4.1.2011

Halda vinstri-grænir áfram þátttöku í ESB-blekkingarleiknum?

Evrópuvaktin 4. janúar 2011


Fyrir samþykkt alþingis á ESB-aðildarumsókninni var látið í veðri vaka, að hún hefði tvíþætt gildi. Í fyrsta lagi mundi staða Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum stórbatna. Þar sæju menn að Íslendingar stefndu að upptöku evru, enda hefur Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hvað eftir annað sagt að með aðild aukist hér fjárfesting útlendinga, atvinnuleysi minnki og vextir lækki. Í öðru lagi var því hins vegar haldið fram að ekki væri um annað en könnunarviðræður að ræða. Íslendingar myndu kynnast því sem ESB hefði að bjóða og síðan taka afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Menn þurfa ekki að setjast í sérstakar stellingar til að átta sig á því að þetta tvennt fer ekki saman. Annars vegar að halda því fram að öll afstaða til Íslands á fjármálamörkuðum breytist við aðildarumsókn og hins vegar að segja að aðeins sé sótt um til að skoða hvað sé í poka ESB.

Frá upphafi hefur verið verið stunduð ákveðin blekkingarstarfsemi varðandi ESB-málið.

ESB hefur mótað skýrar reglur um aðlögun umsóknarríkja. Þau verða að laga stjórnarhætti sína að kröfum ESB. Aðildarsinnar gera sem minnst úr þessum þætti, þótt ESB hafi lagt fram fjóra milljarða króna til að unnt sé að breyta því sem breyta þarf að kröfu þess.

Vinstri-grænir samþykktu aðild í þeirri trú að um skoðun á kostum væri að ræða. Sumir ráðherrar þeirra neita að líta málið öðrum augum. Þeir vilja ekki fjármuni til að laga stjórnarhætti á verksviði ráðuneyta sinna að ESB-skilyrðum.

Þá hefst nýr þáttur í blekkingarleiknum. Utanríkisráðherra leggur fyrir ríkisstjórn tillögu um að samninganefnd Íslands en ekki einstök ráðuneyti sæki um styrki til ESB vegna samninga og aðlögunar Íslands að Evrópusambandinu.

Ný deila hefst í ríkisstjórn og málið er sagt viðkvæmt innan raða vinstri-grænna. Á flokksráðsfundi þeirra í nóvember var samþykkt ályktun um að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum ESB. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eigi að undirbúa aðild. Þessi ályktun átti að vera málamiðlun og felld var tillaga þar sem bann við aðlögunarferli var orðað á afdráttarlausari hátt.

Utanríkisráðherra reynir greinilega að sigla fram hjá ályktun flokksráðs vinstri-grænna með tillögu sinni í ríkisstjórninni. Kemst hann upp með það? Á málið reynir á þingflokksfundi vinstri-grænna miðvikudaginn 5. janúar. Steingrímur J. Sigfússon, flokksformaður, og Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, vilja ekki láta skerast í odda við Össur Skarphéðinsson. Meiri líkur eru á að þeir láti þá þingmenn í eigin flokki, sem Össur kennir við húsdýr, sigla sinn sjó.

ESB-aðildarsinnar segjast hafa sett sér það leiðarstef í ESB-umræðum á árinu 2011 „að beita staðreyndum og rökræðu, forðast gífuryrði og þrætubókarlist og vera upplýsandi.“ Ekkert af þessu hefur átt við málflutning þeirra til þessa. Lítilsvirðing utanríkisráðherra í garð einstakra þingmanna vinstri-grænna og blekkingarleikurinn um aðlögun og styrki ESB lofa ekki góðu um framhaldið.

Næsti áfangi ræðst af niðurstöðum þingflokksfundar vinstri-grænna. Setja menn þar blekkingarsmiðunum í þágu ESB-aðildar stólinn fyrir dyrnar eða halda áfram þátttöku í leiknum?