30.9.2000

Menntaskólinn á Ísafirði 30 áraMenntaskólinn á ísafirði,
30 ára,
30. september 2000.

Á þeim tíma, þegar dugmiklir Vestfirðingar voru að ná þeim langþráða árangri, að menntaskóli risi hér á Ísafirði, vorum við Björn Teitsson skólameistari samstarfsmenn á vettvangi Stúdentaráðs Háskóla Íslands og grunaði hvorugan, að leiðir okkar mundu liggja saman að nýju í samvinnu á sviði skólamála eða að við stæðum hér saman í dag til að fagna 30 ára afmæli þessa ágæta skóla, Menntaskólans á Ísafirði.

Um leið og ég þakka Birni mikilvæg störf hans í þágu skólans vil ég óska honum, samstarfsfólki hans, nemendum skólans og öllum velunnurum og hollvættum hans nær og fjær innilega til hamingju með daginn. Sérstakar heillaóskir færi ég þeim, sem sóttu það fast á sínum tíma, að skólinn yrði stofnaður..

Þegar við lítum yfir þróun skólastarfs á þeim þrjátíu árum, sem liðin eru síðan Menntaskólinn á Ísafirði kom til sögunnar, eigum við næsta erfitt með að átta okkur á því, hve lengi var búið að námi til stúdentsprófs í fáum skólum. Í Reykjavík starfaði til dæmis aðeins einn menntaskóli frá árinu 1846 til 1966, þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður, en um 1970 og upp úr því varð gjörbreyting að þessu leyti og nú er unnt að stunda framhaldsnám í um það bil 30 skólum og í flestum þeirra er í senn um bóknám og starfsnám að ræða.

Undanfarnir áratugir hafa því að nokkru verið þróunar- og umbrotatímar í íslensku menntakerfi, en með nýju námskránum, sem hafa verið að komast til framkvæmda undanfarna mánuði, er í fyrsta sinn sköpuð hin eðlilega og æskilega samfella milli skólastiga auk þess sem skólastarfi eru sett þau markmið, að regluleg stígandi sé á ferli nemenda og þeir lokist aldrei í blindgötu á menntabrautina sama hvaða leið þeir velja. Jafnframt er meiri áhersla en nokkru sinni lögð á að vekja athygli á gildi símenntunar og þeim tækifærum, sem þar eru í boði og vaxa jafnt og þétt.

Menntaskólinn á Ísafirði hefur verið virkur þátttakandi í þessari þróun eins og ég kynntist vel á ánægilegum fundum með nemendum og kennurum hér í skólanum síðastliðinn vetur. Þar kom til dæmis fram mikill áhugi á því að nýta upplýsingatæknina enn frekar í þágu skólastarfsins og var augljóst, að nemendur gerðu sér glögga grein fyrir þeim kostum, sem hún hefur að bjóða. Var ég meðal annars spurður um fartölvuvæðingu framhaldsskólanna, en hún er að hefjast um þessar mundir, og hvort fjarkennsla yrði efld, svo að hægt yrði að ljúka sem flestu námi í heimabyggð.

Raunar kom þessi áhugi á hinni nýju tækni mér ekki á óvart hér á Ísafirði, því að hér hafa góð fyrirtæki á þessu sviði skotið rótum og auk þess hefur menntaskólinn tekið þátt í frumkvöðlastarfi í fjarnámi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri í samvinnu við fleiri aðila. Hefur ekki farið fram hjá neinum, hve þessar nýju fjarnámsleiðir skipta miklu og eru þær ekki síður mörgum kappsmál í samtímanum en stofnun skóla var fyrir 30 árum.

Ég sé ekki annað en framboð á rafrænu námsefni muni aukast jafnt og þétt auk þess sem kennsluhættir þróast og einfaldast. Á vegum menntamálaráðuneytisins er markvisst unnið að því að leggja grunn að rafrænu menntakerfi eins og við köllum það, helsti vandinn við slíkt skipulagsstarf er að halda í við hinar öru breytingar, ef menn stefna að því að vera ávallt í fremstu röð,

Tæknin er ekki skóli heldur það fólk, sem myndar skólasamfélagið og Menntaskólinn á Ísafirði bregður upp þeirri mynd af sér, þegar hann kynnir sig, að hann sé tilltölulega lítill og innan veggja hans sé lögð áhersla á einstaklingsbundna leiðsögn og nemendur hans hverfi ekki í fjöldann. Þá er það skólanum til ágætis, að hann nýtur góðs af því að vera á Ísafirði, þar sem lengi hefur þrifist blómleg menningarstarfsemi, einkum á sviði tónlistar, leiklistar og myndlistar auk þess sem íþróttaaðstaða er hér góð, skíðasvæði einstakt og þetta nýja íþróttahús stendur við hlið bóknámshúss skólans.

Í samvinnu við menntamálaráðuneytið er nýlega lokið mati á innra starfi skólans með þátttöku kennara, nemenda og óhlutdrægra sérfræðinga. Ég tel, að skólinn geti unað vel við niðurstöðu matsins. Þar er sagt, að margir góðir og metnaðarfullir kennarar starfi við skólann og vinnuaðstaða innan veggja hans jafnt fyrir kennara og nemendur sé á við hið besta í landinu. Í samfélagi skólans sé sterk vitund um mikilvægi menntunar og nauðsyn þess að hlú að skólanum og sé starf hollvætta góð vísbending um þetta en góður andi ríki innan skólans og séu nemendur og starfsmenn velviljaðir í garð hans og sýni honum hollustu.

Þessi jákvæðu ummæli sýna, að byggt er á traustum grunni, þegar lagt er á ráðin um framtíð Menntaskólans á Ísafirði á þessum tímamótum, því að í skólastarfi má aldrei leggja árar í bát, heldur verða menn sífellt að líta til framtíðar með ákveðin markmið í huga.

Menntaskólinn á samhliða því sem hann leggur áherslu á góða menntun nemenda sinna að verða virkur þátttakandi í þeirri nýsköpun, sem ávallt þarf að verða í atvinnulífinu, ef menn vilja laga sig að breyttum kröfum og aðstæðum.

Þetta getur skólinn gert með ýmsu móti eins og öflugri þátttöku í Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem var stofnuð á síðasta ári. Nýleg vika símenntunar sannfærði mig um, að fá úrræði eru skynsamlegri til að treysta forsendur byggðar en markvisst símenntunarstarf á öllum sviðum og hér á Ísafirði hefur með þróunarsetrinu verið skapaður góður vettvangur til samstarfs við háskóla í ýmsum greinum bæði til rannsókna og kennslu. Er ég þeirrar skoðunar, að þetta samstarf eigi ekki að takmarka við einn háskóla heldur eigi það að þróast á forsendum heimamanna og í samræmi við tækifæri og aðstæður á hverjum stað. Á alþingi er mikill og vaxandi skilningur á gildi þessa starfs eins og menn sáu það fyrir 30 árum, að nauðsynlegt væri að halda inn á nýjar brautir við skipan framhaldsnáms.

Góðir áheyrendur!

Í námi kemur ekkert í staðinn fyrir áhugasaman kennara eða hvatningarorð fjölskyldu og vina. Öll þurfum við áfram leiðsögn og stuðning, hve langt sem við höfum náð. Þegar Vala Flosadóttir vildi ná sem bestum árangri í stangarstökkinu á 110 þúsund manna leikvanginum í Sydney lyfti hún höndunum yfir höfuð sér og klappaði þeim saman og hvatti þannig áhorfendur til að veita sér styrk og stuðning, þegar hún mundaði stöngina og tók undir sig stökkið.

Öll getum við náð lengra en við ætluðum, ef við fáum til þess stuðning og hvatningu og hikum ekki við að stíga næsta skrefið. Veki skóli þennan anda með nemendum sínum er hann á réttri braut.

Megi Menntaskólinn á Ísafirði eflast og styrkjast til langrar framtíðar. Innilega til hamingju með daginn!