28.11.2000

Skólahald vegna verkfalls
Svör Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra, við fyrirspurn
frá Steingrími J. Sigfússyni í utandagskrárumræðum á alþingi,
þriðjudaginn 28. nóvember 2000 kl. 13:301. Væri ennþá unnt að bjarga haustönn framhaldsskólanna ef kjaradeilan leysist á allra næstu dögum?

Í dag hefur verkfallið staðið í réttar þrjár vikur. Við eðlilegar aðstæður myndu próf hefjast um mánaðamótin en haustönninni lýkur fyrir jól. Ef verkfall framhaldsskólakennara leysist í þessari viku og kennsla gæti hafist í byrjun næstu viku ætti að vera unnt að ljúka önninni og undirbúa brautskráningu nemenda enda eru þá þrjár vikur til loka annar. Gera þyrfti sérstakar ráðstafanir í skólum til þess að þetta gæti gengið eftir og yrði á valdi hvers skólameistara að ákveða það í einstökum skólum.


2. Hver eru viðbrögð menntamálaráðherra við upplýsingum um að framhaldsskólakennarar séu í unnvörpum að hverfa til annarra starfa?

Fullyrðingin um að framhaldsskólakennarar séu unnvörpum að hverfa til annarra starfa er órökstudd að mínu áliti. Væri þetta að gerast mætti ekki síður túlka það sem vantraust kennara í garð þeirra sem fara með umboð þeirra í kjaradeilunni en viðsemjandans. Að sjálfsögðu á það að vera kappsmál ríkisins sem viðmælanda að fá hið hæfasta fólk til að starfa hjá sér.


3. Er unnið að áætlunum um það í menntamálaráðuneytinu hvernig brugðist verði við því ef deilan dregst enn á langinn og þetta skólaár fer í súginn?

Menntamálaráðuneytið hefur lagt á ráðin um það með ýmsum hætti, eins og aðrir sem bera hag framhaldsskólans og nemenda fyrir brjósti, hvaða úrræði eru til taks til þess að námsframvinda nemenda raskist sem minnst, leysist þessi deila ekki í bráð. Úrræðin ráðast að sjálfsögðu af lengd verkfallsins.

Menntamálaráðherra mælir til dæmis fyrir um tilhögun námsmats í aðalnámskrá, sbr. 21. gr. framhaldsskólalaganna og hlýtur að verða litið til þess þáttar meðal annarra. Úrræði í einstökum skólum ráðast af ákvörðunum þar, þannig hefur skólameistari Menntaskólans á Akureyri lýst yfir því hvernig hann telur að unnt sé að ljúka skólanum, leitað verði allra leiða til að nemendur fái lokið námi sínu við skólann með fullgildum hætti næsta vor. Dragist vinnudeilan enn á langinn ráðgerir skólameistari að fella niður regluleg haustannarpróf í janúar og kenna til vors og prófa þá bæði í haustannar- og vorannaráföngum á reglulegum prófatíma skólans í maí og júní.

Þá hefur verið veitt aukið svigrúm vegna sveinsprófa og vegna yfirlýsingar frá Iðnnemasambandi Íslands í Morgunblaðinu 25. nóvember sl. um mat á vinnu iðnnema sem eru á námssamningi í verkfalli vil ég taka fram að samkvæmt framhaldsskólalögum skiptist allt starfsnám á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla. Nemendur í starfsnámi stunda þannig nám sitt ýmist í iðnmenntaskóla eða í fyrirtæki. Í verkfalli verður sú breyting á að þeir nemendur sem ættu að vera í skóla eru farnir til starfa í fyrirtækjum þar sem þeir uppfylla skilyrði námskrár um starfsþjálfun. Það er skoðun menntamálaráðuneytisins að þessi vinna nema sé hluti af námi þeirra og eigi því að vera metin að fullu þannig að heildarlengd námsins breytist ekki vegna verkfallsins.


4. Sér menntamálaráðherra einhverjar leiðir til að liðka fyrir lausn deilunnar af sinni hálfu?

Þótt kallað sé til menntamálaráðherra og hann beðinn um að liðka fyrir lausn deilunnar, er borin von að orðið verði við slíkum óskum á meðan þær taka ekki mið af efnahagslegum staðreyndum og hinni almennu stefnu sem öll ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á alþingi hafa mótað. Enginn menntamálaráðherra getur setið í ríkisstjórn og snúist gegn grundvallarstefnu hennar í efnahagsmálum. Allan viðræðutímann hefur menntamálaráðuneytið hreyft tillögum um starf og skipulag í skólum sem að þess mati er til þess fallið að greiða fyrir lausn deilunnar.