16.6.2011

Já-menn í Noregi og vonlaus ESB-stefna ríkis­stjórnar Íslands

Evrópuvaktin leiðari 16. júní 2011Undanfarna daga hefur Evrópuvaktin sagt frá raunum ESB-aðildarsinna í Noregi. Þar starfa systursamtök Evrópusamtakanna hér á landi. Þau berjast fyrir aðild Noregs að Evrópusambandinu. Kjarni starfsemi samtakanna hefur verið í Ósló á meðal fjármála-, embættis- og menntamanna svo að ekki sé minnst á álitsgjafa. Innan stjórnmálaflokkanna hefur stuðningur við ESB-aðildina að jafnaði verið mestur innan norska Hægriflokksins.

Norðmenn hafa tvisvar sinnum hafnað aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Norsku stjórnmálaflokkarnir hafa valið þann kost vegna klofnings innan þeirra um málið að treysta á forystu já- og nei-hreyfinga í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna, eins og gerðist hér á landi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave 9. apríl sl.

Vegna þess hve ESB-málið er erfitt í samskiptum norskra stjórnmálamanna og flokka hafa þeir komið sér saman um að ýta því til hliðar við myndun ríkisstjórna. Þeir hafa raunar gengið lengra því að í stjórnarsáttmálum síðari ára hefur verið svonefnt „sjálfsmorðsákvæði“. Í því felst að hefji einhver flokkur í samsteypustjórn baráttu fyrir ESB-aðild er ríkisstjórnarsamstarfið sjálfdautt.

Evrópusamtökin norsku, já-hreyfingin, hefur ekki viljað sætta sig við að ESB-aðildarmálið sé ekki á dagskrá – þangað til núna. Síðasta könnun á afstöðu Norðmanna til ESB sýnir að 66,2% eru á móti aðild. Meðal fólks yngra en 30 ára er andstaðan 77%. Í öllum stjórnmálaflokkum og öllum byggðarlögum er meirihluti gegn aðild. Við svo búið viðurkenna forystumenn já-hreyfingarinnar að þeir hafi ekki erindi sem erfiði. Þeir ætli að hætta, að minnsta kosti í bili, að berjast fyrir því að aðildarmálið verði tekið á dagskrá. Hið eina sem kunni að breyta afstöðu þeirra sé að Svíar ákveði að taka upp evru, sem er ólíklegra nú en nokkru sinni síðan þeir höfnuðu evrunni um árið, eða Íslendingar ákveði að ganga í ESB.

Hér tókst Samfylkingunni, illu heilli, að búa svo um hnúta við stjórnarmyndun með vinstri grænum 10. maí 2009 að farin var allt önnur leið en í Noregi. Í stað þess að setja sem skilyrði að ekki yrði hreyft hugmynd um ESB-aðild krafðist Samfylkingin þess að aðildarumsókn yrði sett á oddinn af ríkisstjórninni. Heltekinn af valdaþrá beit Steingrímur J. Sigfússon á agnið og dró VG með sér. Flokkurinn hefur klofnað vegna málsins en ríkisstjórnin heldur fast við ESB-aðildarumsóknina og greiðir hátt verð fyrir hana.

Andstaða Norðmanna við ESB-aðildi hefur vaxið í réttu hlutfalli við vandann innan ESB. Norðmenn átta sig á því að þeir hafa ekkert að sækja til ESB í atvinnumálum eða efnahagsmálum. Þeir hafa ekki heldur áhuga á að dragast inn í þær þrætur sem einkenna allt ESB-samstarfið. Þeir líta með öðrum augum raunsæjum augum á stöðu ESB – meira að segja forystumenn hinnar deyjandi já-hreyfingar.

Þetta raunsæi ræður því miður hvorki í ríkisstjórn Íslands né íslenska utanríkisráðuneytinu þegar lagt er mat á gildi þess að halda áfram viðræðum við ESB. Formaður viðræðunefndar Íslands við ESB talar eins og allt sé slétt og fellt innan sambandsins og ekkert sé sjálfsagðra en halda áfram vegferð sem þó er vonlaus í öllu tilliti. Sjálfsblekkingin er augljós. Hún er meiri en hjá forystumönnum já-hreyfingarinnar í Noregi, þeir hafa séð að sér og ætla að hafa hljótt um sig – nema Íslendingar gangi í ESB. Að sá draumur rætist á næstunni er borin von. Við blasir sameiginlegt skipbrot já-hreyfingarinnar í Noregi og ESB-stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar.