16.3.2013

Ný Snorrasýning

Reykholti, 16. mars 2013



 

Sem formaður stjórnar Snorrastofu er mér heiður og ánægja að bjóða ykkur velkomin hingað í Reykholt í dag þegar opnuð er sýningin Saga Snorra. Ekkert fellur betur að hlutverki Snorrastofu en að kynna þessa sögu. Samhliða hönnun og uppsetningu hinnar nýju sýningar hefur ljósabúnaður verið endurnýjaður auk innréttinga í gestastofu og verslun. Þá hefur Snorrastofa fengið Húsafellslegsteina til varðveislu og verða þeir kynntir í dag.

Snorrastofa var formlega stofnuð hinn 28. september 1995 og að henni stóðu Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, héraðsnefnd Mýrasýslu, Reykholtsdalshreppur, Reykholtskirkja og menntamálaráðuneytið.

Þá var ritað undir fyrstu skipulagsskrá stofunnar en í dag mun stjórnin rita undir endurnýjaða útgáfu af skránni sem tekur mið af breytingum á skipan sveitarstjórnamála. Framvegis munu Skorradalshreppur og Hvalfjarðarsveit skipa sameiginlega einn fulltrúa í stjórn við hlið fulltrúa Borgarbyggðar, mennta- og menningarmálaráðuneytið og stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipa hvor sinn stjórnarmann og sóknarnefnd Reykholtskirkju skipar formann stjórnar.

Tilgangi Snorrastofu er meðal annars lýst á þennan hátt í endurnýjaðri skipulagsskrá:

Snorrastofa í Reykholti er safn um Snorra Sturluson og sögu Reykholts. Stofnunin stuðlar að rannsóknum og veitir fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni og Reykholti. Stofnuninni er einnig ætlað að kynna sögu Borgarfjarðarhéraðs sérstaklega.

Þá er á vegum Snorrastofu starfrækt í Reykholti upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn og staðið að  sýningum og fræðslu um Snorra Sturluson og sögu staðarins og íslenska menningu.

Allt hefur þetta gengið eftir eins og ætlað var árið 1995. Að þessum verkefnum hefur verið starfað af miklum metnaði hér í Reykholti.

Um leið og ég færi Reykholtssöfnuði þakkir fyrir stórhug hans í þágu staðarins og endurreisnar hans er á engan hallað þótt ég nefni þrjú til sögu vegna þróunar starfsins undir merkjum Snorrastofu: prestsfrúna Dagnýju Emilsdóttur, séra Geir Waage sóknarprest og Berg Þorgeirsson, forstöðumann Snorrastofu.  Öll hafa þau átt ómetanlegan hlut að afrekum sem hér hafa verið unnin og skapað hafa Reykholti ásýnd og inntak sem fellur að minningunni um Snorra Sturluson.

„Ef Snorri mætti líta upp úr gröf sinni, mundi honum koma dómur nútímans um störf sín mjög á óvart. Hann mundi furða sig á því, að nafn hans hefur borizt svo langt sem raun hefur á orðið,“ sagði Sigurður Nordal prófessor í bók um Snorra Sturluson sem fyrst kom út árið 1920.

Áhugi á framlagi Snorra til heimsmenningarinnar  vex en minnkar ekki og það hlýtur að vera Íslendingum sérstakt metnaðarmál að verkum og lífi Snorra sé sýndur sá sómi sem ber. Á Snorrastofu hvílir því mikil ábyrgð. Snorrasýningin er til marks um hvernig við henni er brugðist. Ég óska þeim heilla sem að gerð sýningarinnar Sögu Snorra hafa staðið.

Sýningin dregur athygli að fleiri stöðum en Reykholti. Hún minnir á tenginguna við Þingvelli, Skálholt og Odda á Rangárvöllum. Allt eru þetta staðir sem settu mikinn svip á tíma Snorra. Ég tel að á líðandi stundu beri að huga að tengslum þessara staða og mynda keðju menningar- og sögustaða sem teygir sig frá Reykholti um Þingvöll og Skálholt að Odda. Hver hlekkur í keðjunni haldi sinni sérstöðu en saman myndi þeir heild sem fulltrúar ritlistar, stjórnmála, kristni og menningartengsla við umheiminn.

Fyrir hönd stjórnar Snorrastofu flyt ég öllum þakkir sem hafa komið að gerð hinnar nýju sýningar og öðrum umbótum. Þá er mikils virði að fá hingað Húsafellslegsteina til varðveislu. Allt er þetta enn eitt skrefið til að styrkja Reykholt í sessi í byggð sinni og huga þjóðarinnar og gesta sem sækja staðinn heim.

Mikið hefur áunnist á undanförnum árum við gera fornan menningararf ljóslifandi með tengingu við sögustaði. Með rannsóknum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur á fornleifum hér á staðnum og útgáfu á niðurstöðum þeirra í glæsilegu riti auk aðgengis að rannsóknasvæðinu sjálfu styrkjast hinar sögulegu rætur Reykholts. Staðurinn er og á að vera gott fordæmi um virðingu fyrir sögunni og gildi hennar fyrir samtíðina.

Ég býð ykkur að nýju velkomin og segi þessa hátíð okkar hér í dag setta.