8.2.2001

Evrópskt tungumálaárTungumál opna dyr
Setningarathöfn evrópsks tungumálaárs
Þjóðmenningarhús,
8. febrúar 2001.Tungumál opna dyr - er kjörorð evrópska tungumálaársins, sem við setjum nú með formlegum hætti hér á Íslandi.

Tungumálið greiðir veg til annarra og forðar frá einangrun, en Evrópuráðið og Evrópusambandið eru frumkvöðlar að því, að ný öld hefst með því að leggja áherslu á tungumálið og gildi þess. Tvær ástæður búa þar að baki: Í fyrsta lagi að stuðla að því að menn læri og kenni tungumál og í öðru lagi að minna Evrópubúa á fjölda tungumálanna í álfu þeirra.

Öll þekkjum við af eigin reynslu gildi þess, sem í kjörorði evrópska tungumálaársins felst. Án þeirrar kunnáttu, sem ég aflaði mér í grunnskóla og framhaldsskóla í erlendum tungumálum hefðu margar dyr verið mér lokaðar. Ég hefði hvorki getað lagt stund á blaðamennsku með alþjóðamál sem sérstakt viðfangsefni né látið að mér kveða í margskonar alþjóðlegu samstarfi, fyrir utan að fara á mis við menningu annarra þjóða, og án þess að hafa sæmileg tök á móðurmálinu, hefði ekkert þeirra starfa, sem ég hef stundað, staðið mér opið.

Alls skipa 45 Evrópuríki sér undir kjörorðið, Tungumál opna dyr, á árinu og í þeim eru töluð meira en 150 tungumál, þó eru aðeins sex þeirra, enska, spánska, portúgalska, rússneska, franska og þýska, sem hafa sérstakt aðdráttarafl vegna þess, hve margir kunna þau og tala. Önnur mál í þessum flokki eru kínverska, arabíska, hindi, bengalska og japanska. Meiri en helmingur jarðarbúa talar þessi ellefu tungumál, þótt þau séu aðeins 0,1 til 0,15% af lifandi tungum jarðarbúa.

Íslensk tunga geymir vitneskju um hluta heimsmenningarinnar, um leið og hún er helsta samskiptatæki okkar Íslendinga. Hún hefur ekki almennt aðdráttarafl fyrir aðra, en kunnátta í henni opnar mönnum dyr að íslensku þjóðlífi, sögu og bókmenntaarfi. Almennt kunnum við Íslendingar vel að meta, þegar annarra þjóða menn leggja sig fram um að tala og skrifa á móðurmáli okkar. Þeir snerta viðkvæman streng í brjósti okkar allra og með sama hætti getum við komist að hjartarótum annarra þjóða með því að læra tungumál þeirra.

Á tímum þegar þjóðernislegar öfgastefnur vekja ótta, er mikils virði frá pólitískum sjónarhóli að eyða tortryggni milli manna og þjóða með aukinni tungumálakunnáttu. Efnahagslegt og viðskiptalegt gildi þess að kunna fleiri en eitt tungumál, blasir við öllum. Þá er ljóst, að það eitt að læra erlent tungumál til nokkurrar hlítar opnar áður óþekktar víddir, eflir skilning á öðrum þjóðum, er menntandi í sjálfu sér og eflir vitund um gildi móðurmálsins.

Ég vil þakka öllum, sem hafa komið að því að undirbúa þátttöku Íslands í tungumálaárinu. Fyrir tæpu ári skipaði ég íslenska landsnefnd um árið til að leggja á ráðin um innlenda dagskrá og þátttöku í evrópskum samstarfsverkefnum. Síðan kom sérstök verkefnisstjórn til sögunnar og Jórunn Tómasdóttir verkefnisstjóri.

Er þess vænst, að margir samstarfsaðilar nýti sér árið til fjölbreyttra aðgerða eins og til að vekja athygli á mikilvægi tungumálanáms, nýjum og árangursríkum aðferðum í slíku námi og kostum nýrrar tækni auk þess sem efnt verði til umræðna um stefnu og strauma á þessu sviði.

Í íslenskum skólum hefur um langan aldur verið lögð mikil áhersla á tungumálakennslu. Sérstaðan er meðal annars sú, hve mörg tungumál eru kennd. Í framhaldsskólunum er unnt að leggja stund á átta erlend tungumál, þar er enskan vinsælust, síðan danskan, þá þýska, franska í fjórða sæti og spænska í fimmta. Rúmlega fjórðungur framhaldsskólanema eða 5672 lærðu tvö erlend tungumál haustið 1999 og 3319 lögðu stund á nám í þremur tungumálum. Í Háskóla Íslands er unnt að leggja stund á 12 erlend tungumál samkvæmt kennsluskrá hans.

Ný námskrá fyrir grunnskóla gerði ensku að fyrsta erlenda tungumáli nemenda og var ákveðið að hefja kennslu hennar í 5. bekk, þegar nemendur eru 10 ára, en áður hófst kennsla í dönsku sem fyrsta erlenda tungumálinu í 6. bekk. Rök hníga að því, að færa eigi kennslu í erlendum tungumálum til enn yngri nemenda. Þeim mun auðveldara virðist vera að læra tungumál eftir því sem námið hefst fyrr.

Nýja námskráin gerir kleift að kenna þriðja erlenda tungumálið í grunnskóla sem valgrein í tvö ár og virðist þýskan vinsælust. Í nýju námskránni er einnig komið til móts við þá, sem hafa íslensku sem annað mál, og heyrnarlausa, auk þess sem nýjum aðferðum er beitt til að bregðast við lesblindu.

Evrópskt tungumálaár á að hvetja okkur til að tryggja íslenskuna í sessi með því að vanda málfar, smíða nýyrði og skapa henni rými í heimi upplýsingatækninnar. Nýlega tók verkefnisstjórn um tungutækni til starfa á vegum menntamálaráðuneytisins, og hefur hún sett níu verkefni í fyrirrúm, en rúmar 100 milljónir króna eru til ráðstöfunar vegna þeirra á þessu ári. Tel ég, að íslenskan geti rutt brautina fyrir aðrar tungur í upplýsingatækniheiminum, ef vel tekst að vinna úr þessum verkefnum, sem felast meðal annars í rannsóknum, þróun þekkingargrunna og nánu samstarfi við einkaaðila innan lands og utan. Mikill áhugi og þekking á upplýsingatækni og háþróað, sérstætt tungumál, veitir okkur Íslendingum einstakt tækifæri á þessu sviði, sem ber að nýta.

Íslenskt samfélag er að fá fjölmenningarlegt yfirbragð og leita verður allra leiða til að auðvelda erlendu fólki að tileinka sér íslensku. Margir vinna að góðum verkefnum á þessu sviði, sem óhikað ber að halda á loft. Orðabók háskólans hefur til dæmis kannað fyrir menntamálaráðuneytið, hvort unnt sé að nýta sænskt efni, svonefndar LEXIN-orðabækur, sem grunn að íslenskum orðabókum handa nýbúum. Hefur ráðuneytið nú ákveðið að ganga til samstarfs við Orðabók háskólans um að vinna fyrir árslok 2002 íslensk-enska orðabók fyrir nýbúa, sem verði einnig tiltæk á netinu. Reynslan verði síðan nýtt við smíði annarra orðabóka með þessu sniði.

Góðir áheyrendur!

Víða er tekið til hendi í þágu tungumálanna og þessa krafta eigum við að virkja til nýrra átaka á þessu ári. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra, sem hafa undirbúið starfið hér á landi og til allra, sem koma fram hér í dag. Sérstakar þakkir færi ég Vigdísi Finnbogadóttur en hún hefur verið óþreytandi málsvari íslenskrar tungu og gegnir nú mikilvægu hlutverki á alþjóðavettvangi til verndar tungumálum undir merkjum UNESCO.

Evrópskt tungumálaár er formlega hafið á Íslandi.