24.11.2000

Mat á skólastarfi

Mat á skólastarfi
málþing,
Uppeldis- og menntunarfræðiskor,
Háskóla Íslands,
24. nóvember, 2000.


Umræður um skólastarf á Íslandi snúast því miður enn einu sinni einkum um
það, hvernig á að takast að leysa harða kjaradeilu og ljúka verkfalli
framhaldsskólakennara. Í kjaraviðræðum kennara er meðal annars fjallað um þætti, sem snerta mat á skólastarfi, því að tóm til að sinna mati ræðst meðal annars af því,
hvernig staðið er að skipulagi á vinnutíma kennara og þeir geti innan ramma
kjarasamninga orðið virkir þátttakendur í matsstörfunum.

Sjálfsmat og ytra mat eru mikilvægir þættir í öllu umbótastarfi í skólum.
Mat á skólastarfi gagnast bæði skólum við markvissa vinnu og leiðir til
árangursríks skólastarfs. Matið kemur fræðsluyfirvöldum einnig að miklu
gagni við mótun menntastefnu en í úttektum á skólastarfi og
sjálfsmatsaðferðum skóla, safnast mikilvægar upplýsingar sem varpa ljósi á
hvernig skólar raunverulega vinna.

Á Íslandi er lítil sem engin hefð fyrir markvissu, kerfisbundnu eftirliti
með starfi skóla ef litið er fram hjá samræmdu prófunum í grunnskólum.
Íslenskt skólafólk hefur ekki vanist því að fræðsluyfirvöld krefjist
upplýsinga um hvernig skólar tryggja að starf þeirra uppfylli ákveðnar
gæðakröfur og sé í samræmi við markmið aðalnámskrár.

Með grunn- og framhaldsskólalögunum frá 1995 og 1996 urðu þáttaskil, því að
nú ber öllum skólum að sinna sjálfsmati. Í þessu felst að vinna
kerfisbundið að gæðum og umbótum í skólastarfi. Í nýju aðalnámskráunum
fyrir þessi skólastig er að finna meginreglur um mat á skólastarfi, bæði
sjálfsmat og mat annarra en í skólunum starfa. Hefur menntamálaráðuneytið
unnið að því í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og
Kennaraháskóla Íslands að fræða kennara um gildi og inntak sjálfsmats auk
þess sem ráðuneytið hefur gefið út sérstakan bækling um sjálfsmatið.

Þegar ákveðið var að setja ákvæði um innra og ytra mat í skólum þótti
eðlilegt að hefja slíkt gæðaeftirlit hér á Íslandi með mildari hætti en
tíðkast hefur, t.d. í Bretlandi, en þar hefur verið byggt upp viðamikið
kerfi eftirlitsmanna, sem fara á milli skóla og meta starfið innan þeirra.
Hér var ákveðin sú leið að skólar skyldu sjálfir fá að velja hvaða aðferðir
þeir notuðu við að meta eigið starf. Þannig hafa skólar frelsi til að velja
hvort þeir taka upp eina tiltekna sjálfsmatsaðferð eða hvort þeir taka
hluta úr fleiri aðferðum, allt eftir því hvað hentar á hverjum stað. Þessu
frelsi fylgir að sjálfsögðu ábyrgð en ástæða er til að ætla, að íslenskir
skólar hafi þann faglega metnað sem til þarf til að byggja upp og innleiða
þá sjálfsmatsaðferð sem er við hæfi fyrir hvern og einn.

Sjálfsmat í skólum er að sjálfsögðu órjúfanlega tengt markmiðum
aðalnámskrár í gegnum skólanámskrá, en hún er grundvöllur þess að
starfsfólk skóla leggi mat á starf sitt og átti sig á hvaða markmiðum hefur
verið náð og hverjum ekki. Gerð skólanámskrár á að vera samstarfsverkefni
starfsfólks skóla og taka til allra þátta skólastarfsins. Hún á einnig að
stuðla að betra skipulagi og umbótum í skólastarfi. Þannig á skólanámskráin
að endurspegla markmið og vera öflugt þróunartæki hvers skóla. Að loknu
sjálfsmati á einstökum þáttum skólastarfs þarf t.d. að gera tillögur um
umbætur og áætlun um hvernig skuli innleiða þær. Slík umbóta- og
þróunaráætlun er mikilvægur þáttur í hverri skólanámskrá.

Sjálfsmat er viðamikið og tímafrekt ferli og að mörgu að hyggja. Það sýnir
til dæmis reynsla Norðmanna sem hafa sl. tvo áratugi verið að vinna að því
að allir skólar þar í landi taki upp sjálfsmat. Á sl. ári settu Finnar í
skólalöggjöf sína að allir grunn -og framhaldsskólar skyldu hefja mat á
starfi sínu. Sömu sögu er að segja frá Danmörku og Svíþjóð. Það getur því
orðið spennandi viðfangsefni eftir nokkur ár að bera saman hvað hefur gerst
í norrænum skólum á sviði sjálfsmats og skoða hvort sömu vandamál hafa
komið í löndunum og hvernig tekist hafi verið á við þau.

Vaxandi áhersla á mat á skólastarfi á undanförnum árum kemur inn í
menntakerfið fyrir áhrif frá atvinnulífi og með aukinni áherslu á
gæðastjórnun í fyrirtækjum. Jafnframt kemur þrýstingur frá yfirvöldum og
almenningi um árangursríkara og hagkvæmara skólastarf sem skili
einstaklingum með góða almenna menntun sem uppfyllir kröfur atvinnulífs og
samfélags.

Almennt er þróunin sú, að viðhorf skóla til úttekta á gæðum skólastarfs
hefur breyst. Er ljóst, að vaxandi áhugi er á því í skólum að gangast
undir sjálfsmat, því að þetta erfiða og tímafreka starf skilar sér fljótt í
betra skipulagi og betra skólastarfi. Tortryggni í garð þess að skýra frá
innviðum skólastarfsins hefur vikið fyrir áhuga á að sýna sem bestan
árangur eða vilja til þess að gera betur, ef þess er talin þörf. Er enginn
vafi á því, að þetta nýja viðhorf er nemendum og öllu skólasamfélaginu til
heilla.

Ég lýsi þeirri von, að þetta málþing, sem nú er að hefjast, verði enn til
þess að árétta mikilvægi mats á skólastarfi fyrir alla, sem að því koma.