23.11.2000

Ungt fólk í EvrópuUngt fólk í Evrópu,
kynningafundur í Hinu Húsinu,
23. nóvember 2000Mér er mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar samkomu, en hún er haldin til þess að kynna nýja æskulýðsáætlun Evrópusambandsins, sem nú hefur hafið göngu sína. Áætlunin ber heitið “Youth”, en á íslensku nefnist hún Ungt fólk í Evrópu, skammstafað UFE. Innan nýju áætlunarinnar renna saman tvær æskulýðsáætlanir, sem starfræktar hafa verið á vegum Evrópusambandsins undanfarin ár, ungmennaskiptaáætlunin “Youth for Europe” og sjálfboðaliðaáætlunin “European Voluntary Service”.
Íslendingar hafa tekið þátt í æskulýðssamstarfi Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994. Fyrstu árin var aðeins um að ræða ungmennaskipti, en sjálfboðaliðaáætlunin hefur verið starfrækt frá 1997.

Samstarfsáætlanirnar hafa veitt ungu fólki tækifæri til þátttöku í fjölbreyttum verkefnum, en slík þátttaka getur verið ómetanlegt veganesti inn í framtíðina. Oft vill gleymast að fleira hefur menntunarlegt gildi en sú formlega menntun sem fer fram innan skólakerfisins. Reynslan sem ungt fólk öðlast með þátttöku í samstarfsverkefnum getur haft mótandi áhrif á lífssýn þess og ákvarðanir í framtíðinni. Það er gjöful reynsla ungu fólki að kynnast öðrum menningarheimum og mynda vináttutengsl við fólk sem hefur annað sjónarhorn á lífið og tilveruna. Slík reynsla víkkar sjóndeildarhringinn, eykur umburðarlyndi og þroskar sjálfstæði einstaklingsins. Verkefni sem þroska anda framtaksseminnar og vinna m.a. gegn félagslegri útskúfun og fordómum gefa ungu fólki kost á að reyna hvernig það er að vera virkur samfélagsþegn.

Í Evrópu búa 60 milljónir ungmenna á aldrinum 15-25 ára. Síðastliðin tíu ár hefur hálf milljón þeirra haldið til dvalar í öðru landi með styrk í samræmi við æskulýðsáætlun Evrópusambandsins, 2.300 ungmenni hafa tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi í öðru landi og veittur hefur verið stuðningur til 1.500 annarra verkefna í þágu ungmenna.

Á því tímabili sem Íslendingar hafa verið aðilar að þessum æskulýðsáætlunum hefur fjöldi íslenskra ungmenna tekið þátt í evrópskum verkefnum styrktum af Evrópusambandinu. Rúmlega 2.000 íslensk ungmenni hafa farið utan til þátttöku í hópverkefnum á sviði ungmennaskipta og álíka fjöldi erlendra ungmenna hefur sótt Ísland heim í sama skyni. Æskulýðsleiðbeinendur hafa leitt þessi hópverkefni og var fjöldi íslenskra leiðbeinenda um 280 en erlendir leiðbeinendur 245. Íslendingar á aldrinum 18-25 ára sem hafa tekið þátt í sjálfboðaþjónustu á vegum Evrópusambandsins eru hátt á 5. tug og svipaður fjöldi erlendra sjálfboðaliða hefur komið hingað til lands.

Nokkur alþjóðleg mót hafa verið haldin hér á landi fyrir ungt fólk og æskulýðsleiðbeinendur. Auk þess hefur fjöldi erlendra ungmenna komið hingað til lands í stuttar námsferðir og íslensk ungmenni farið utan í slíkar ferðir. Þá voru farnar nokkrar kynnisferðir með fulltrúa frá æskulýðssamtökum og sveitarfélögum til annarra Evrópulanda.

Sem dæmi um ungmennaskiptaverkefni má nefna baráttu gegn kynþáttahatri, baráttu gegn fíkniefnum, umhverfismál, upplýsingatækni og lista- og menningarverkefni. Dæmi um verkefni í sjálfboðaþjónustu eru vinna með börnum og unglingum, aðstoð við fatlaða og vinna gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri. Íslensk ungmenni hafa haft mest samstarf við Bretland, Danmörku, Frakkland, Svíþjóð og Þýskaland, en einnig hefur náðst góður árangur af samstarfi við Spán, Lúxemborg, Írland og Belgíu. Nokkur áraskipti eru á því hvaða land er vinsælast. Íslendingar mega vel við una þegar litið er yfir farinn veg varðandi virka þátttöku í æskulýðsáætlunum Evrópusambandsins á síðast liðnum sex árum.

Nýja æskulýðsáætlunin felur í sér svipað tækifæri og forverar hennar. Hún var samþykkt af Evrópusambandinu í febrúar á þessu ári og spannar tímabilið 2000 til 2006. Markmið áætlunarinnar eru þau sömu og áður þ.e. að efla samstöðu ungmenna í Evrópu, virk þátttaka í þjóðfélagsþróun og hvatning til frumkvæðis og framtakssemi.

Styrkir eru veittir til verkefna sem unnin eru af ungmennum á aldrinum 15-25 ára. Ísland fær rúmar 30 milljónir á ári frá Evrópusambandinu til úthlutunar í styrki og skiptist sú upphæð á milli fimm flokka áætlunarinnar, sem eru ungmennaskipti; sjálfboðaþjónusta; frumkvæðisverkefni ungs fólks, efling samvinnu starfsfólks í æskulýðsstarfi og samstarf stofnana á sviði æskulýðsmála. Einnig er veittur stuðningur til samvinnu um miðlun upplýsinga um ungt fólk í þátttökulöndunum og hagi þess. Ungmennaskiptin eru sem áður viðamesti hluti samstarfsins, en sjálfboðaþjónustan er að eflast, sem og aðrir þættir.

Ungmennasamstarf Evrópusambandsins hófst árið 1988 og var þá bundið við aðildarlönd þess en síðan hafa sífellt fleiri lönd orðið aðilar að samstarfsáætlununum. Nýja áætlunin nær til 31 lands. Það eru fimmtán aðildarlönd Evrópusambandsins, þrjú EFTA lönd, sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, Ísland, Liechtenstein og Noregur og 13 lönd í Mið- og Austur-Evrópu, sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Í öllum þessum löndum eru reknar landsskrifstofur sem hafa það hlutverk að vinna að framgangi áætlunarinnar og kynna hana innanlands. Einnig hafa landsskrifstofurnar samstarf sín í milli.

Menntamálaráðuneytið hefur gert samning við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur um að reka landsskrifstofu hér á landi og er hún hér í Hinu Húsinu. Ráðuneytið leggur áherslu á að þátttakendur í áætluninni komi allstaðar að af landinu og beinist kynningarstarfsemi landsskrifstofunnar að því að svo megi verða. Einnig er lögð áhersla á góð tengsl við alla sem vinna með ungu fólki í hverskonar félags- og tómstundastarfi og leitast við að virkja þá sem best til þátttöku í Evrópuverkefnum.

Ráðuneytið hefur einnig skipað fimm manna landsnefnd sem ætlað er að stuðla að árangursríkri framkvæmd áætlunarinnar, meðal annars með því að vinna að almennri stefnumótun í samræmi við ákvæði í samningi milli Evrópusambandsins og ráðuneytisins. Landsnefndinni er m.a. ætlað að forgangsraða verkefnum, hafa umsjón með mati á umsóknum, og úthluta þeim fjármunum sem Ísland fær til áætlunarinnar.

Augljóst er að þátttakan í æskulýðsáætlunum Evrópusambandsins hefur verið lyftistöng fyrir æskulýðsstarf á Íslandi. Með þátttöku í evrópskum verkefnum hafa íslensk ungmenni aflað sér ómetanlegrar reynslu og þekkingar. Leiðbeinendur í æskulýðsstarfi sem hafa verið þátttakendur í Evrópuverkefnum hafa kynnst æskulýðsstarfi annarra Evrópulanda og þannig aukið við þekkingu sína og fagvitund og um leið fengið tækifæri til að koma sínum áherslum á framfæri. Síðast en ekki síst þá hafa æskulýðsáætlanir Evrópusambandsins stuðlað að jöfnum tækifærum allra ungmenna til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi því að rík áhersla hefur verið lögð á að ungmenni sem eiga undir högg að sækja vegna fötlunar eða annarra erfiðleika séu hvött til þátttöku í verkefnum á vegum áætlunarinnar.

Íslensk ungmenni og æskulýðssamtök munu án efa nýta sér möguleika hinnar nýju æskulýðsáætlunar því að þátttaka í evrópskum verkefnum veitir ómetanleg tækifæri til aukins þroska og skilnings á ólíkum menningarheimum.