28.12.2010

ESB-þráhyggjan stendur umræðu um gjaldmiðil fyrir þrifum

Evrópuvaktin 28. desember 2010


Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, reyndi að blása nýju lífi í ESB-aðildarstefnu ríkisstjórnarinnar með grein í Fréttablaðinu mánudaginn 27. desember, þar sem hann sagði tvo kosti fyrir hendi í peningamálum: að viðhalda gjaldeyrishöftum til varnar krónunni eða ganga í ESB og taka upp evru. Jafnframt boðaði ráðherrann til víðtæks samráðs um nýja peningamálastefnu.

Úr því að ráðherrann velur þá leið, í sömu andrá og hann boðar menn til samráðs, að setja þeim tvo kosti, sem í raun eru afarkostir, eru engar líkur á því að samráðið skili árangri. Athyglisvert er, eins og bent er á í frétt hér á síðunni í dag, að hvorki Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, né Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, víkja að ESB-aðild og upptöku evru í viðbrögðum sínum við grein Árna Páls.

Dæmin um að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi mistekist áform sín um samráð eru of mörg til að ástæða sé til að binda miklar vonir við nýjasta útspil Árna Páls um samráð. Um leið og þetta er sagt skal áréttuð sú skoðun að óhjákvæmilegt sé að ná víðtækri sátt um gjaldmiðilsmálin. Alltof lengi hefur verið látið reka á reiðanum í því efni.

Hið dapurlega er að sumir talsmenn ESB-aðildar telja málstað sínum til framdráttar að niðurlæging krónunnar verði sem mest. Þar með fái þeir sterkara vopn í hendur til að knýja á um ESB-aðild um leið og ráðist er gegn þeim sem benda á að aðild að ESB er hvorki skilyrði til einhliða upptöku evru né annars gjaldmiðils, dollars, norskrar krónu eða kanadísks dollars svo að dæmi séu nefnd.

Hið beina og óbeina tjón sem þráhyggjan um nauðsyn þess að Íslendingar gangi í Evrópusambandið hefur valdið er sérstakt íhugunar- og rannsóknarefni. Þráhyggjan hefur til dæmis leitt umræður um krónuna í öngstræti eins og sést af grein Árna Páls. Hann telur sig þó hafa sérfræðinga og stjórnendur Seðlabanka Íslands á bakvið stefnu sína um gjaldeyrishöftin eða inngöngu í ESB.

Verði gengið til samráðs um framtíðargjaldmiðil okkar Íslendinga má alls ekki einblína á tvo kosti Árna Páls. Allir kostir hljóta að koma til skoðunar. ESB-þráhyggjan verður að víkja.

Raunir evru-ríkjanna um þessar mundir sýna að skynsamlegt er að stíga varlega til jarðar í gjaldmiðilsmálum. Þeirri skoðun vex fylgi víða að hin sameiginlega mynt standi á brauðfótum, stjórntæki skorti til að skapa henni styrk. Samþykkt leiðtoga evru-ríkjanna um varanlegan stöðugleikasjóð evrunni til stuðnings verður marklítil sé fjárlaga- og efnahagsvald þjóðþinga og ríkisstjórna evru-landanna ekki minnkað. Treysta stjórnmálamenn sér til að berjast fyrir slíkri skerðingu fullveldis? Það skal dregið í efa. Framtíð evrunnar er mikilli óvissu háð og andstaða við hana eykst dag frá degi í mesta efnahagsveldi ESB, Þýskalandi.

Undir forystu efnahags- og viðskiptaráðherra á Íslandi sem sér ekki aðrar framtíðarlausnir í gjaldmiðilsmálum en krónu í gjaldeyrishöftum eða evru með ESB-aðild næst ekki nein víðtæk sátt um peningamálastefnu. Ráðherrann verður að hverfa frá afarkostum sínum sé honum alvara með tillögunni um víðtækt samráð.