur undir heillandi starf og ég hvet ykkur til að nýta þekkinguna, sem þið hafið öðlast í Kennaraháskóla Íslands, til að leiða ungmenni til aukins þroska og til að gefa þeim þann auð, sem aldrei verður frá neinu okkar tekinn, menntunina.
Þegar við lítum til baka og rifjum upp skóladagana, minnumst við fyrst og síðast kennaranna. Þið eigið hvert og eitt eftir að eignast varanlegan sess í huga nemenda ykkar eins og þið skiljið við skólabekkinn í dag með lifandi minningu og þakklæti til þeirra, sem hafa auðveldað ykkur að ná þessum merka áfanga.
Ykkur er tekið fagnandi á þessari stundu, ekki aðeins í tilefni útskriftarinnar heldur einnig vegna þess, að slegist er um krafta ykkar til að gera góða skóla enn betri og vafalaust hafa allir, sem ætla að helga sig kennslu, þegar fundið sér starfsvettvang. Það er gerjun og gróska í íslensku skólastarfi um þessar mundir og tækifærin mörg og spennandi.
Var gleðilegt að fylgjast með því á liðnum vetri, hve forystumönnum kennara í leikskólum og grunnskólum var mikið í mun að reka kjarabaráttu sína á jákvæðum forsendum og án þess að til verkfalla kæmi. Náðist verulegur árangur með samningum kennara og sveitarfélaga, sem tóku meðal annars sérstaklega mið að því að auka áhuga ungs fólks á að helga sig kennslu.
Hér eru í dag heiðraðir með doktorsnafnbót þrír einstaklingar, sem hafa af hugsjón og eldmóði lagt mikið af mörkum til íslensks skólastarfs og óska ég þeim til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu að loknu löngu og heilladrjúgu dagsverki.
Árangur næst ekki í skólastarfi nema margir leggist á eitt og við getum fagnað því, að góð samstaða hefur ríkt um hinar miklu breytingar á skólakerfinu síðustu ár. Kennaraháskóli Íslands er til marks um þessar breytingar, því að í upphafi árs 1998 var það skref stigið að sameina innan vébanda hans fjóra skóla og þá var nám í þremur þeirra að auki fært á háskólastig. Hefur vel og skipulega verið unnið að því að fella starf þessara skóla í eina heild og færi ég stjórnendum skólans, kennurum, nemendum og starfsliði öllu innilegar þakkir fyrir góða framgöngu í því efni.
Skólar bera aldur sinn vel, af því að þeir eru alltaf að taka á móti ungu fólki og á þrjátíu ára afmæli Kennaraháskóla Íslands er bjart yfir framtíð hans. Góð sátt hefur tekist um lengd og skipan náms við skólann og það þróast nú ört með meistaranámi og doktorsnámi, vaxandi þróttur er í rannsóknum innan skólans og hlutur hans við framkvæmd skólastefnunnar verður sífellt meiri. Skólinn hefur svarað kalli tímans um símenntun og sýnt mikilvægt frumkvæði með öflugstu fjarkennslu íslenskra háskóla og er ævintýri líkast að hitta kennara um land allt og kynnast því, hve fjarnám við Kennaraháskóla Íslands veitir þeim mikla örvun í starfi.
Nýbygging kennaraháskólans rís nú á Rauðarárholti og á Laugarvatni er markvisst unnið að því að bæta aðstöðu skólans. Í þessari viku bárust mér tillögur starfshóps undir formennsku Árna Johnsens, alþingismanns og fyrrverandi nemanda hér við skólann, um Íþrótta- og Ólympíumiðstöð Íslands á Laugarvatni. Er þar að finna áætlun um endurbætur á húsa- og tækjakosti á staðnum í því skyni að skapa kjöraðstæður í þágu kennslu og þjálfunar í íþróttum. Hef ég fullan hug á að vinna að framgangi þessara tillagna, sem yrði mikil lyftistöng fyrir skólastarf á Laugarvatni.
Góðir kandidatar!
Þið gangið til starfa, þegar skipulega er unnið að því að framkvæma nýja skólastefnu og skapa nýjum námskrám sess í skólunum. Þið verðið því þátttakendur í brautryðjendastarfi og munuð auk þess nýta upplýsingatæknina með vaxandi þunga við kennslu. En hvað sem nýmælum og tækniþróun líður, megið þið aldrei missa sjónar á því, að þið eruð að búa óharnaða einstaklinga undir lífið. Þið eruð að leggja grunn að hamingju skólabarnanna í lífi og starfi, þegar sífellt meiri kröfur eru gerðar til uppeldishlutverks skólans. Takist ykkur að virkja foreldra og heimili til þátttöku í skólastarfinu munið þið ná betri árangri en ella. Minnumst þess, að kærleikur og góð menntun eru bestu gjafir handa hverju barni.
Ég óska ykkur alls góðs og farsældar í mikilvægum störfum, ég færi Kennaraháskóla Íslands hamingjuóskir á þessum tímamótum og bið þess, að áfram megum við vinna saman að því að efla menntun íslensku þjóðarinnar og styrkja þannig stöðu hennar enn frekar.
Til hamingju með daginn!