18.11.2000

Málstefna í MA um íslenska tunguMálstefna um íslenska tungu,
Menntaskólanum á Akureyri,
18. nóvember, 2000.


Undir lok aldar og í tilefni af 120 ára afmæli Menntskólans á Akureyri er vel við hæfi að koma saman hér í dag og ræða stöðu íslenskrar tungu. Menntaskólinn rekur rætur sínar til hins gamla Hólaskóla en undir merkjum biskupanna þar var unnið ómetanlegt starf í þágu íslenskrar tungu og vísa ég þá ekki síst til þess, að þar var vagga íslenskrar prentlistar, eftir að Jón Arason biskup setti þar niður fyrstu prentvélina á Íslandi árið 1530.

Jón Arason varð sjálfur fórnarlamb þessarar nýju tækni, því að hún auðveldaði Marteini Lútheri baráttu hans við páfadóm. Prentlistin festi á hinn bóginn íslenska tungu í sessi og skipti þar þýðing Biblíunnar sköpum en frægasta útgáfa hennar, Guðbrandsbiblía, kemur einmitt frá Hólum.

Innan veggja Menntaskólans á Akureyri hefur verið lögð mikil rækt við íslenska tungu og er Gísli Jónsson menntaskólakennari verðugur fulltrúi þeirra starfsmanna skólans, sem hafa staðið dyggan vörð um tunguna og halda merki hennar hátt á loft. Er Gísli enn óþreytandi baráttumaður í þágu móðurmálsins, og einn þeirra, sem hafa hlotið verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu í þakklætis- og virðingarskyni.

Innan Menntaskólans á Akureyri hefur hiklaust verið lögð rækt við að kenna ungu fólki að vera vandlátt á íslenskt mál, að kunna að gera mun á góðu og slæmu máli. Afstaða ungs fólks til gildis þess að vanda mál sitt er mismunandi og ræðst jafnvel frekar af tíðarandanum en kunnáttu eða viljanum til að þjálfa sig í meðferð tungunnar, ritmáli og talmáli. Mikils virði er, að innan skólanna gleymist ekki, að það er markmið í sjálfu sér að tala gott íslenskt mál - sé það viðhorf ríkjandi erum við á réttri braut við lok aldar.

Utan skólanna verður daglegt umhverfi unga fólksins sífellt meira mótað af hnattrænum menningarlegum áhrifum enskunnar. Sést þetta best, þegar hugað er að því, hve lítil rækt er lögð við að íslenska heiti kvikmynda og myndbanda. Meira að segja hið vandláta Morgunblað, sem krefst íslensku í auglýsingum sínum, víkur frá þeirri kröfu gagnvart kvikmyndum og myndböndum.

Á fimmtudaginn hlaut Magnús Þór Jónsson, Megas, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Hann hefur ekki látið stjórnast af tískustraumum við smíði tónlistar eða texta heldur haldið sínu striki og nýtt kosti og þanþol íslenskunnar með einstökum og persónulegum hætti. Þegar litið er til íslenskukennslu og listiðju ungs fólks eru hæg heimatökin að benda á texta Megasar til marks um nútímaleg tök á tungunni við kveðskap og textagerð. Það þarf ekki að vera á kostnað tungutaksins að semja frumlegt og beinskeytt ljóð við lag.

Ljóðalestur og framsögn ungs fólks er í sókn og má til marks um það nefna keppni framhaldsskólanema í mælskulist og stóru upplestrarkeppnina, sem nær nú til 120 grunnskóla alls staðar á landinu utan Austurlands. Þeir, sem hafa fylgst með upplestrarkeppninni, og hve vel þar er farið með góða texta, hljóta margir að sakna þess að hafa ekki fengið slíka þjálfun sjálfir þegar þeir voru í grunnskóla. Með keppninni er orðin til ný mælistika meðal ungs fólks í meðferð tungunnar.

Hið sama á við um vald á móðurmálinu og um allt annað, að enginn þjálfast í notkun þess nema með því að tala, lesa og skrifa. Sífellt er krafist meiri kunnáttu í öllum þessum greinum til að njóta sín sem best í nútímasamfélagi. Áhrif og álit ræðst af því, hvernig við komum fram og flytjum mál okkar á hvaða vettvangi sem er. Það er lykill að velgengni í þekkingarþjóðfélaginu að rækta með sér góð tök á móðurmálinu og öðrum tungumálum.

Samtímis sem hlúð er að þessum þáttum málræktar er nauðsynlegt að skapa íslenskri tungu verðugan sess í heimi nýrrar tækni, upplýsingatækninnar, arftaka prentlistarinnar. Hefur verið unnið að því verkefni undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins undanfarin ár og nú beinist athygli okkar einkum að því, sem nefnt er tungutækni, það er tækni við meðferð málsins í tölvum og hugbúnaði.

Tæknin gerir mönnum nú kleift að tala við tölvur og gefa þeim skipanir á þann hátt eða tala texta inn á forrit í stað þess að slá hann inn. Tölvur geta einnig talað við fólk, til dæmis lesið fyrir blinda og sjónskerta. Tungutækni snýr einnig að sjálfvirkri leiðréttingu á málfræði og stafsetningu, loks falla staðlar fyrir letur einnig undir þessa tækni, til dæmis varðstaða um íslensku stafina þ og ð.

Um þetta allt má lesa í skýrslu, sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið og kom út á síðasta ári. Íslensk tunga stendur ekki vel gagnvart þessari tækni meðal annars vegna þess að hér skortir málvísindalegar rannsóknir og þá gagnagrunna, sem eru nauðsynlegir til að þróa tungutæknigripi fyrir íslensku.

Ég hef nú skipað verkefnisstjórn undir formennsku Ara Arnalds verkfræðings til að vinna að framkvæmd tillagna, sem eru að finna í fyrrnefndri skýrslu og miða að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Ætlunin er að leggja grunn að íslenskum tungutækniiðnaði til að auðvelda útgáfu á orðabókum og orðasöfnum, gerð hugbúnaðar til leiðréttingar á stafsetningu og málfari og ýmissa hjálparforrita við textasmíð, talgervla og hljóðgripi. Verður þetta gert með því að koma á fót sameiginlegum gagnasöfnum. Veittir verða styrkir til hagnýtra rannsókna á sviði tungutækni. Fyrirtæki verða styrkt til að þróa texta- og talmálsgrunna auk orðasafna og stuðlað verður að betri almennri menntun, sem sameinar málvísindi og tölvutækni.

Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001 hefur verkefnisstjórnin 104 milljónir króna til ráðstöfunar í þessu skyni. Það er þó líklega aðeins brot af þeim kostnaði, sem talinn er fylgja því að gæta hagsmuna íslenskunnar í tölvuheiminum, en með þessum fjármunum er unnt að stíga fyrstu skrefin og leggja grunn að frekari sókn, sem lýkur aldrei á meðan Íslendingum er metnaðarmál að nýta eigin tungu sem tæki til allra verka.

Við lok 20. aldar stendur íslensk tunga vel að vígi, hefur líklega aldrei verið sterkari í sögu sinni. Við megum þó alls ekki leggja árar í bát, heldur á að nýta hina sterku stöðu til enn öflugri sóknar á öllum sviðum. Megi þessi málstefna verða til þess að auðvelda okkur þá sókn á nýrri öld.