9.3.2001

Frelsi notenda og réttur höfunda - Morgunblaðið 9. mars
Í tilefni af reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalda af óáteknum geisladiskum og tækjum til stafrænnar upptöku verka var meðal annars safnað tæplega 16.000 undirskriftum undir texta, þar sem segir, að ég hafi samþykkt reglugerð ?um að leggja skuli skatt á öll tæki sem notuð eru til afritunar, t.d. tölvur, geislaskrifara og skrifanlega geisladiska." Voru nöfn þeirra, sem rituðu undir þessi mótmæli afhent mér miðvikudaginn 7. mars.

Texti mótmælaskjalsins gefur ekki rétta mynd af því, sem hér er um að ræða. Alþingi samþykkti einum rómi hinn 8. maí árið 2000 breytingar á höfundalögunum. Flutti ég frumvarpið hinn 15. febrúar árið 2000. Á þeim mánuðum, sem frumvarpið var í meðferð alþingis, tók það meðal annars þeirri breytingu, að rétthafar samkvæmt lögunum skyldu eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku til einkanota með stafrænum hætti. Er gerð grein fyrir þessari breytingu í samróma áliti menntamálanefndar alþingis.

Ber menntamálaráðherra að framfylgja ákvæðum laganna með reglugerð og í samræmi við þau er í henni gert ráð fyrir gjaldtöku af stafrænum búnaði og geisladiskum. Þegar reglugerðin var samin, var sú stefna tekin að setja í hana sömu fjárhæðir og nefndar eru í lögunum, það er 35 kr. gjald af geisladiskum með minna en 2 Gb geymslurými og 100 kr. gjald á geisladiska með meira en 2 Gb geymslurými. Þá voru ákvæði um gjald á tæki skilgreind meðal annars 1% gjald af tölvum með innbyggðum geislabrennurum/geisladiskaskrifurum.

Eftir að reglugerðin hafði verið birt, hófust mótmæli og söfnun undirskrifta. Mánudaginn 5. mars ræddi ég við fulltrúa innflytjenda, netverja og höfundaréttarhafa og ákvað síðan daginn eftir að lækka gjöldin á diskana úr 35 kr. í 17. kr. og úr 100 kr. í 50 kr. auk þess sem ákvæðið um tölvurnar var tekið út úr reglugerðinni. Til þessa hef ég heimild samkvæmt lögunum.

Hverjir fá gjaldið?

Í mótmælaskjalinu er talað um skatt og er ekki unnt að draga aðra ályktun af því orði en um sé að ræða tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Svo er ekki, því að gjaldinu er ætlað að vera sanngjörn þóknun til höfunda vegna afritunar verka þeirra til einkanota eingöngu. Hefur þessi leið verið farin víða um heim til að tryggja í senn frelsi notenda geisladiska og lögvarinn rétt höfunda.

Í umræðum hefur verið gefið til kynna, að gjaldtakan sé í þágu tónlistar eingöngu. Þetta er ekki rétt, því að hún er vegna allra hugverka, sem heimilt er að afrita til einkanota. Innheimtumiðstöð gjalda tekur við þessum fjármunum, en aðild að henni eiga tónlistarmenn, blaðamenn, rithöfundar, kvikmyndaframleiðendur og leikstjórar, fræðimenn og myndlistarmenn.

Gildi höfundaréttar

Engum ætti að vera betur ljóst en tölvumönnum, hve mikils virði höfundarétturinn er. Framleiðendur hugbúnaðar standa fastar vörð um þennan rétt sinn en aðrir og hafa fengið því framgengt að í höfundalögum er til dæmis bannað að afrita af eign þeirra til einkanota, afritun tölvuforrita er aðeins leyfð í öryggisskyni. Þessi mikla varðstaða um höfundaréttinn er meðal höfuðeinkenna tölvu- og hugbúnaðariðnaðarins og ein af meginforsendum fyrir arðsömum vexti hans.

Ég hef kynnst því í viðræðum við fulltrúa Microsoft, hve annt því mikla fyrirtæki er um þennan rétt. Þegar rætt var við fulltrúa þess um íslenskun á hugbúnaði fyrirtækisins beindist athyglin að því, hve mikið af ólögmætum hugbúnaði væri í notkun hér á landi. Virtist virðingin fyrir höfundarétti minni hér við tölvunotkun en í nágrannalöndunum. Microsoft féllst á að íslenska Windows 98 enda yrði gert átak gegn stuldi á forritum þess hér.

Gengið of langt

Vegna þessa máls hef ég fengið fjölda tölvubréfa, sem ég svara ekki hverju og einu. Undrar mig, hve hátt margir reiða til höggs vegna þessa máls, þótt augljóst sé, að þeir hafi ekki kynnt sér það til neinnar hlítar, og er sömu sögu að segja um þá, sem hafa birt greinar gegn reglugerðinni hér í Morgunblaðinu. Þessi skipan við innheimtu höfundagjalda hefur verið við lýði hér í 15 ár og nú er hún löguð að nýrri tækni samkvæmt einróma ákvörðun alþingis.

Eins og áður sagði samþykkti alþingi einum rómi hinn 8. maí 2000, að sá háttur yrði á innheimtu höfundagjalda af stafrænum upptökum til einkanota, sem hér er lýst. Með þetta í huga er dapurlegt að sjá þingmenn, sem samþykktu lögin, lýsa andstöðu sinni við reglugerðina, eftir að hún hefur valdið deilum. Þetta gerir Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, til dæmis í Viðskiptablaðinu 7. mars.

Ég var og er fylgjandi þeirri skipan, sem er að finna í höfundalögunum. Sem ráðherra er mér skylt að framfylgja lögunum með reglugerð. Ég hef gert það á þann veg, að nýta heimild til minni gjaldtöku en lögin nefna.