16.2.2001

Hátíðisdagur Orators

Hátíðisdagur
Orators,
16. febrúar, 2001.
Er ánægjulegt, að laganemar halda hinum góða sið að minnast 16. febrúar og fagna því að þann dag
var Hæstiréttur Íslands stofnaður árið 1920.Stigu Íslendingar það skref fyrr en margir ætluðu, að taka dómsvaldið allt í sínar hendur, eftir að þeir fengu fullveldi. Hin snöru handtök í því efni voru þó í góðu samræmi við áherslu þjóðarinnar á virðinguna fyrir lögum og rétti og gildi þess að leysa úr öllum þrætum á friðsamlegan hátt.

Um hæstarétt hefur oft gustað á því 81 ári, sem hann hefur starfað, en óvenjulega mikið síðustu vikur, þegar stjórnmálamenn og aðrir hafa tekist á um ýmsar meginstoðir og meginreglur stjórnskipunarinnar. Í slíku spennuástandi er gjarnan leitað til prófessora í lagadeild Háskóla Íslands og þeir beðnir að segja álit sitt á ágreiningsmálum, væntanlega í þeirri von, að þeim takist að leiða þau friðsamlega til lykta með rökum sínum og mikilli þekkingu. Þegar mál eru á slíkum stundum lögð fyrir af miklum hita og æsingi gæti manni dottið í hug, að í sumum öðrum löndum kysu fréttamenn frekar að leita til hershöfðingja en lagaprófessora til að fá fregnir af hugsanlegum málalyktum.


Frá því að Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum og sagði, að við slitum í sundur friðinn með því að hafa ekki ein lög, höfum við Íslendingar leitast við að leysa úr þrætum með lögin að
vopni og lögspekinga til að skýra fyrir okkur, hvað í þeim felst. Lagaþræturnar hafa einnig verið margar í aldanna rás og þess vegna hlýtur það að koma mörgum á óvart, þegar því er haldið fram núna, að það sé löggjafanum, okkur, sem sitjum á alþingi, að kenna, að menn eru ekki á einu máli um það, hvernig eigi að túlka einstök lög, er jafnvel látið í veðri vaka, að það sé galli á löggjöf, að um inntak hennar sé deilt. Ef lögin væru öllum skýr og álitaefni vegna þeirra úr sögunni, væri lítil þörf fyrir okkur lögfræðingana.


Ein leið, sem sumir hafa séð til að bæta gæðastarf á alþingi, er að auka áhrif löglærðra sérfræðinga á þingmenn. Mér þótti það skynsamlegt svar við spurningu um þetta efni hjá frænda mínum Halldóri Blöndal, forseta alþingis, á dögunum, þegar hann sagðist halda, að formleg ráðgjöf lögfræðinga mundi litlu skipta fyrir þingmenn. Þeir hefðu til dæmis fengið hina færustu lögmenn til fundar við sig í þingnefnd, sem fjallaði um öryrkjadóminn, og hlýtt á augljósa túlkun þeirra, en samt hefðu þingmennirnir komið
ósammála út úr nefndinni og meira að segja deilt áfram um það, hvort niðurstaða meirihluta nefndarmanna bryti í bága við stjórnarskrá eða ekki.

Málsvarar þess, að alþingismenn leggi ekki nógu mikla alúð við lagasmíðina hafa meðal annars bent á það, að í
lagasafninu megi finna ákvæði frá árinu 1929 um laganefnd, en hana megi
forsætisráðherra skipa til að gæta þess, að vel sé staðið að allri
lagasmíð. Slík nefnd hefur hins vegar aldrei verið skipuð í þau rúmu 70 ár, sem ákvæði
um hana hafa verið í lögum. Ég held, að ein skýringin á því sé, að í
ríkisstjórnum eða á alþingi hafa um langan aldur setið þeir menn, sem hafa
haft hvað mesta þekkingu sinna samtíðarmanna á stjórnarskrá og stjórnskipunarlögum. Á meðan þeirra naut við hafi menn ekki séð neina sérstaka þörf á því að fara í smiðju til annarra, auk þess sem þrír þessara manna hafa verið forsætisráðherrar og ekki talið ástæðu til að skipa sérstaka nefnd sér til ráðuneytis um lögfræðileg málefni.

Ef við lítum á þá, sem hafa kennt ríkisrétt eða stjórnlagafræði í lagadeild Háskóla Íslands í þau 90 ár, sem hún hefur starfað, þekkjum við öll nöfn þeirra einnig úr stjórnmálasögunni. Fyrsti kennarinn í þessum fræðum var Lárus H. Bjarnason, en hann var alþingismaður, þegar hann varð forstöðumaður Lagaskólans við stofnun hans árið 1908 og síðar prófessor við Háskóla Íslands árið 1911. Einar Arnórsson, þingmaður, ráðherra og hæstaréttardómari, höfundur fyrstu laganna um Hæstarétt Íslands, kenndi stjórnlagafræði í tíu ár til 1932, þegar Bjarni Benediktsson, síðar borgarstjóri, þingmaður og ráðherra, varð prófessor. Gunnar Thoroddsen, þingmaður, borgarstjóri og ráðherra, tók við af Bjarna og Ólafur Jóhannesson, þingmaður og ráðherra, var arftaki Gunnars en þegar Ólafur hætti kennslu og varð forsætisráðherra 1971, tók Gunnar G. Schram þingmaður við af honum.

Í mínum huga er enginn vafi á því, að stjórnmálastörf allra þessara manna mótuðust
af þekkingu þeirra í stjórnlögum. Pólitísk áhrif sóttu þeir til þessarar
þekkingar ekki síður en til hugsjóna sinna og þeirra embætta, sem þeir gegndu. Þegar þeir
sátu á alþingi, voru ekki margir lögfræðingar, sem vildu etja kappi við þá um
stjórnlagafræði. Þingmenn töldu sig geta fengið hjá þeim endanleg svör í mörgum álitamálum og til dæmis um það, hvort lög brytu í bága við stjórnarskrána. Í fræðaheimi lögfræðinnar byggja menn skoðanir sínar ekki síður á því, sem fræðimenn segja um lögin, en hinu, sem í sjálfum lagatextunum segir, eins og við öll vitum.

Ég starfaði á sínum tíma sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu með
Ólafi Jóhannessyni sem forsætisráðherra.Fylgdist ég til dæmis með því, hvernig þessi gamli kennari minn og ágæti húsbóndi stóð að gerð frægra laga um efnahagsmál, sem síðan hafa verið við hann kennd. Ég er
ekki viss um, að margir ólöglærðir ráðherrar hefðu látið sér detta í hug
það ráð, sem Ólafur notaði við lagasmíðina, eða hefðu komist upp með það.

Alþýðuflokkurinn undirbjó um áramótin 1978 til 1979 frumvarp til laga um
jafnvægi í efnahagsmálum, þetta var sem sagt á þeim tíma, þegar menn höfðu
enn trú á því, að við Íslendingar ættum allt undir svonefndum
efnahagsúrræðum ríkisstjórnar og alþingis og stjórnmálaflokkarnir kepptust
við að hanna slík úrræði. Var Alþýðuflokkurinn með Alþýðubandalagi og
Framsóknarflokki í ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar á þessum
tíma, Frumvarp flokksins olli deilum í ríkisstjórninni, en Ólafur tók það
einfaldlega í eigin hendur og samdi sjálfur eigið plagg „við eldhúsborðið",
eins og hann orðaði það. Var sagt, að samflokksmenn hans vissu ekki einu
sinni, hvað í því stóð. Þannig smíðaði Ólafur lagafrumvarp um stefnu í
efnahagsmálum, sem hann lagði fram á alþingi sem þingmaður en ekki sem
forsætisráðherra, en með því flutti hann ágreining um málið úr
ríkisstjórninni inn á alþingi, því að aldrei gafst tækifæri til að ræða
málið við ríkisstjórnarborðið. Í gerð Ólafs naut frumvarpið stuðnings
Alþýðuflokksins en ekki Alþýðubandalagsins. Þegar rætt var um þessa
djúpstæðu sundrungu í ríkisstjórninni, komst Ólafur meðal annars svo að
orði: „Það á sér stað á bestu heimilum, og þar sem jafnvel ástúð er heitust
með hjónum, að þau deila stundum. En þeim mun heitari verða faðmlögin,
þegar sættir hafa tekist." Frumvarp Ólafs var samþykkt á alþingi og er
þekkt undir heitinu Ólafslög, þessi ríkisstjórn hans varð hins vegar ekki
langlíf.

Góðir áheyrendur!

Þekking Ólafs Jóhannessonar á stjórnlögunum auðveldaði honum að fara þessa
óvenjulegu leið til að jafna ákafar deilur um efnahagsmál í ríkisstjórn
sinni. Í þröngri pólitískri stöðu vegna efnahagsmála voru það ekki áhrif
hans sem sérfræðings á sviði þeirra heldur stjórnlagafræði, sem dugðu til
að lengja líf ósamstæðrar ríkisstjórnar hans.

Þegar menn voru að ræða það í kaffistofu þingsins á dögunum, hvernig ætti
að verja heiður alþingis og bregðast við háværum kröfum lögfræðinga og
annarra um að alþingi vandaði sig sem mest við lagasmíð, lagði ég til, að
menn kysu einfaldlega fleiri lögfræðinga á þing. Best væri auðvitað að taka
að nýju upp þráðinn, þar sem hann slitnaði, þegar prófessorinn í
stjórnlagafræði hætti að vera þingmaður.

Um leið og ítreka þakkir fyrir boðið til hátíðar ykkar, góðir laganemar, vil ég hvetja ykkur sem flest til að hugleiða, hvort ekki sé þess virði að láta að sér kveða á stjórnmálavettvangi, að minnsta kosti hluta starfsævinnar. Sagan sýnir, að lögfræðingar eiga þangað brýnt erindi.