24.9.2000

Kirkju- og menningarmiðstöð, Eskifirði

Bjarnason: Kirkju- og menningarmiðstöð
á Eskifirði,
24. september, 2000.

Við höfum fagnað því með ýmsum hætti á þessu margfalda hátíðarári, að styrkur íslensku þjóðarinnar hefur mótast af því, að fyrir 1000 árum féllu tveir straumar í einn farveg, hinn mikli kraftur forfeðranna og boðskapur kristninnar og með því varð til íslensk menning. Minnumst þess, að í klaustrunum voru sögurnar skráðar og til urðu einstæð menningarverðmæti og við siðaskiptin var Biblían þýdd á íslensku og þar með var tryggt, að móðurmálið glataðist ekki. Fyrir trúna orti Hallgrímur Pétursson Passíusálmana.

Ætti okkur Íslendingum að vera betur ljóst en flestum þjóðum, að ekki verður skilið á milli trúar og menningar. Þetta hús, sem vígt er í dag er reist undir þessum merkjum, því að hér er í senn vettvangur til kirkjulegra athafna og aðstaða til að þjóna menningu og listum.

Eftir því sem ég fer víðar þeim mun sannfærðari verð ég um nauðsyn þess, að búa vel að allri lista- og menningarstarfsemi, ef við viljum að íslenska þjóðfélagið standist samkeppni á öllum sviðum. Í þessu efni hafa orðið stórstígar breytingar um heim allan á síðustu árum. Jafnt í höfuðborgum sem stærri bæjarfélögum á landsbyggðinni leggja menn sig fram um að skapa hina bestu starfsaðstöðu fyrir listamenn.

Síðast kynntist ég þessu fyrir fáeinum dögum í Ólympíuborginni Sydney, þar sem íþróttafólkið okkar hefur verið að ná góðum og glæsilegum árangri. Borgin hefur einmitt öðlast heimsfrægð fyrir óperhúsið, sem reist var þar við höfnina fyrir 27 árum og dregur nú að sér tæplega fjórar og hálfa milljón gesta á ári. Er enginn vafi á því að aðdráttarafl þessa sérstæða húss hefur aukið með Sydneybúum sjálfstraust til að ráðast í hið gífurlega stórvirki að halda sjálfa Ólympíuleikana, en enginn einstakur viðburður jafnast á við þá í samtímanum. Samhliða leikunum var einnig lögð mikil áhersla á að kynna gestum borgarinnar hið mikla menningar- og listalíf hennar í söfnum, leikhúsum og tónlistarsölum.

Þegar lagður er grunnur að nýsköpun í menningu og listum er nauðsynlegt að virkja alla góða krafta til sameiginlegs átaks án þess að gera kröfu um, að allir séu steyptir í sama mótið. Með þeim augum hef ég litið á framtíðarsamstarf menntamálaráðuneytisins og Austfirðinga í menningarmálum. Kynnti ég þá hugmynd, að gerður yrði samningur um opinberan stuðning við menningarstarf á Austurlandi. Í því ljósi þykir mér ánægjulegt, að á nýlegum aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi var lögð áhersla á að vinnuhópur sambandsins og Þróunarstofu Austurlands um stefnumótun í menningarmálum lyki vinnu sinni meðal annars með það að markmiði að ganga til samninga við menntamálaráðuneytið á þessu ári um heildarsamning vegna framlaga til ákveðinna menningarverkefna á Austurlandi.

Vænti ég, að gengið verði til viðræðna um þessi mál á næstunni og þar verði með öðru lagt á ráðin um það, hvernig ríkisvaldið geti létt undir með þeim, sem lögðu í það stórvirki að reisa þetta hús, og einnig staðið að því, að hér innan þessara veggja skjóti menningar- og listastarf föstum rótum.

Öllum er okkur ljóst, að án trúar og menningar hefði lífið lítið gildi. Þá er það einnig sífellt að skýrast betur í heimi, þar sem fjarlægðir eru orðnar að engu og flest er að falla í sama mót fjölmiðlunar og markaðssetningar undir heitum alþjóðlegra vörumerkja, að við hvert og eitt sækjum styrk okkar í vaxandi mæli til rótanna í eigin heimabyggð og menningu.

Enginn Íslendingur hefur ögrað hnattvæðingunni í listum af meira afli en Björk, hún hefur náð heimsfrægð sinni á eigin forsendum og án þess að afsala sér sköpunarfrelsinu. Fyrir fáeinum dögum hélt hún blaðamannafund í New York vegna kvikmyndarinnar Myrkradansarans og var að sjálfsögðu spurð um Ísland og áhrif þess á hana sem listamann. Morgunblaðið segir, að hún hafi bent á, að menningararfurinn hefði mikil áhrif á okkur sem þjóð og einstaklinga. Mikil áhersla væri lögð á að veita góða menntun og að varðveita tungumálið. Listalífið væri einnig með miklum blóma og mikið af hæfileikaríku fólki byggi á Íslandi og síðan sagði Björk orðrétt:·Ég fyllist heimþrá þegar ég tala um landið mitt."

Landið í huga Bjarkar er menningararfurinn, móðurmálið, menntun og listalíf og á þeim forsendum skilgreinir hún heimþrá sína. Hið sama á við um okkur öll, þegar við lítum til þess sem gefur fótfestu og styrk. Því er brýnt að huga að þessum þáttum, þegar við viljum skjóta öflugri stoðum undir búsetu í landinu öllu.

Austfirðingar hafa sýnt frumkvæði og dugnað við að skipuleggja menntamál sín með nýjum hætti undir merkjum Fræðslunets Austurlands, þar hefur með þátttöku menntamálaráðuneytisins skapast góð samvinna milli framhaldsskóla, sveitarfélaga og atvinnulífs og lagður hefur verið grunnur að ßsamstarfi við háskóla. Þessi góða og árangursríka samvinna í menntamálum, sem aðeins á eftir að vaxa, ætti að verða okkur fyrirmynd í menningarmálunum, kirkju- og menningarmiðstöðin á Eskifirði skapar ný og heillandi tækifæri á þessu sviði.

Ég óska Eskfirðingum til hamingju með nýju kirkjuna sína og Fjarðabyggð og Austfirðingum öllum með nýju menningarmiðstöðina. Hér hefur verið staðið að ákvörðunum og framkvæmdum af miklum stórhug og metnaði, megi hann setja svip sinn á allt starf, sem hér verður unnið í þágu trúar og menningar, öflugustu stoða íslensks þjóðfélags.

Innilega til hamingju með daginn!