6.6.1998

Kennaraháskóli Íslands - skólaslit


Björn Bjarnason
menntamálaráðherra,
Kennaraháskóli Íslands

Skólaslit 6. júní 1998.

Í upphafi máls míns vil ég óska hinum glæsilega hópi kandídata, sem nú kveður Kennaraháskóla Íslands innilega til hamingju með daginn. Mikilvægum áfanga er náð. Þið hafið búið ykkur undir lífsstarfið með löngu námi til að sinna grunnskólakennslu, leikskólakennslu, þroskaþjálfun eða öðru sem þið kunnið að taka ykkur fyrir hendur. Fá störf krefjast jafnmikils eða eru jafngefandi og þau, sem þið hafið menntað ykkur til að sinna. Þið eruð í senn uppfræðarar og fyrirmyndir.

Mikil tíðindi hafa gerst í menntamálum á því skólaári, sem nú er að ljúka.

Þið hafið verið þátttakendur í því að mynda nýjan háskóla. Þremur framhaldsskólum hefur verið breytt í háskóla innan ramma hins nýja Kennaraháskóla Íslands. Vil ég við þetta tækifæri færa háskólaráði og rektor, kennurum, stúdentum og öðru starfsliði einlægar þakkir fyrir, hve vel og skipulega hefur verið gengið til þess verks að framkvæma nýju lögin um Kennaraháskóla Íslands.

Í öðru lagi hefur verið kynnt ný skólastefna. Hún snýst um það, sem gerist í skólastofunni sjálfri og lýtur beint að sambandi kennara og nemanda. Með stefnunni er lagður grunnur að nýjum námskrám fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Jafnframt er unnið að því að endurskoða uppeldisáætlun leikskólans. Frá og með næsta hausti á þessi nýi starfsrammi að liggja fyrir með skýrum markmiðum og kröfum um árangur. Er nú unnið að því að semja áætlanir um endurnýjun á námsefni grunnskólans.

Þá hafa í fyrsta sinn farið fram sveitarstjórna-kosningar eftir að grunnskólinn fluttist frá ríkinu til sveitarfélaga. Skólamál voru meira til umræðu í þessari kosningabaráttu en nokkru sinni fyrr í íslenskri skólasögu. Er full ástæða til að vænta þess, að hinn mikli póltíski áhugi á skólamálum muni bæta starfsumhverfi kennara.

Loks hefur verið gerð úttekt á kennaramenntun í landinu. Liggja nú fyrir tillögur hlutlausra aðila um það, hvað ber að gera til að bæta menntun kennara. Falla þær vel að markmiðum nýju skólastefnunnar, þar sem mikil áhersla er lögð á endurmenntun kennara.

Þessi fjögur atriði snerta stóran hluta ykkar, sem eruð nú að ljúka námi. Án góðrar námskrár og námsefnis, góðra vinnuveitenda og góðra tækifæra til að stunda endurmenntun fáið þið ekki notið ykkar í starfi. Má fullyrða, að á öllum þessum sviðum sé nú verið að búa betur í haginn fyrir þá, sem sinna kennslu, en gert hefur um langt árabil.

Ég vil ekki láta hjá líða að nefna sérstaklega málefni fatlaðra. Á undanförnum árum hefur fötluðum nemendum fjölgað innan hins almenna skólakerfis á öllum skólastigum. Víða er af mikilum metnaði komið til móts við þarfir þessara nemenda og æ fleiri þroskaþjálfar starfa innan skólanna í því skyni. Er þess vegna ljóst að þótt þið útskrifist hér í dag með mismunandi nám að baki er líklegt að leiðir ykkar eigi eftir að liggja saman síðar í mikilvægum störfum.

Góðir áheyrendur!

Kennaraháskóla Íslands þarf að búa góð starfsskilyrði, þegar honum hafa verið falin ný verkefni.

Ný lög veita stjórnendum skólans mikið svigrúm til að fara með stjórn eigin mála. Hefur ríkisvaldið ekki fyrr framselt vald með þessum hætti til þeirra, sem stjórna opinberum háskóla.

Á því hálfa ári, sem liðið er síðan skólinn hóf starf, hefur verið unnið að því að skilgreina ýmsa þætti innan hans og í samskiptum við menntamálaráðuneytið. Ég fylgi þeirri stefnu, að gefa stjórn skólans eins mikið svigrúm og hún kýs innan ramma laganna.

Í þessari afstöðu felst hvorki áhugaleysi á málefnum skólans né skortur á afstöðu til þess, sem gerist innan veggja hans. Ég er til dæmis eindregið þeirrar skoðunar, að innan Kennaraháskóla Íslands beri að skilgreina þriggja ára námsbraut, sem veiti almenn réttindi til kennslu í leikskólum og grunnskólum. Er það í samræmi við niðurstöðuna í hinni nýju úttekt á kennaramenntun og þá þróun, sem við sjáum í öðrum háskólum hér á landi, hvort heldur um er að ræða nám í húmanískum greinum eða raungreinum.

Samskipti ráðuneytisins og Kennaraháskólans ráðast annars vegar af lögunum um skólann og hins vegar af samningi um fjárveitingar til skólans. Hef ég tilefnt menn til viðræðna við skólann um þennan samning.

Kennaraháskóli Íslands starfar í Reykjavík, á Laugarvatni og Varmalandi. Liggja þegar fyrir stórhuga hugmyndir um uppbyggingu skólans á Rauðarárholti og Laugarvatni. Er eðlilegt, að skólin semji áætlun um það, hvernig best verði staðið að því að bæta úr húsnæðisþörf hans. Þar verða menn að sjálfsögðu að velja og hafna og raða verkefnum eftir því, sem fjármagn leyfir.

Nú þegar liggur fyrir sú breyting á umsýslu eigna ríkisins á Laugarvatni, að húseignum og landi verður skipt milli Kennaraháskóla Íslands og Menntaskólans. Fara skólarnir framvegis sjálfir með öll mál er lúta að rekstri þeirra og vörslu. Samhliða þessari ráðstöfun öðlast Kennaraháskóli Íslands skilgreinda hlutdeild í því fé, sem er á fjárlögum til uppbyggingar og endurbóta á Laugarvatni. Er nauðsynlegt taka ákvörðun um, hvort ríkið skuli áfram eiga öll sín hús á staðnum. Tekjur af sölu eigna mætti nota til að hraða nýframkvæmdum eða endurbótum.

Til að Kennaraháskólinn geti unnið með skipulegum hætti að húsnæðismálum sínum hef ég ákveðið, að hann fái í ár 15 milljónir króna sérstaklega til þess verkefnis.

Í öðru lagi hefur verið lagt á ráðin um það, hvernig unnt er á skömmum tíma og með fjárveitingum í ár að framkvæma samkomulag um afnot Kennaraháskóla Íslands af húsnæði í Sjómannaskólahúsinu.

Í þriðja lagi er unnið að því að tryggja fjármuni á fjárlögum næsta árs til að leysa úr húsnæðisþörf skólans. Er æskilegt að festa slíka fjárveitingu til nokkurra ára á grundvelli raunhæfs framkvæmdasamnings.

Í fjórða lagi hefur Reykjavíkurborg lýst áhuga á að kaupa húsnæðið við Laugalæk, þar sem Fósturskóli Íslands hefur verið til húsa. Þegar gengið hefur verið frá þeirri sölu er eðlilegt að andvirðinu verði varið í þágu Kennaraháskóla Íslands á Rauðarárholti.

Ágætu kandídatar og aðrir gestir!

Líklega finnst ýmsum, að upptalning eins og þessi eigi lítið erindi á hátíðleg skólaslit. Ég vildi þó ekki sleppa tækifærinu, þegar ég hef svo glæsilegan og fjölmennan hóp áheyrenda, til að lýsa framtíðarsýn minni um uppbyggingu hins nýja skóla.

Framtíðin er okkur öllum ofarlega í huga á þessari stundu. Þeir, sem taka við skírteinum sínum, halda inn á nýjar og óþekktar brautir. Metnaðarfullir stjórnendur og kennarar við Kennaraháskóla Íslands vilja vita um framtíðarumhverfi hins nýja skóla. Við, sem höfum kynnt nýja skólastefnu undir kjörðinu: Enn betri skóli, viljum sýna, að hugur fylgi máli með því að lýsa hvernig unnt er að leysa úr framtíðarverkefnum í samræmi við hana.

Hinn 1. júní 1908 tóku fyrstu íslensku lögin um fræðslu barna gildi. Aldamótamennirnir, sem fengu heimastjórn til Íslands við upphaf aldarinnar, litu á það, sem eitt af fyrstu verkefnum sínum að setja fræðslulög og stofna Kennaraskóla í Reykjavík, sem hóf starfsemi sína haustið 1908.

Íslenska þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum á þeim 90 árum, sem síðan eru liðin. Um þessar mundir er öllum ljóst, að alhliða menningarstarf, miðlun þekkingar, símenntun og nýting upplýsingatækninnar eru brýnustu viðfangsefni okkar við aldamótin 2000, ef við viljum styrkja innviði íslenska þjóðfélagsins í alþjóðlegri samkeppni.

Um næstu aldamót er því meira í húfi en nokkru sinni, að vel takist til í mennta- og skólamálum. Ég óska Kennaraháskóla Íslands velgengni. Ég óska þeim, sem nú ljúka prófum frá skólanum farsældar í leik og starfi.