20.1.2011

Alcoa segir hingað og ekki lengra - ESB situr yfir ráðlausri ríkisstjórn

Evrópuvaktin 21. janúar 2011


Viðskiptablaðið greinir frá því 20. janúar að Alcoa hafi stigið skref sem miði að því að hætta við álver á Bakka við Húsavík. Ákvörðun í þessa veru er meðal annars skýrð með því að Landsvirkjun ætli ekki að stunda rannsóknir í Gjástykki sem eru forsenda þess að virkjað verði í þágu nýs álvers. Orkustofnun framlengdi nýlega rannsóknarheimild Landsvirkjunar á svæðinu. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, brást hin versta við niðurstöðun Orkustofunar, þótt hún væri í samræni við lög og reglur.

Þetta dæmi er nefnt hér sem hið nýjasta um skaðvænleg áhrif stjórnarhátta ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Annað mætti nefna sem er í fréttum dagsis: sölu Seðlabanka Íslands á tryggingafélaginu Sjóvá fyrir minna fé en áður hafði verið boðið í félagið. Að sölunni var staðið á þann veg að skilanefnd Glitnis, sem hefur forkaupsrétt á hlutafé Sjóvár, vissi ekki um viðskiptin fyrr en í þann mund sem frá sölunni var gengið. Skilanefnd Glitnis á 17,7% hlutafjár Sjóvár.

Þriðja stórundarlega dæmið um stjórnarhættina er uppákoman að morgni mánudags 17. janúar þegar hópur syngjandi fólks undir forystu Bjarkar Guðmundsdóttur gekk að Stjórnarráðshúsinu þar sem á tröppunum stóðu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Jóhanna tók á móti mótmælum um 45 þúsund manna gegn sölunni á HS Orku til kanadíska fyrirtækisins Magma. Frá sölunni hefur verið gengið í stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J.. Ríkisstjórnin hefur haft fjölmörg tækifæri til að grípa inn í söluferlið. Á stjórnarráðströppunum sagðist Jóhanna hins vegar sammála mótmælendum! Steingrímur J. hefur síðar sagt að kannski kaupi ríkið bara HS Orku. Kaupverðið er talið geta numið 33 milljörðum króna.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að málum sé svo komið vegna íslensku krónunnar að annað hvort verði hún í hafti um fyrirsjáanlega framtíð og engir erlendir fjárfestar vilji láta að sér kveða á Íslandi eða Íslendingar gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Skoðun hans er sú að ESB-aðild sé forsenda þess að erlendum stórfyrirtækjum komi til hugar að festa hér fé í atvinnurekstri. Þessi skoðun stenst ekki gagnrýni frekar en annað sem frá ríkisstjórnni kemur. Hún sýnir það eitt að ráðherrar Samfylkingarinnar sjá ekki neinn tilgang í neinum öðrum stjórnarathöfnum en þeim sem tengjast aðild Íslands að ESB.

Nú er gengið svo langt til að þóknast ESB og aðlögunarkröfum þess af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar að þau vilja bola Jóni Bjarnasyni úr stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af því að hann telur aðlögun að skilyrðum ESB eiga að gerast eftir að við það hafi verið samið en ekki fyrirfram.

Nauðsyn þess að ríkisstjórnin sé einhuga í ESB-aðlögunarferlinu var áréttuð af Þorsteini Pálssyni, sem situr í viðræðunefnd Íslands, í grein í Fréttablaðinu laugardaginn 15. janúar. Þar sagði Þorsteinn meðal annars: að „smám saman [væri] verið að taka ákvarðanir í viðræðunum sem [væru] skuldbindandi fyrir Ísland með fyrirvara um að á endanum verði samkomulag um alla þætti.“ Af þessum sökum taldi hann fráleitt að ríkisstjórnin gæti fylgt þeirri stefnu að ganga til samninga við ESB án þess að öll ríkisstjórnin stæði að öllum þáttum samningsins. Aðlögun Íslendinga að kröfum ESB yrði að njóta stuðnings allra ráðherra enda snerti mál stjórnskipulegt ábyrgðarsvið þeirra. Daginn eftir að þessi frýjunarorð birtust hófu sérfræðingar Jóhönnu að undirbúa brottkast Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn. Steingrímur J. hreyfir hvorki legg né lið til varnar Jóni enda ráðherrastóll hans sjálfs í húfi.

ESB fylgir þeirri reglu að umsóknarríki ræður hvort aðildarviðræðum er fram haldið en ESB ákveður hraðann í viðræðunum. Þær geta tekið mörg ár kjósi ESB eða eitthvert aðildarríki sambandsins. Mjög hefur hægt á viðræðunum við Íslendinga. ESB er greinilega tvístígandi. Hefði ESB sömu stöðu og Alcoa gagnvart Íslandi mundu ráðamenn í Brussel áreiðanlega ganga frá viðræðuborðinu og segja íslenskum viðmælendum sínum að vinna heimavinnuna sína betur og afla sér lágmarksstuðnings hjá þjóð sinni.