3.10.2000

Umræður um stefnuræðuUmræður um
stefnuræðu forsætisráðherra,
3. október, 2000.


Ísland hefur verið kynnt víða á þessu aldamótaári. Fyrir vestan haf er þess minnst, að 1000 ár eru liðin frá því að Vínland fannst. Reykjavík er ein af níu menningarborgum Evrópu og undir þeim merkjum hefur íslensk list verið flutt um álfuna og tvö stórkvirki undir íslenskri forsjá, tónverkið Baldur eftir Jón Leifs og fjölþjóðlegi ungmennakórinn, Raddir Evrópu, hafa hlotið góðar viðtökur. Björk hefur enn á ný kallað á alheimsathygli og síðast en ekki síst, fögnum við því innilega, hve vel íþróttafólki okkar vegnaði á Ólympíuleikunum í Sydney og ber þar nafn Völu Flosadóttur hæst.

Við eigum ótrauð að standa við bakið á afreksfólki okkar í íþróttum og fylgja fram ályktun alþingis um eflingu íþrótta, meðal annars með því að styrkja afreksmannasjóð ÍSÍ. Í framhaldi af leikunum í Sydney mun ég leggja á ráðin um það með íþróttaforystunni, hvaða ný sameiginleg úrræði eru best til að standa enn frekar við bakið á okkar góða íþróttafólki.

Einnig er nauðsynlegt að skapa liststarfsemi betra umhverfi í samræmi við mikla grósku á því sviði. Þar ber hæst ákvörðun um tónlistarhús. Það er ekki lengur spurning um það hvort eða hvar það rís heldur hvenær. Þörfin fyrir húsið er ótvíræð, geti Ísland ekki háð samkeppni með góðum mannvirkjum fyrir tónlist og ráðstefnur setur allt þjóðlífið niður. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram, að framkvæmdir gætu hafist árið 2003.

Undir forystu menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við Byggðastofnun hefur verið unnið að stefnumótun um menningarstarf á landsbyggðinni. Af hálfu ríkisvaldsins á að semja um þær leiðir, sem heimamenn kjósa á hverjum stað.

Þannig hefur verið samið um leiðir til að efla símenntun, en um allt land hafa nú verið stofnaðar símenntunar- eða fræðslumiðstöðvar, sem sameina krafta skóla, sveitarfélaga, launþega og atvinnurekenda með nýjum og árangursríkum hætti. Undir merkjum þeirra hefur meðal annars verið skapaður góður vettvangur til samvinnu við háskóla til rannsókna og kennslu.

Í menntamálum má aldrei leggja árar í bát heldur huga sífellt að því, sem betur má fara um leið og lögð er rækt við það, sem best hefur reynst. Með nýjum námskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er í fyrsta sinn sköpuð eðlileg og æskileg samfella milli þessara skólastiga auk þess sem skólastarfi eru sett skýrari markmið en áður með reglulegri stígandi í skólagöngunni án þess að nemandinn lokist í blindgötu. Næsta vor verða samræmd próf úr grunnskóla valfrjáls og inntökuskilyrði framhaldsskóla breytast, þar með eykst sveigjanleiki skólakerfisins enn frekar.

Háværustu gagnrýnendur íslenska menntakerfsins kjósa, annað hvort af ásetningi eða þekkingarleysi, að gera lítið úr hinu mikla umbótastarfi síðustu ára og hve margir vinna að nýsköpun í menntamálum. Við heyrðum þetta hér í ræðu formanns Samfylkingarinnar, sem hefur lagt sig sérstaklega fram um það síðustu vikur að spilla góðu samkomulagi menntamálaráðuneytisins og Grundfirðinga um tilraun til framhaldsskólanáms í byggðarlagi þeirra.


Háskólastigið er að taka miklum breytingum með nýjum, einkareknum skólum og vaxandi áherslu á meistara- og doktorsnám, einkum í Háskóla íslands. Með Listaháskóla Íslands skapast ný vídd í mennta- og menningarlífinu. Háskólinn á Akureyri flytur um þessar mundir í nýtt húsnæði og hafist verður handa við að reisa nýbyggingu við Kennaraháskóla íslands. Nauðsynlegt er að bregðast við óskum Háskóla Íslands um nýskipan á fjárveitingum til bygginga á hans vegum og er það málefni, sem hlýtur að koma til kasta alþingis.

Lánasjóður íslenskra námsmanna eflist og veitir meiri þjónustu en áður og fjárveitingar til kennslu í háskólum byggjast nú á gagnkvæmum samningum, sem hafa verið gerðir í góðri sátt. Fráleitt er að tala um niðurskurð í því sambandi, þegar litið er til einstakra skóla og þó einkum Háskóla Íslands.

Unnið er að samningum um rannsóknafé til háskólanna og til að efla opinbera sjóði á sviði vísinda. Ég hef lagt áherslu á, að ríkið skilgreini hlutverk sitt á þann veg, að það sinni grunnrannsóknum og menntun ungra vísindamanna. Náist samningar um þessi mál á næstu vikum, verða þeir kynntir alþingi vegna ákvarðana um fjárlög, en undanfarin fimm ár hafa opinber útgjöld til rannsókna og þróunarstarfa aukist um 38% á föstu verðlagi.

Við Íslendingar stöndum vel að vígi í upplýsingatækni ekki síst þegar litið er til menntakerfisins og nú á þessum vetri er enn ráðist í nýsköpun með tilraunaverkefnum vegna fartölvuvæðingar framhaldsskólanna. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001er gert ráð fyrir fjárveitingum til verkefna á sviði tungutækni, það er til þess að tryggja stöðu íslenskunnar í heimi upplýsingatækninnar. Á næstunni verður kynnt val á nýju sameiginlegu bókasafnskerfi fyrir öll bókasöfn landsins en það stórbætir aðstöðu allra landsmanna til að nálgast upplýsingar.

Herra forseti!

Verkefni á sviði íþrótta, menningar og mennta, rannsókna og vísinda eru óþrjótandi og heillandi, vegna þess að þau lúta öll að því að búa betur í haginn fyrir æskuna og þar með framtíðina. Verði ekki hvikað frá þeim markmiðum, sem þegar hafa verið sett á þessum sviðum, er íslenska þjóðin á réttri braut við upphaf nýrrar aldar.