10.9.2012

Schengen V: Schengen þróast - niðurstaða

Í fyrstu grein minni um Schengen hér á Evrópuvaktinni rakti ég uppruna samstarfsins aftur til 1985 þegar Schengensamningurinn kom til sögunnar sem milliríkjasamningur. Hann var síðan færður inn í ESB-laga- og stjórnkerfið með Amsterdamsáttmálanum 2. október 1997 sem leiddi til þess að Brusselsamningurinn var gerður við Ísland og Noreg árið 1999 og lá hann til grundvallar aðild landanna að Schengen.

Nýr ESB-sáttmáli var undirritaður 13. desember 2007, Lissabonsáttmálinn. Með honum var yfirþjólegt vald aukið í innanríkis- og lögreglumálum. Svonefnd þriðja stoð rann undir sama hatt og önnur málefni með sérstakri bókun nr. 19 við sáttmálann um starfshætti (eða framkvæmd) Evrópusambandsins. Bókunin er um Schengenréttarreglur eins og þær hafa verið felldar inn í ramma Evrópusambandsins Protocol on the Schengen Acquis intergrated into the framework of the European Union.

Í inngangi bókunarinnar er tekið fram að nauðsynlegt sé að viðhalda sérstökum tengslum við Ísland og Noreg, bæði ríkin séu bundin af ákvæðum Norræna vegabréfasambandsins eins og Norðurlöndin í Evrópusambandinu. Þarna er með öðrum orðum vísað til þess sem voru meginrökin fyrir aðild Íslands að Schengensamstarfinu, að öðrum kosti rofnaði vegabréfasamband Norðurlandanna. Það hefði leitt til mikilla vandræða í samskiptum Norðmanna og Svía.

Í 6. grein bókunarinnar segir að að Ísland og Noregur verði aðilar að framkvæmd Schengenreglna eftir því sem þær þróist. Ráðherraráð ESB skuli gera sérstakan samning við ríkin sem skuli njóta einróma stuðnings Schengenríkjanna. Þá skuli ráðherraráðið einnig ganga frá samningi við Ísland og Noreg sem taki mið af því að Bretland og Írland standa utan Schengensamstarfsins.

Réttarstaða Íslands og Noregs breyttist ekkert gagnvart ESB með Lissabonsáttmálanum. Um svipað leyti og hann kom til sögunnar var samið um aðild Sviss og Liechtenstein að Schengensamstarfinu.

Nú eru öll ESB-ríkin nema Bretland, Írland, Rúmenía, Búlgaría og Kýpur aðilar að Schengensamstarfinu auk Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss. Aðildarríkin eru 26. Auk þessa eru örríkin San Marínó, Monakó, Andorra og Vatíkanið í raun í Schengensamstarfinu.

Bretar og Írar ákváðu að standa utan Schengensamstarfsins. Rúmenar og Búlgarar vilja aðgang en fullnægja ekki kröfum um hann að mati allra annarra aðildarríkja. Kýpur er klofin eyja vegna deilu við Tyrki og ræður það nokkru um að eyjan er ekki í Schengen.

Vegna þess að Bretar og Írar eru utan Schengensamstarfsins en vilja gjarnan tengjast samvinnu ESB-ríkjanna á sviði lögreglu- og öryggismála er tilhneiging hjá lagasviði ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar að túlka Schengenreglur þröngt og gera frekar sérstaka samninga við Schengenríki utan ESB. Kemur þetta vel heim og saman við hagsmuni Íslendinga en stjórnvöld þeirra verða að gæta þess að ganga ekki á varðstöðu stjórnarskrárinnar um fullveldið vegna Schengenaðildar. Líkur á því að brotið sé gegn stjórnarskránni minnka með þröngri túlkun á Schengenreglum.

Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um Schengen

Hinn 16. maí 2012 gaf framkvæmdastjórn ESB yfirlýsingu um stöðu mála á Schengensvæðinu í ljósi þeirra reglna sem um það gilda. Þar segir að rúmlega 400 milljónir manna njóti nú þess réttar að ferðast á milli landa á svæðinu án þess að vera krafnir um vegabréf á landamærum ríkjanna. Það þurfi að sýna árvekni til að tryggja rétt borgaranna til frjálsrar farar. Mikið sé í húfi fyrir marga í ljósi þess að Evrópubúar fari í meira en 1,25 milljarða ferðalaga á ári.

Yfirlýsingin 16. maí 2012 var gefin í tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB birti í fyrsta sinn skýrslu um stöðu Schengenmála sem framvegis verður gert annað hvort ár. Markmiðið er að efla pólitíska forystu við stjórn Schengenmála og samvinnu milli aðildarríkjanna. Í skýrslunni er að finna leiðbeiningarreglur sem eiga auðvelda samhæfða túlkun og framkvæmd valinna efnisþátta í anda samstöðu.

Cecilia Malmström, innanríkismálastjóri ESB, sagði í tilefni af skýrslunni:

„Schengen hefur leitt af sér einn best metna árangur evrópska samrunans. ESB-borgurum er samstarfið mjög kært og það á stóran þátt í blómstrandi efnahag okkar. Allir verða að leggja sitt af mörkum til að varðveita Schengen. Til að stuðla að því ber að efna til reglulegra, heilbrigðra umræðna í ESB-þinginu og ráðherraráðinu og er skýrslan sem kynnt er í dag góður grunnur fyrir þær.“

Fyrsta skýrslan spannar tímann frá 1. nóvember 2011 til 30. apríl 2012.

Matið á stöðu Schengenmála

Í skýrslunni er rætt um ástandið við ytri landamæri Schengensvæðisins og á innri landamærum þess. Við ytri landamærin er bent á nokkra viðkvæma punkta, einkum Austur-Miðjarðarhafsleiðina um Tyrkland til Grikklands. Á síðustu þremur mánuðum ársins 2011 er talið að um 30.000 manns hafi farið ólöglega yfir ytri landamærin og 75% eftir Austur-Miðjarðarhafsleiðinni.

Framkvæmdastjórnin telur að vegna alvarlegs ástands í Grikklandi eigi að einbeita kröftunum að því að efla ytri-landamæragæslu á sjó og landi. Óhjákvæmilegt sé að ESB leggi Grikkjum áfram lið við gæslu ytri landamæra sinna og sérstaklega þó við að nýta sem best styrki úr innflytjendasjóði ESB..

Á þeim sex mánuðum sem skýrslan spannar var tvisvar sinnum ákveðið að grípa til landamæragæslu á innri landamærum. Frakkar tóku upp vegabréfaskoðun á landamærum sínum gagnvart Ítalíu fyrir G20 leiðtogafundinn 3. til 4. nóvember 2011. Spánverjar tóku upp vegabréfaskoðun á landamærunum gagnvart Frakklandi og á flugvöllunum í Barcelona og Gerona (vegna fundar Seðlabanka Evrópu 2. til 4. maí 2012). Framkvæmdastjórnin heitir því að sjá til þess að ESB-reglur séu að fullu virtar, einkum þegar um er að ræða eftirlitsaðgerðir lögreglu og hindranir á innri landamærum.

Skýrt er frá því að rannsakað hafi verið með matskerfi Schengen hvernig einstök ríki standi að gæslu: á flugvöllum í Ungverjalandi, Möltu og Slóveníu, vegna vegabréfsáritana í Tékklandi, Ungverjalandi, Möltu og Slóveníu, vegna SIS/Sirene í Finnlandi og Svíþjóð, lögreglusamvinnu á Möltu, í Slóveníu, Svíþjóð, Noregi og á Íslandi, persónuvernd í Tékklandi, Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og á Íslandi. Þótt í skýrslunni komi fram að sumstaðar mætti gera betur er ástandið hvergi þannig að framkvæmdastjórnin verði að grípa til tafarlausra ráðstafana.

Skýrt er frá því að það hafi tekist vel að hleypa gagnagrunni vegna vegabréfsáritana Visa Information System (VIS) af stokkunum 11. október 2011 og hann hafi reynst vel á fyrsta svæðinu (Alsír, Egyptalandi, Líbíu, Máritaníu, Marokkó og Túnis). Ætlunin er að tengja allar ræðismannsskrifstofur Schengenríkja um heim allan VIS á næstu tveimur árum.

Framkvæmastjórnin leggur áherslu á að aðildarríki láti önnur aðildarríki og framkvæmdastjórnina vita tímanlega um ákvarðanir sem þau ætli að taka varðandi útgáfu búsetuleyfa. Fullnægi innflytjandi ekki skilyrðum um leyfi til að ferðast innan Schengensvæðisins skal aðildarríki sem gefur út (tímabundið) búsetuleyfi frekar velja (bráðabirgða) búsetuleyfi sem jafngildir ekki Schengenvegabréfsáritun til skamms tíma. Aðildarríki ber að upplýsa handhafa slíks skilríkis á viðeigandi hátt um hvaða reglur gilda um ferðir eða ferðabann fyrir hann innan Schengensvæðisins.

Við og innan landamæra sinna geta yfirvöld gripið til lögregluaðgerða til að sannreyna rétt manns til að dveljast í landinu. Hér skal þó aðeins vera um tilviljanakennda athugun að ræða sem reist sé á hættumati.

Við mat á því hvort slíkar aðgerðir lögreglu við innri landamæri eða innan þeirra falli að Schengenreglum er óhjákvæmilegt að kanna hvernig að þeim er staðið hverju sinni. Framkvæmdastjórnin verður að leita eftir staðfestum tölfræðilegum upplýsingum frá aðildarríkjunum. Hún getur þess vegna óskað eftir því við viðkomandi ríki að það leggi fram hve margar athuganir voru gerðar við landamæri á ákveðnum tíma og hvernig þær hafa stuðlað að því marki sem sett var í samræmi við landslög eða boðuð markmið til dæmis til að sporna við glæpastarfsemi yfir landamæri.

Þessa skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um Schengesamstarfið og framkvæmd þess á líðandi stundu má nálgast hér: http://ec.europa.eu/home-affairs/doc_centre/borders/docs/Biannual%20report%20on%20the%20functioning%20of%20the%20Schengen%20area%2020111101-20120430.pdf Af skýrslunni má ráða að svigrúm einstakra ríkja til að grípa til sértækra varúðarráðstafana sem reistar eru á hættumati stofnana þess ríkis er umtalsvert.

Breytingar á Schengensamstarfinu

Umræður urðu snarpar innan Evrópusambandsins um Schengen og frjálsa för fólks á árunum 2011 og 2012. Má meðal annars rekja það til spennu á landamærum Ítalíu og Frakklands vorið 2011 vegna aukins straums flóttamanna frá Norður-Afríku á fyrri hluta árs 2011 eftir byltingu í löndunum þar. Þá óx einnig spenna almennt innan ESB vegna skuldavandans á evru-svæðinu, einkum í Grikklandi þar sem mjög hefur reynt á hið sameiginlega hælisleitendakerfi. Töldu menn sig sjá bresti í landamærasamstarfinu undir merkjum Schengen.

Vegna þessara umræðna og gagnrýni tók innanríkisdeild framkvæmdastjórnar ESB (DG Home) undir forystu Ceciliu Malmström framkvæmdastjóra að yfirfara Schengenstjórnkerfið. Lagði framkvæmdastjórnin fram tillögur Schengen Governance Package um breytingar á stjórnkerfinu á ráðherrafundi innanríkis- og dómsmálaráðherra í september 2011. Breytingartillögurnar voru tvíþættar, annars vegar sneru þær að því hvernig staðið skyldi á úttekt á framkvæmd einstakra aðildarríkja á Schengenreglunum hins vegar fjölluðu þær um við hvaða aðstæður mætti taka um landamæravörslu á innri landamærum Schengenríkja.

Tillögunum var lýst á þann veg að þær væru reistar á „forystuhlutverki framkvæmdastjórnarinnar“, meira vald en áður var fært í hendur embættismanna ESB á kostnað aðildarríkjanna. Tillögunum var kuldalega tekið í einstökum ríkjum. Í umræðum innan ráðherraráðsins gætti viðleitni til að færa valdið meira í hendur kjörinna fulltrúa, það er ráðherraráðsins sjálfs og samsettu nefndarinnar, það er nefndarinnar þar sem ráðherrar Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss hittast með ESB-ráðherrunum.

Í frönsku forsetakosningabaráttunni hótaði Nicolas Sarkozy forseti í ræðu í Villepinte 11. mars 2012 að draga Frakkland tímabundið úr Schengensamstarfinu ef reglur um það tækju ekki meira mið af sveiflum í straum innflytjenda og stjórn þeirra mála yrði ekki aðeins í höndum teknókrata og úrskurðarnefnda. Þá kynnti danska ríkisstjórnin í maí 2011 áform um að halda stöðugt úti tollgæslu á innri landamærunum til að „berjast gegn glæpum“. Frá þessu var horfið í október 2011 þegar vinstriflokkar mynduðu stjórn að loknum þingkosningum. Hollenska ríkisstjórnin tilkynnti að hún ætlaði að setja eftirlitsvélar á landamæri sín gagnvart Þýskalandi og Belgíu til að verjast ólöglegum innflytjendum og ólöglegri búsetu í Hollandi. Voru tilraunavélar settar upp í þessu skyni í janúar 2012.

Hér eru þessi dæmi nefnd til að benda á þá pólitísku strauma sem lágu að baki því að Schngensamstarfið var tekið til skoðunar. Athygli vekur að íslensk stjórnvöld hafa ekki beitt sér fyrir neinni miðlun upplýsinga um hræringar á þessu mikilvæga sviði.

Til að gera langa sögu stutta ˗ en miklar pólitískar umræður eru um þessi mál víða um lönd ˗ skal látið við það sitja í þessu yfirliti að segja frá því að á fundi innanríkis- og dómsmálaráðherra ESB- og Schengenríkja hinn 7. júní 2012 voru samþykktar breytingar á Schengenreglunum sem ollu framkvæmdastjórn ESB og ESB-þinginu miklum vonbrigðum.

Ráðherrarnir höfnuðu tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að sérfræðingar á hennar vegum tækju út hvernig einstök aðildarríki stæðu að framkvæmd Schengenreglnanna. Niðurstaðan varð að nefnd skipuð fulltrúum ríkisstjórna og framkvæmdastjórnarinnar sinnti þessu verkefni.

Það verður áfram á valdi hvers Schengenríkis að ákveða tímabundið að taka upp eftirlit á innri landamærum Schengensvæðisins við sérstakar aðstæður, það er „ef um er að ræða sérstaka almannahættu eða ógn við innra öryggi“.

Þá er einnig á valdi hvers ríkis að taka upp landamæraeftirlit vegna fyrirsjáanlegra stórviðburða eins og íþróttakeppni, pólitískra mótmæla eða funda háttsettra stjórnmálamanna. Reglur eru settir um tímafresti og annað slíkt. Við þessar aðstæður ber að tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum ríkjum ákvörðunina hið minnsta fjórum vikum áður en eftirlitið hefst, fresturinn getur þó verið styttri. Framkvæmastjórnin hefur heimild til að segja álit sitt á ákvörðuninni og ræða hana við viðkomandi ríkisstjórn en getur ekki tekið fram fyrir hendur á henni.

Komi í ljós við mat á framkvæmd einstakra ríkja á Schengenreglunum að illa sé staðið að gæslu ytri landamæra getur framkvæmdastjórnin lagt til við viðkomandi ríki að það leiti sér aðstoðar hjá Landamærarstofnun Evrópu (FRONTEX).

Komi í ljós við framangreint mat að eitthvert ríki sinni alls ekki skyldum sínum getur ráðherraráðið eftir þriggja mánaða umþóttunartíma fyrir ríkið og að fengnum tillögum framkvæmdastjórnarinnar lagt til við eitt eða fleiri tilgreind ríki að þau taki upp eftirlit á innri landamærum sínum enda sé eins og í fyrri tilvikum um alvarlega ógn við almannafrið eða innra öryggi að ræða. Í þessum tilvikum verður landamæraeftirlit ákveðið í sex mánuði og má á sex mánaða fresti lengja það í allt að tveimur árum. Tilgreind eru skilyrði sem ráðherraráðið verður að hafa í huga við ákvörðun sína.

Um leið og ráðherrarnir ákváðu þetta hinn 7. júní 2012 breyttu þeir einnig reglum á þann veg að ESB-þingið var svipt rétti til að eiga hlut að þeim breytingum sem ráðherrarnir höfðu samþykkt, settu þeir nýja Schengeneftirlitskerfið undir grein 70 í sáttmála um starfshætti ESB í stað þess að halda því í grein 77 sem mælir fyrir um að þingið sé jafnfætis ráðherraráðinu við töku þessara ákvarðana, hafði verið gert ráð fyrir því í tillögum framkvæmdastjórnarinnar. Þingið hefur því aðeins ráðgefandi stöðu í þessu máli en kemur ekki að ákvörðuninni sjálfri.

Brugðust forystumenn ESB-þingsins mjög illa við þessari ákvörðun ráðherraráðsins, tóku þeir nokkur mál í gíslingu til að láta í ljós reiði sína og Martin Schulz, forseti þingsins, sagði:

„Það er án nokkurs fordæmis að í miðju lagasetningarferli detti öðrum aðila þess að útiloka hinn. Afstaða innanríks- og dómsmálaráðherranna 7. júní jafngildir löðrungi í andlitið á þingræðinu og verður hún ekki liðin af kjörnum fulltrúum evrópskra borgara.“

Efni þessa máls er eitt. Aðferðin við afgreiðslu þess annað. Af henni verður ekki dregin önnur ályktun en sú að við þróun Schengensamstarfsins og framkvæmd þess vilji aðildarríkin hafa sem mest svigrúm til að geta sjálf gripið til þeirra ráðstafana sem þau telja óhjákvæmilegar til að tryggja öryggi á landamærum sínum og öryggi borgara sinna.

Á sama tíma og rætt er um nánari samruna á pólitíska sviðinu til að leysa vandann á evru-svæðinu er ýtt undir sjálfstæði og styrk milliríkjasamstarf á Schengensvæðinu.

Dublinreglurnar

Eins og fram hefur komið í þessum greinarflokki skipta Dublinreglunar miklu um framkvæmd þess þáttar útlendingamála sem vekur jafnan miklar umræður hér á landi, það er málefni hælisleitenda. Þau tengjast mjög umræðum um Schengenaðild og er engu líkara en oft telji menn að komu hælisleitenda til Íslands megi fella beint undir Schengen. Svo er ekki því að fólk kæmi vafalaust hingað til lands og kastaði frá sér skilríkjum til að gerast hælisleitendur hvað sem liði Schengenaðildinni. Þá eru Bretar og Írar aðilar að Dublinreglunum þótt þeir séu ekki í Schengen en reglurnar ná til ESB-ríkjanna, Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, 31 ríkis.

Kjarni reglnanna er að sá sem leitar hælis í þessum ríkjum ræður ekki hvar umsókn hans um hæli er tekin til afgreiðslu. Dublinreglurnar mæla fyrir um hvar það skuli gert. Umsókn verður aðeins tekin til afgreiðslu í einu þessara ríkja.

Komi maður til Íslands og óski eftir að umsókn hans um hæli verði afgreidd hér á landi hefur hann enga tryggingu fyrir að það verði gert, það fer eftir réttarstöðu hans. Öðru aðildarríki að Dublinreglunum kann að vera skylt að afgreiða málið. Viðkomandi kann því að þurfa að ferðast til þess lands, hafi annað ríki en Ísland gefið út vegabréfsáritun fyrir hann; hann hafi komið ólöglega inn í annað Dublinríki; hann hafi þegar sótt um hæli í öðru Dublinríki. Þá kann staða fjölskyldu hans innan EES-svæðisins að skipta máli í þessu sambandi.

Margir sem hér leita hælis segja ekki rétt frá ferðum sínum innan Dublinsvæðisins til að komast hjá því að verða sendir héðan til annars ríkis. Í öllum tilvikum er þó ljóst að viðkomandi hefur haft viðdvöl annars staðar á svæðinu áður en hann kom til Íslands. Þess vegna liggur í hlutarins eðli að flestum hælisleitendum sé vísað héðan, Dublinreglurnar gera beinlínis ráð fyrir því. Mál hælisleitenda og rannsókn þeirra snýst að verulegu leyti um að sannreyna réttmæti fullyrðinga þess sem leitar hælis.

Hælisleitendur eldri en 14 ára verða að hlíta reglum um skrásetningu fingrafara. Eftir að þau hafa verið skráð eru þau borin saman við fingraför í EURODAC-gagnagrunninum til að kanna hvort viðkomandi hafi verið skráður í einhverju öðru landi sem notar EURODAC.

Útlendingastofnun tekur stjórnsýsluákvörðun um hvort veita beri manni hæli eða vísa honum til annars lands. Þessa ákvörðun er unnt að kæra til innanríkisráðuneytisins og bera undir dómstóla. Hlíti maður ekki ákvörðun um að fara úr landi er unnt að flytja hann á brott með valdi, brottvísa.

Ekki hafa verið beinar samgöngur milli Íslands og ríkja utan Dublinsvæðisins nema til Norður-Ameríku. Þegar Icelandair tekur að fljúga til St. Pétursborgar í Rússlandi breytist þetta. Sendiráð Íslands í Moskvu mun annast útgáfu vegabréfsáritana og þar verður komið fyrir þeim tæknilega búnaði sem fylgir VIS-kerfinu, það er samræmdu áritanakerfi Schengenríkjanna. Verður sérstakt rannsóknarefni að fylgjast með þessu nýmæli í landamæravörslu Íslands.

Frá árinu 2009 hefur verið rætt um breytingu á Dublinreglunum á vettvangi ESB. Markmiðið er að samhæfa afgreiðslu á hælisbeiðnum enn frekar. Um þessar mundir taka 10 af Dublinríkjunum 31 við 92% af öllum sem leita hælis á svæðinu. Rannsóknir sýna að það ræðst verulega af því hvar hælisumsókn er tekin til meðferðar hvort viðkomandi fær hæli eða ekki.

Cecilia Wikström, ESB-þingmaður frá Svíþjóð, sagði við vefsíðuna Europaportalen 22. ágúst 2012 að innan við 1% líkur væru á því að afganskur hælisleitandi fengi hæli á Írlandi, mál hans yrði ekki afgreitt í Grikklandi en í Belgíu væru 60% líkur á að hann fengi hæli. Hún sagði að svona ætti þetta ekki að vera heldur ættu sömu reglur og matsaðferðir að gilda alls staðar og það yrði best gert með miðstýrðu valdi á þessu sviði án tillits í hvaða landi sótt væri um hæli.

Mannréttindadómstóll Evrópu og ESB-dómstóllinn hafa úrskurðað að ekki beri að brottvísa hælisleitanda til Dublinríkis þar sem hann sættir ómannúðlegri eða ómannsæmandi meðferð. Hér er vísað til þess að aðbúnaður að hælisleitendum í Grikklandi sé svo ömurlegur að ekki sé forsvaranlegt að vísa þeim þangað frá öðrum Dublinríkjum hvað sem Dublinreglunum líður.

Hér skal engu spáð um hver niðurstaðan verður við endurskoðun Dublinreglnanna og hvort nokkru sinni takist að svipta einstök ríki réttinum til að leggja mat á umsóknir hælisleitenda. Pólitískur vandi vegna þessara mála er víða mikill og þróunin hefur fremur verið til þeirrar áttar að ríki auki árvekni sína í stað þess að slá af henni og kjósendur eru á varðbergi í þessu efni eins og ráða má af stefnuskrám flokka og kosningum víða um lönd.

Lokaorð

Augljóst er að ekki ríkir stöðnun í Schengensamstarfinu. Stjórnmálamenn vilja halda endanlegu ákvörðunarvaldi á heimavelli og nýta samstarfið til sameiginlegrar baráttu í þágu öryggis borgara sinna.

Fólki sem kemur til Íslands fjölgar jafnt og þétt eins og tölur um umferð á Keflavíkurflugvelli sýna. Íslensk stjórnvöld ráða yfir öflugum tækjum til að fylgjast með þessu fólki og geta enn aukið eftirlit með nýri tækni og þjálfun mannafla til að nota hana. Greining á farþegalistum og sambanburður við gagnagrunna sem lögregla getur nýtt við störf sín stuðlar að öflugri landamæravörslu.

Ísland er utan ESB og íslensk yfirvöld hafa því heimild til tollgæslu á landamærum sem ekki er unnt að grípa til á sama hátt innan ESB.

Svigrúm íslenskra yfirvalda til að gæta landamæra Íslands þrátt fyrir Schengenaðild er mikið. Stefnumörkun stjórnvalda og fjármagn sem þau leggja til að þjálfa fólk og til tækjakaupa og síðan til daglegs reksturs ráða hvernig staðið er að landamæravörslunni.

Mikil skammsýni felst í því að skella skuldinni á Schengenaðildina ef menn sætta sig ekki við þá útlendinga sem koma til landsins. Flestir eiga fullan rétt til þess sem EES-borgarar, á aðra er litið sem mikilvægt framlag til þjóðarbúsins vegna ferðaþjónustu. Schengenaðildin auðveldar öllu þessi fólki inngöngu í landið. Yfirgnæfandi meirihluti þess kemur í vinsamlegum og friðsamlegum tilgangi. Að leggja stein í götu alls þessa fjölda til að leita að skúrkum sem leita ávallt allra leiða til að skjóta sér undan eftirliti er fráleitt.

Í stað þess að krefjast úrsagnar úr Schengensamstarfinu sem mundi leiða til mikilla vandræða fyrir löggæsluaðila og kalla á stóraukinn kostnað á mörgum sviðum auk þess að skapa vandræði fyrir ferðaþjónustu og flugfélög á að leggja hart að stjórnvöldum að þau nýti sér öll tækifæri sem Schengenaðildin veitir til gæslu á landamærunum.

Hið sama á við um Dublinreglurnar og aðild að þeim. Íslenska útlendingalöggjöf ber að sníða að þessum reglum og þær ber að nýta sem hvert annað tæki til að skapa Íslendingum öryggiskennd.

Um þessi mál ber að ræða á pólitískum vettvangi og takast á um þau eins og önnur álitaefni. Blása ber á þá sem telja umræðurnar einar til marks um óvild í garð einhvers sem hefur farið í kringum regluverkið eða vill misnota það sér í hag. Útlendingamál eru alls staðar viðkvæm og erfið þess vegna er nauðsynlegt að fara að öllu með gát og ekki rasa um ráð fram; sýna frekar íhaldssemi en óðagot og varast alla lýðskrumara hvort sem þeir vilja ganga á hlut útlendinga eða sniðganga reglur þeim í hag.