10.11.2000

ÞekkingardagurÞekkingardagur,
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga,
10. nóvember, 2000.

Tim Berners-Lee fann upp veraldarvefinn fyrir tæpum tíu árum, þegar hann fékk það verkefni að búa til tölvuumhverfi fyrir upplýsingamiðlun innan CERN-vísindastofnunarinnar í Sviss. Hann vinnur nú við það í Boston að gera vefinn þannig úr garði, að ölvur geti vegið og metið efnið á honum til að auðvelda okkur að nýta sem best hið ótæmandi magn upplýsinga, sem þar er að finna. Þegar Berners-Lee var beðinn að lýsa þessu verkefni sínu nánar í blaðaviðtali sagði hann það líklega ekki hafa mikla þýðingu. Hann hefði ekki getað lýst veraldarvefnum með orðum fyrir neinum á sínum tíma, þótt notagildi hans væri nú auðskiljanlegt öllum, sem hefðu kynnst honum af eigin raun.

Þessi einfalda mynd af þekkingarstarfi, sem hefur markað þáttaskil í samskiptum á öllum sviðum hin síðari ár, kom mér í hug, þegar ég var beðinn að ávarpa ykkur við upphaf fyrsta íslenska þekkingardagsins. Hún minnir okkur á, að flest áttum við okkur ekki á gildi þekkingar fyrr en við nýtum hana eða afrakstur hennar í daglegum störfum. Raunar þurfum við ekki að botna neitt í afrakstri þekkingar til að njóta hans, en æ fleiri eru að öðlast skilning á því, að hvorki einstaklingar, fyrirtæki né þjóðir njóta sín í samtímanum án þess að nýta sér þekkingu. Þessi hugsun um gildi þekkingarinnar var orðuð á ágætan hátt í ritdómi í Morgunblaðinu í vikunni, þar sem sagði, að menn þyrftu ekki að vera símaverkfræðingar til þess að geta talað í síma með góðum árangri.

Þekkingin þarf meiri viðurkenningu en hún nýtur, þegar litið er til ýmissa mikilvægra þátta þjóðlífsins. Að mínu mati er hagfræðileg stærð hennar almennt vanmetin og hef ég meðal annars efnt til sérstaks fundar með forstjóra Þjóðhagsstofnunar til að ræða, hvort ekki sé unnt að gera þekkingunni hærra undir höfði við uppgjör þeirra þátta, sem hafa áhrif á þjóðhagsáætlanir okkar. Almennt virðist mér, að svar hagfræðinga sé á þann veg, að erfitt sé að mæla þennan árangur með þeim aðferðum og líkönum, sem notuð eru við mat á efnahagslegum árangri. Það sé miklu auðveldara að mæla hvað eitt tonn af þorski eða áli gefur þjóðarbúinu í aðra hönd en hver séu áhrif þess að fjárfesta meira í menntun, rannsóknum og vísindum.

Það er gjarnan notað sem mælistika á stöðu þjóða, hve miklum fjármunum þær verja til menntamála og rannsókna. Eins og þið vitið er því oft haldið fram, að við Íslendingar stöndum verr að þessum málum en hinir fremstu í heiminum. Á það er bent, að helst séu það þjóðirnar í Luxembourg og Liechtenstein, sem verji minna fjármagni til þessara þátta en við.

Hvorug þjóðin starfrækir eigin háskóla, sem segir hins vegar ekkert um menntunarstig þeirra eða ríkidæmi, enda eru þær þar báðar í efstu sætum samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum.

Um fimmtungur Íslendinga stundar háskólanám erlendis og til dæmis kemur um helmingur íslenskra doktora frá bandarískum háskólum. Segir sig sjálft, að útgjöld okkar til menntamála taka mið af þessari einföldu staðreynd, sem skapar okkur sérstöðu miðað við fjölmennari þjóðir. Opinber útgjöld til háskólastigsins hér á landi jafnast engu að síður á við meðaltalið í OECD-ríkjunum og eru til dæmis sambærileg við það, sem er í Bretlandi.

Þegar lagt er mat á samkeppnishæfni þjóða, er bent á, að sterk fylgni sé milli tölvu- og netvæðingar í skólakerfinu og árangurs ríkja í alþjóðlegum samanburði. Fáar þjóðir hafa farið lengra inn á þessa braut en við Íslendingar. Nýjar námskrár fyrir fyrstu skólastigin miða að því að þjálfa nemendur sem best í að nýta sér hina nýju tækni, unnið er að því að þróa rafrænt menntakerfi, tölvu- og netvæðing í skólum er hér meiri en annars staðar og áætlunin um að fartölvuvæða framhaldsskólanema fer vel af stað. Á háskólastigi höfum við náð það langt á þessari braut, að Hewlett-Packard fyrirtækið bauð hingað fjölda erlendra blaðamanna til að kynnast fartölvuvæðingunni í Viðskiptaháskólanum í Bifröst.

Hafa blaðamenn víða um lönd fjallað lofsamlega um það, sem þeir sáu í skólanum. Í hollenska blaðinu De Telegraaf sagði til dæmis 24. október, að íslenska menntakerfið væri mjög opið og þótt mörg hundruð hollenskir embættismenn kepptust daginn út og daginn inn við að stuðla að þróun í hollenskum menntamálum hefði hið strjálbýla Ísland náð forskoti hvað það varðaði. Námslýsingar á stafrænu formi væru aðgengilegar og nemendur gætu nálgast fyrirlestra á Power-Point formi og annað lesefni á rafrænan hátt.


Ég fullyrði, að breytingar á íslensku skólakerfi séu meiri og víðtækari hin síðari ár en almennt er viðurkennt í opinberum umræðum og að sjálfsögðu alls ekki af þeim, sem hallmæla íslenskum skólum og menntakerfi. Við höfum einnig gert meira en flestar þjóðir til að nýta okkur rafræna tækni í þágu skólastarfs og nýlega var opnaður aðgangur fyrir alla íslenska netnotendur að meiri rafrænum gagnarunnum en nokkurri annarri þjóð stendur til boða.

Framboð á háskólanámi hefur stóraukist hér hin síðari ár, fjöldi háskólanema hefur fjórfaldast á síðasta aldarfjórðungi. Einkaframtakið nýtur sín æ meira á háskólastiginu og samkeppni um nemendur eykst jafnt og þétt ekki síst í rekstrar- og tölvugreinum. Alþjóðlegt háskólasamstarf hefur tekið stakkaskiptum á örfáum árum og æ fleiri háskólanemar stunda hluta af námi sínu erlendis, um leið og lögð er áhersla á að efla rannsókna- og doktorsnám heima fyrir.

Allt endurspeglar þetta skilning á þeirri staðreynd, að þekking og meiri þekking er lykill að meiri velgengni á öllum sviðum. Fyrir nokkru var hins vegar skýrt frá því í fjölmiðlum, að aukin umsvif í íslensku atvinnu- og efnahagslífi síðustu ár byggðust einkum á lítt menntuðu fólki. Mér finnst þessi staðreynd, sé hún rétt, segja meira um íslenskan vinnumarkað en skólakerfið, því að í henni felst, að ekki séu gerðar miklar menntunarkröfur til þeirra, sem eru ráðnir til starfa. Óþreyjan eftir að fá einhvern til að sinna aðkallandi verkefnum ráði meiru en krafan um að starfsmenn búi yfir viðurkenndri þekkingu. Í mínum huga eru tengsl á milli þessa og minnkandi framleiðni í íslensku atvinnulífi, sem ýtir undir verðbólgu. Þessi skortur á kröfum um menntun kemur í raun heim og saman við almennt viðhorf Íslendinga, því að kannanir sýna, að þeir telja menntun ekki hið mikilvægasta í lífi hvers og eins, þótt þeir vilji á hinn bóginn búa í menntuðu og tæknivæddu þjóðfélagi, þar sem þekkingin sé í heiðri höfð.

Oft er sagt, að á hátíðis- og tyllidögum berji stjórnmálamenn sér á brjóst og tali um mikilvægi menntunar en minna sjáist til afreka þeirra í þessu efni í daglegum störfum. Helst er talað þannig, þegar krafist er meiri fjármuna til skóla, rannsókna eða í launaumslag kennara. Á menntaþingi fyrir nokkrum árum hvatti ég til þess, að menn finndu það í launaumslagi sínu, að þeir hefðu aflað sér menntunar. Þessi orð eiga við enn þann dag í dag, þótt víða megi sjá breytingu til batnaðar síðustu ár.

Er ég þeirrar skoðunar, að lokaáratugar tuttugustu aldarinnar verði minnst í Íslandssögunni vegna þátttaskilanna, sem hafa orðið í atvinnumálum með innreið þekkingarfyrirtækjanna. Baráttumenn fyrir gildi menntunar, rannsókna og þróunar í atvinnulífinu eignuðust nýja bandamenn á þessum áratug. Þeir starfa innan nýju fjármálafyrirtækjanna, þar sem menn sérhæfa sig við að leggja mat á nýja og spennandi fjárfestingarkosti. Þar er ekki síst litið til þess, hvort hæft og menntað starfsfólk leiði atvinnufyrirtæki.

Þessi áratugur hefur einnig sannað með ótvíræðum hætti, að þeim fyrirtækjum vegnar best, sem leggja mesta áherslu á símenntun starfsmanna sinna og minnumst þess í því sambandi, að sérfræðingar á sviði nýja hagkerfisins telja, að á næstu fimm árum muni þriðjungur starfa þróast á þann veg, að við þurfum að búa til ný starfsheiti fyrir þá, sem sinna þeim.

Þá er svo komið í íslenska hagkerfinu núna við aldarlok, að um það er deilt, hvort vöxtur og viðgangur eins þekkingarfyrirtækis, Íslenskrar erfðagreiningar, hafi afgerandi áhrif á stöðu íslensku krónunnar.

Góðir áheyrendur!

Þurfum við fleiri staðreyndir á þekkingardegi til að sannfæra okkur um gildi þess að halda slíkan dag og leitast þar með við að draga enn frekari athygli að þessum mikilvægu staðreyndum? Ég held ekki og færi Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga heillaóskir og þakkir vegna þess framtaks að efna til dagsins.