10.5.2012

Lokaafhending styrkja úr rannsóknarsjóði Bjarna Benediktssonar 

Við komum hér saman í dag í fimmta sinn til að afhenda rannsóknarstyrki sem til var stofnað 30. apríl 2008 í tilefni af 100 ára afmæli Bjarna Benediktssonar.

Rannsóknarsjóðnum var sett skipulagsskrá í febrúar 2008. Frá upphafi var gert ráð fyrir að starfsemi hans yrði tímabundin en að minnsta kosti í fimm ár. Stjórn sjóðsins ákvað á síðasta ári að halda sig við fimm ára markið og er þetta því síðasta úthlutun úr sjóðnum.

Tilgangur sjóðsins hefur verið að styrkja og stuðla að rannsóknum á sviði stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar í lögfræði og stjórnmálasögu 20. aldar í sagnfræði.

Frá upphafi hafa hinir sömu komið að ákvörðun um styrki.

Anna Agnarsdóttir prófessor hefur stjórnað úthlutun styrkja í sagnfræði en með henni hafa þau Matthías Johannessen skáld og Sólrún Jensdóttir sagnfræðingur starfað.

Páll Hreinsson sem nú er dómari í EFTA-dómstólnum hefur gegnt formennsku í úthlutunarnefnd styrkja í lögfræði. Í fjarveru hans hefur Björg Thorarensen prófessor leitt nefndina en þar hafa komið að ákvörðunum Ranghildur Helgadóttir prófessor og Björn Bjarnason.

Frá upphafi var ákveðið að leita samstarfs við Rannís um umsjón með úthlutun styrkjanna og kynningu á þeim. Hefur sú ákvörðun reynst heilladrjúg og auðveldað úthlutunarnefndum starf þeirra auk þess að tryggja góða umsýslu.

Um leið og ég þakka úthlutunarnefndum störf þeirra og gott samstarf við sjóðsstjórnina vil ég færa Magnúsi Lyngdal Magnússyni, aðstoðarforstjóra Rannís, þakkir fyrir einstaklega gott samstarf undanfarin fimm ár.

Í stjórn sjóðsins hafa setið frá upphafi Hörður Einarsson, Ingimundur Sigfússon, Kjartan Gunnarsson og Hrafn Þórisson auk mín. Það hefur komið í okkar hlut að afla fjármagns til sjóðsins svo að hann hefði bolmagn til að rækja hlutverk sitt.

Með styrkjunum hér í dag hefur alls verið veittur 21 styrkur úr sjóðnum, styrkþegar eru fleiri því að í sumum tilvikum stendur fleiri en einn að baki umsókn. Mér telst til að í heild renni 13.250.000 krónur úr sjóðnum til rannsókna.

Vil ég þakka öllum sem stutt hafa sjóðinn og gert honum kleift að vinna svo vel að markmiðum sínum. Fjöldi manna lét fé af hendi rakna til sjóðsins vorið 2008 og síðan hafa margir lagt okkur mikið lið. Án þess ómetanlega stuðnings hefði ekki náðst sá góði árangur sem hér er kynntur.

Ég vil þakka stjórnarmönnum í sjóðnum fyrir gott samstarf. Það kemur nú í okkar hlut í samvinnu við Ólaf Nilsson endurskoðanda sjóðsins frá upphafi að loka sjóðnum og ganga frá reikningum hans í síðasta sinn.

Í tilefni afmælisins 2008 var skjalasafn Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafni til varðveislu. Þar hefur það verið flokkað og skráð af mikilli alúð og enn er unnið að því að setja það inn á vefsíðu safnsins svo að það verði öllum aðgengilegt. Vil ég þakka Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði og samstarfsfólki hennar góða samvinnu á undanförnum árum.

Góðir gestir!

Nú verður gengið til dagskrár. Fyrst verða styrkir afhentir og síðan munu tveir styrkþegar frá síðasta ári Ólafur Rastrick sagnfræðingur og Björg Thorarensen prófessor skýra frá rannsóknum sínum. Í lokin gerir Magnús Lyngdal Magnússon síðan grein fyrir uppgjöri sínu á starfi sjóðsins.