16.11.2000

Dagur íslenskrar tungu




Dagur íslenskrar tungu,
Þjóðmenningarhúsi,
16. nóvember, 2000.



Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðum undanfarna daga um þá ákvörðun útvarpsráðs að setja þátttakendum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva skilyrði um að textinn á laginu héðan skuli vera á íslensku. Spyrja má: Eru þetta afarkostir? Ég sé ekki rökin fyrir því, þótt ljóst sé, að menningarlega hnattvæðingin krefst þess í æ ríkara mæli, að á alþjóðavettvangi sé allt á ensku.

Þegar við komum saman í fimmta sinn til að halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan á fæðingardegi listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar, er áréttað, að unnt sé að ná góðum árangri á dægurtónlistarbrautinni með því að syngja á íslensku. Hitt er einnig staðfest, að unnt er að þýða íslenska texta á enska tungu með glæsilegum hætt, ef menn vilja, meira að segja ljóð Jónasar Hallgrímssonar.

Rétt svar Íslendinga við hnattvæðingunni felst ekki í því að gefast upp við að nota íslensku. Þvert á móti mælir margt með því, að við höldum móðurmáli okkar fram með mikilli festu í alþjóðlegu samhengi, ekki síst í heimi upplýsingatækninnar. Þá er verðugt að leggja meiri rækt en áður við íslenskukennslu fyrir útlendinga bæði hér heima fyrir og erlendis. Sjálfsmynd Íslendinga ræðst ekki síst af íslenskri tungu og við náum lengra en ella á tímum hnattvæðingar með því að skerpa sjálfsmynd okkar um leið og óhikað er tekist á við alþjóðleg verkefni og stofnað til alþjóðlegrar samvinnu á öllum sviðum.

Með hverju ári eflist átak í þágu tungunnar í tilefni þessa dags. Íslensk málnefnd efndi síðastliðinn laugardag til málræktarþings og þar var brugðið ljósi á íslenskuna sem annað mál með hliðsjón af vaxandi fjölda fólks hér á landi, sem á ekki íslensku sem móðurmál og nýtur sín ekki sem skyldi án þess að læra hana. Fyrr í dag var opnuð sýningin Frá huga til hugar í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem athygli er beint að sögu prents og bókaútgáfu á Íslandi með sérstakri áherslu á útgáfu Biblíunnar. Næstkomandi laugardag efnir Menntaskólinn á Akureyri til málstefnu um stöðu íslenskrar tungu í lok aldar. Fyrir utan þetta er dagsins minnst í skólum og fjölmiðlum og nefni ég þar sérstaklega stóru upplestrarkeppnina, en henni vex stöðugt fiskur um hrygg og nær nú til landsins alls nema Austurlands og taka 120 grunnskólar þátt í henni.

Vil ég þakka öllum, sem sýna íslenskri tungu áhuga í tengslum við þennan dag, eru þeir fleiri en ég fæ hér talið, en af samstarfsaðilum um að gera daginn sem best úr garði vil ég þó sem fyrr nefna Mjólkursamsöluna og Íslandsbanka-FBA, en bæði þessi öflugu fyrirtæki leggja okkur fjárhagslegt lið. Mjólkursamsalan er samstarfsaðili Íslenskrar málnefndar um málræktarþingið og veitti nú í fyrsta sinn fé til að styrkja rannsóknir í íslensku. Íslandsbanki-FBA hefur veitt fjármuni til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar, sem veitt verða hér við þessa athöfn. Vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að fagna nýjum, mikilvægum samstarfsaðila, Íslandspósti, sem hefur dreift póstkorti í tilefni dagsins inn á hvert heimili í landinu. Í kvöld efnir Íslenska óperan til hátíðarsýningar á Stúlkunni í vitanum, barnaóperu eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Böðvar Guðmundsson.

Jafnframt færi ég framkvæmdanefnd dagsins undir formennsku Þorgeirs Ólafssonar, ráðgjafanefnd og Ingibjörgu Frímannsdóttur framkvæmdastjóra þakkir fyrir góð störf og samstarfið við allan undirbúning.

Áhugi á því að stofna til umræðna og verkefna í tilefni dagsins er slíkur, að á fimm ára afmælinu tel ég hann ótvírætt hafa sannað ágæti sitt og muni halda áfram að eflast og dafna.

Við erum rækilega minnt á það hér í þessu ágæta húsi, hve miklu skáldin skipta okkur Íslendinga og hve mjög við leggjum áherslu á tungu okkar, þegar við skilgreinum stöðu þjóðarinnar. Skáldið og stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein átti frumkvæði að smíði hússins, eftir að hann varð ráðherra Íslands. Hornsteinn þess var lagður 23. september 1906 á ártíðardegi Snorra Sturlusonar og á hann er letrað: Mennt er máttur. Nöfn átta íslenskra bókmenntaskörunga eru skráð gullnu letri utan á húsið og hér í þessum sal er bókmenntanna minnst með góðum bókum og gripum.

Nafn Jónasar Hallgrímssonar er ekki meðal þeirra, sem skráð eru á veggi þessa húss, en á sínum tíma var um það rætt, að stytta af skáldinu eftir Einar Jónsson stæði hér fyrir framan húsið. Var gerð þeirrar styttu fyrsta listaverkið, sem Einari var trúað fyrir af öðrum. Hann var á hinn bóginn neyddur til að afhenda mynd, sem var mjög á annan veg en hann vildi og bannaði að hún yrði hér fyrir framan og stendur hún í Hljómskálagarðinum.

Segir Einar í endurminningum sínum, að hann hefði viljað nota eitthvað tákrænna í minningu Jónasar en líkama hans einan, klæddan jakka og buxum frá hans tímum og þeim þá fremur fátæklegum, ef satt hefði átt að segja, - þann líkama, sem Jónas sjálfur hafi verið svo hryggur yfir, eins og Einar orðaði það og bætti við, að slík mynd gæti aðeins orðið eins og múr á milli Jónasar og þeirra framtíðarkynslóða, sem ljóðum hans mundu unna. Minnisvarðanefndin hefði hins vegar gert þær kröfur, að fá Jónas eins og hann stóð og gekk síðustu ævidaga sína, hefði nefndinni ekki verið þokað og hann gerði myndina samkvæmt þessari fyrirsögn. Einar veitti sjálfum sér þá uppreisn síðar, að gera listaverk, sem hann nefndi "Í minningu skálds" mynd Jónasar, eins og hann sá skáldið og elskaði.

Má sjá þá höggmynd í Hnitbjörgum á Skólavörðuholti en ég hef hreyft því við forráðamenn þessa góða húss, að þeir setji afsteypu af henni á stall hér fyrir framan og ítreka tillöguna, þegar við höldum dag íslenskrar tungu í fyrsta sinn í Þjóðmenningarhúsinu.

Dagur íslenskrar tungu er ekki aðeins heiðursdagur Jónasar Hallgrímssonar heldur hefur samtímamaður jafnframt verið heiðraður fyrir framlag hans í þágu tungunnar og þau, sem hafa notið heiðursins til þessa eru: Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og kennari, Gísli Jónsson menntaskólakennari, Þórarinn Eldjárn skáld og Matthías Johannessen skáld og ritstjóri.

Að tillögu ráðgjafanefndar dags íslenskrar tungu, en í henni sitja Kristján Árnason, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Guðrún Nordal, hef ég ákveðið að Magnús Þór Jónsson, Megas, hljóti Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar að þessu sinni.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir:
Megas hefur með skáldskap sínum auðgað íslenskt mál. Ljóðmál hans er frumlegt og nýtt og sækir líf sitt í hversdagsleika borgarinnar, fegurð og ljótleika mannlífsins og skeikula ásýnd náttúrunnar. Ljóð hans hafa sérstæða rödd, kímna og kaldhæðna. Íslenska menningu og menningararf skoðar hann með gagnrýnum og hvössum hætti og veitir hlustendum og lesendum sínum nýja sýn á viðteknar hugmyndir. Megas hefur haft mikil áhrif á skáldskap, tónlist og ekki síst á gerð dægurlagatexta á síðustu áratugum og hvatt ungt fólk til að kanna möguleika móðurmálsins í stað þess að flýja á náðir enskunnar.

Mér er persónulega ljúft að fá tækifæri til að afhenda Megasi þessi verðlaun. Við höfum þekkst frá því að við gengum saman í Austurbæjarskólann fyrir allmörgum árum og hafa þau bönd, sem þá sköpuðust aldrei rofnað, þótt við höfum valið okkur ólíkar leiðir í lífinu.

Verðlaunin eru 500 þúsund krónur og heildarútgáfa á verkum Jónasar Hallgrímssonar sem Menningarsjóður Íslandsbanka- FBA leggur til.

Í reglum menntamálaráðuneytisins um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að heimilt sé að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við móðurmálið. Að tillögu ráðgjafanefndar dags íslenskrar tungu hef ég ákveðið að veita Stóru upplestrarkeppninni viðurkenningu fyrir framlag sitt.

Með upplestrarkeppninni hefur tekist að vekja athygli og áhuga kennara og nemenda á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin er samstarfsverkefni Heimilis og skóla, Íslenskrar málnefndar, Íslenska lestrarfélagsins, Kennaraháskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og Samtaka móðurmálskennara. Hún er haldin að frumkvæði áhugafólks um eflingu tungunnar í góðu samstarfi við skóla og skólaskrifstofur. Sú mikla þátttaka, áhugi og eldmóður sem einkennt hefur keppnina allt frá upphafi er lofsverður vitnisburður um starf þeirra sem að henni standa. Baldur Sigurðsson lektor við Kennaraháskóla Íslands hefur verið forystumaður Stóru upplestrarkeppninnar og er hann beðinn um að taka á móti viðurkenningunni og þiggja listaverk, sem henni fylgir, eftir Ólöfu Einarsdóttur.

Á degi íslenskrar tungu fyrir þremur árum opnaði ég viðamikla vefsíðu um Jónas Hallgrímsson, sem var gerð af Dr. Richard N. Ringler, prófessor við Wisconsin háskóla í Bandaríkjunum. Er hún að sjálfsögðu aðgengileg fyrir alla í netheimum. Dr. Ringler hefur ekki látið sitja við þessa síðu heldur vinnur nú að útgáfu bókar um sama efni og vefsíðan geymir, nema hvað í bókinni verður ævisaga skáldsins, mun fleiri þýðingar og ýtarlegri skýringar en á vefsíðunni.

Frumkvæði Dr. Ringlers veitir einstætt tækifæri til að kynna eitt af höfuðskáldum Íslendinga á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórn Íslands og menntamálaráðuneytið meta þetta brautryðjendastarf mikils og hafa ákveðið að veita 1 milljón króna til útgáfu bókarinnar og jafnframt hefur bankastjórn Íslandsbanka-FBA ákveðið að veita 500 þúsund krónur til verksins.

Með verkum sínum hefur Dr. Ringler lagt mikið af mörkum til kynningar á íslenskri menningu, sýnt frumkvæði og fordæmi, sem vonandi verður öðrum hvatning, sem glíma við þýðingar á verkum íslenskra höfunda. Það er gott til þess að vita að Ísland og íslensk menning á svo góða vini.

Að tillögu ráðgjafanefndar hef ég ákveðið að veita Dick Ringler sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu. Er hann beðinn um að koma og taka hér á móti viðurkenningarskjali og listaverki Ólafar Einarsdóttur.