30.12.2010

Ósvífni Árna Páls flótti frá raunveruleikanum

Evrópuvaktin 30. desember 2010


Hagstjórn ríkisstjórnarinnar eða einstaka ígrip fjármálaráðherra og seðlabankastjóra í viðskiptalífið fá ekki góða dóma um þessi áramót. Hagvaxtarmarkmið nást ekki vegna skatta- og haftastefnu ríkisstjórnarinnar. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu er í lágmarki sé tekið mið af uppbyggingu þjóðfélagsins frá stríðslokum.

Ríkissjóður og seðlabanki starfa í skjóli gjaldeyrishafta. Þau voru sett haustið 2008 til 10 eða 15 mánaða en hafa nú verið við lýði í 24 mánuði. Kerfi ríkisins í kringum höftin hefur fengið sjálfstætt líf. Steingrímur J. Sigfússon og Már Guðmundsson þora ekki að stíga út úr heimi haftanna. Innviðir peningakerfisins visna í ofvernduðu umhverfi. Því lengur sem höftin lifa því þyngra verður höggið við afnám þeirra.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, setti viðmælendum sínum um nýja peningamálastefnu afarkosti í grein 27. desember: annað hvort samþykkja menn ESB-aðild eða höftin gilda áfram. Þessi ósvífni er í anda ESB-kostanna sem vinstri-grænir samþykktu þegar þeir settust í ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Steingrímur J. varð ráðherra undir ESB-hótun Samfylkingarinnar og sýpur nú seyðið af því með klofinn flokk.

ESB-frekja Samfylkingarinnar er helsti óvinur eðlilegra viðbragða íslenskra stjórnvalda við hruni fjármálakerfisins. Með kröfunni um ESB-aðild er rekinn fleygur milli stjórnmálaflokka og inn í flokka. Skemmdarverkið byggist á einsýni og afneitun á staðreyndum. Sé einhvern tíma rétt fyrir Íslendinga að sækja um aðild að ESB, er líðandi stund ekki sá tími. Innanlands á að einbeita kröftum stjórnkerfisins að öðru. Þróun innan Evrópusambandsins er á þann veg að algjör óvissa er um hvert Íslendingar stefna með aðild að því. Utan evru-svæðisins hefur evran eða upptaka hennar aldrei átt meira undir högg að sækja. Innan evru-svæðisins eykst krafan um gjörbyltingu á myntsamstarfinu.

Afarkostir Árna Páls sýna að hann metur hvorki stöðuna heima fyrir né innan ESB á réttan hátt.

Lúðvík Elíasson, aðalhagfræðingur MP-banka, segir réttilega í Morgunblaðsgrein 30. desember að órökstudd fullyrðing Árna Páls, ráðherra peningamála, um að sjálfstæð mynt þjóðar sé ávísun á haftastefnu sé ekki til þess fallin að styðja við gjaldmiðilinn. Skoðun ráðherrans sé fremur til þess fallin að grafa undan gjaldmiðlinum þegar síst skyldi og rýra trúverðugleika peningastefnunnar og seðlabankans frekar þegar þörf sé á að byggja hann upp. Þá segir Lúðvík:

„Tilburðir til þess að kenna krónunni um efnahags- og skuldavanda þjóðarinnar eru tilraunir til þess að beina athyglinni frá þeim vandamálum sem raunverulega er við að glíma, svo sem óhóflegri skuldsetningu og ónógum sparnaði. Þessi mál þarf að leysa óháð því hvaða peningastefna verður ofan á næstu árin.“

Í þessum orðum felst sá dómur um grein Árna Páls að hún sé til marks um enn eina tilraun ríkisstjórnarinnar til hlaupast frá vandanum með því að bollaleggja um ESB-aðild og evru. Ósvífni Árna Páls felst í því að stilla andstæðingum ESB-aðildar upp við vegg og lýsa þá fylgjendur gjaldeyrishafta. Að hefja nýtt ár undir ríkisstjórn með svo auman málstað lofar ekki góðu um framhaldið.