7.11.2000

Netlistarsýning

Norræn netlistasýninga, n2art,
Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús
7. nóvember 2000.



Notkun Netsins eykst frá degi til dags og teygir sig inn á æ fleiri svið þjóðlífsins, og í dag er opnuð norræn listsýning á Netinu í öllum höfuðborgum Norðurlandanna.

n2art er meðal fyrstu netlistarsýninga á Norðurlöndunum sem nýtur opinbers stuðnings. Með sýningunni er myndaður sameiginlegur norrænn vettvangur til að sýna netlist. Fimm norrænir sérfræðingar hafa valið listaverk á sýninguna, en að baki n2art standa menningarnetin á Norðurlöndunum. Menningarnet Íslands hefur tekið þátt í verkefninu af hálfu Íslands og vil ég þakka því og samstarfsfólki þess gott framlag til sýningarinnar.

Hingað til að hafa menningarnetin á Norðurlöndunum einbeitt sér að því að koma á framfæri rituðum upplýsingum á stafrænu formi. Nú er brotið blað í starfi þeirra með þessari netlistarsýningu. Tilgangur hennar er að gera tilraun á sviði norrænnar samvinnu og stuðla að sérstökum listviðburði á Netinu.

Norðurlöndin standa framarlega í notkun á Netinu og almenningur þar hefur betri aðgang að netsamskiptum en víða annars staðar í heiminum. Þar sem lýðræðishefðin á sér sterkar rætur í löndunum og almenningur tekur virkan þátt í að móta samfélagið og leikreglur þess.

Hnattvæðingin eykst og heimsmyndin er sífellt að breytast. Skynjun einstaklinga og samfélagsins á nálægð og tíma og efnisleg endimörk tekur á sig nýja mynd. Við verjum vökutíma okkar að miklu leyti í stafrænum heimi. Við tölvuna er vinnustaður okkar og hún skapar vistarverur með starfrænu rými þar sem við leitum fanga og höfum samneyti við aðra. Í þeim frjóa jarðvegi lifir og dafnar list sem notar nýja tækni og nýjar miðlunarleiðir.

Hinn stafræni heimur er ungur og breytist ört. Þeir eru fáir sem hafa yfirsýn eða tungutak til að lýsa því sem þar er að gerast og hvernig hin starfræna framtíð verður. Í þessum nýja og ókannaða heimi eru listamennirnir leitandi eins og landkönnuðir allra tíma og verk þeirra veita okkur sýn í ókannaða veröld sem ekki er efnisleg heldur byggist á skynjunum okkar og samskiptum gegnum tæknimiðla.

Listamenn sem vinna í efnivið nýrrar fjarskipta- og tölvutækni draga línur í landakort hins nettengda og stafræna heims og sýna okkur hvernig unnt er að ferðast um þessar víðáttur og njóta þeirra.

Hin nýja stafræna tækni opnar einnig ný tengsl milli listamanns, listaverks og njótanda. Verkið getur verið eins og lifandi vefur eða vera sem stækkar og hefur ef til vill engin endimörk.

Íslensk skáld hafa um aldir notað tungumálið sem efnivið, sótt yrkisefni í umhverfi sitt og samið skáldverk þar sem orðin streyma fram og búa til draumveröld.

Listamenn sem vinna með Netið og stafræna miðlun rita verk sín í táknrófi tölvuheimsins en geta eins og skáldin breytt einum skynhrifum í önnur svo sem hljóði í mynd eða mynd í hljóð. Þeir geta líka birt okkur draumaheim sem byggist á samhljómi og samspili viðburða sem gerast samtímis á fjarlægum stöðum. Er ánægjulegt, ef þessi norræna sýning verður til þess að efla skilning okkar Íslendinga á gildi netsins og stafrænnar tækni til listsköpunar. Er ég viss um að við eigum fullt erindi á þann vettvang eins og flesta aðra, sem tengjast hinni nýju tækni.

Ég lýsi þessa fyrstu norrænu netlistarsýningu á Íslandi opna og vona að almenningur megi njóta hennar vel svo og annarra netlistarsýninga sem í framtíðinni munu birtast.