21.12.2010

Ríkisstjórnin er alveg heillum horfin

Evrópuvaktin 21. desember 2010


Andríki, sem meðal annars heldur úti vefsíðunni Vef-Þjóðviljanum, fékk Miðlun ehf. til að kanna viðhorf manna til þess að eyða fé skattgreiðenda í stjórnlagaþingið svonefnda sem á að veita alþingi ráð um breytingar á stjórnarskránni. Könnunin fór fram dagana 10. - 17. desember og var niðurstaðan birt í Vef-Þjóðviljanum 20. desember.

Spurt var:

Stjórnvöld telja að kostnaður við stjórnlagaþing verði á bilinu 564 til 704 milljónir króna miðað við núverandi áætlanir. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?

Niðurstöðurnar eru afgerandi. Aðeins 28,3% aðspurðra telja þessum fjármunum mjög eða frekar vel varið í stjórnlagaþing. Ríflega tvöfalt fleiri eða 60,2% telja að þessum fjármunum sé frekar eða mjög illa varið. Kostnaðurinn leggst hvorki vel né illa í 11,6%.

Þessi niðurstaða er nefnd til sögunnar hér þar sem hún sýnir afstöðu almennings til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar á fjármunum í gæluverkefni án þess að þau eigi hljómgrunn hjá þjóðinni. Áhugaleysið á stjórnlagaþinginu birtist glöggt í kosningunum til þess. Öll kurl eru raunar ekki komin til grafar um lögmæti þeirra sem kjörnir voru til setu á stjórnlagaþinginu.

Annað gæluverkefni ríkisstjórnarinnar mun dýrara, umfangsmeira og afdrifaríkara er umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þegar spurt er um kostnað skattgreiðenda vegna þess fara ráðherrar undan í flæmingi og þó sérstaklega Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á útgjöldunum. Tölur eru ekki kynntar á jafnskýran hátt og þegar spurt er um kostnað við stjórnlagaþingið. Við óljósar skýringar er síðan jafnan bætt þeirri dúsu, að svo leggi Evrópusambandið fram fé á móti.

Hér skal fullyrt að yrði kostnaðardæmið vegna ESB-aðildarumsóknarinnar lagt fyrir kjósendur og þeir spurðir um afstöðu til útgjaldanna yrði andstaðan jafnvel enn meiri en gegn greiðslu kostnaðarins vegna stjórnlagaþingsins.

Firring ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur birtist í ýmsu. Hún er þó hvergi jafnskýr og við ákvörðun mikilla útgjalda í þágu gæluverkefna á borð við ESB-umsókn og stjórnlagaþing á sama tíma og ráðist er með niðurskurðarhnífnum á útgjöld til heilbrigðismála og löggæslu, svo að tvö dæmi um óhjákvæmilega opinbera þjónustu séu nefnd.

Innan ríkisstjórnarflokkanna og milli þeirra er mikil ólga eftir afgreiðslu fjárlaga. Steingrími J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur gjörsamlega mistekist að halda þannig á málum innan eigin flokks að friður sé um höfuðmál hans sem ráðherra, fjárlögin. Ástæðan fyrir óförum Steingríms J. er ekki aðeins tengd fjárlagagerðinni heldur einnig þjónslund hans í ESB-málum gagnvart Samfylkingunni.

Hefði ríkisstjórnin þjóðina á bakvið stefnu sína varðandi stjórnlagaþingið og ESB-aðildina, væri skiljanlegt að forystumenn stjórnarinnar og flokkar þeirra vildu nokkuð á sig leggja til að vinna málunum brautargengi. Hitt er í raun óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli leggja ofurkapp á þessi mál í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Ríkisstjórnin er alveg heillum horfin. Henni ber að víkja.