3.6.2011

Í hvaða heimi lifir fyrrv. formaður Framsóknarflokksins?


Á Evrópuvaktinni hafa menn getað fylgst með því undanfarið ár hvernig vandinn á evru-svæðinu hefur vaxið stig af stigi. Fyrir ári töldu stjórnendur Seðlabanka Evrópu og varðmenn evrunnar í einstökum ríkjum að þeir næðu að halda efnahag Grikklands á réttum kili með því að veita neyðarlán í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Stofnað var til samskota og 110 milljörðum evra var veitt til Grikklands. Síðan hefur hið sama verið gert fyrir Íra (85 milljarðar evra) og Portúgali (um 70 milljarðar evra). Þá hefur verið ákveðið að koma á fót varanlegum neyðarsjóði í þágu evrunnar frá og með árinu 2013.

Samhliða þessum alþjóðlegu samskotum til bjargar evrunni og jaðarríkjum hennar hafa ríkisstjórnir þeirra landa sem hlut eiga að máli allar lent í miklum hremmingum. Stjórnarskipti urðu á Írlandi. Forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar hét því að knýja fram lækkun á vöxtunum á neyðarláninu. Í Portúgal verður gengið til kosninga sunnudaginn 5. júní. Í kosningabaráttunni hefur reiði beinst að Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu. Utanríkisráðherra Portúgals telur að hætta sé á því að upp úr sjóði innan ESB verði ekki tekið á málum á nýjan hátt og vísar hann þar bæði til myntsamstarfsins og Schengen-samstarfsins.

Grísku ríkisstjórninni hefur mistekist að fullnægja skilyrðum ESB og AGS frá því í fyrra. Nú er saumað að henni með ströngum fyrirmælum um umbætur, einkavæðingu og víðtæka pólitíska samstöðu um að fara að fyrirmælum ESB og AGS. Þegar við blasir að þessi samstaða næst ekki taka forráðamenn Seðlabanka Evrópu og stjórnmálamenn á evru-svæðinu að tala um að aðrir en kjörnir fulltrúar grísku þjóðarinnar taki að sér einkavæðinguna og stjórn efnahagsmála í landinu.

Fimmtudaginn 2. júní boðaði Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, að skynsamlegt væri að koma á fót fjármálaráðuneyti evru-svæðisins sem tæki að sér stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála í þeim ríkjum sem ekki fullnægðu evru-skilyrðum. Hann sagði að þetta þyrfti ekki að verða dýr stofnun en hún yrði að hafa rétt til að hlutast til um innri málefni evru- ríkjanna.

Þessi orð seðlabankastjórans eru í samræmi við tilraunir framkvæmdastjórnar ESB til að auka íhlutunarvald sitt til að vernda evruna. Leiðtogar ESB-ríkjanna taka afstöðu til tillagna um það efni eftir nokkrar vikur. Í Brussel óttast embættismenn fátt meira en evru-ríkin 17 komi á fót nýrri yfirþjóðlegri stjórn sem gangi inn á það valdsvið sem framkvæmdastjórn ESB hefur mótað fyrir sig. Það er því ekki aðeins spenna í samskiptum einstakra ríkja heldur óttast embættismannaaðallinn í Brussel að hann verði sniðgenginn komi evru-ríkin sér saman um nýja yfirþjóðlega stjórn.

Þegar allt þetta er haft í huga og margt fleira sem sýnir að evru-samstarfið er undirrót meiri spennu innan ESB en þekkst hefur í sögu sambandsins birtist grein hér á landi eftir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, um að ekkert af þessu sé evrunni eða Evrópusambandinu að kenna. Fátt sé „fjær sanni“ en réttmætt sé að kenna evrunni og ESB um vanda Grikkja, Portúgala, Íra, Spánverja og fleiri. ESB og evran hafi frekar dregið úr vanda þessara þjóða en hitt!

Í grein sinni segir Jón Sigurðsson meðal annars:

„Engin þessara þjóða kennir Evrópusambandinu eða evrunni um vandræði sín. Öllum er ljóst að þau eru heimatilbúin í hverju landi.“

Þegar þessi orð eru lesin vaknar spurning um hvar höfundur þeirra hafi haldið sig síðustu mánuði. Hvar honum hafi tekist, þrátt fyrir áhuga sinn á þessu máli, að komast hjá því að verða var við óvildina í garð ESB meðal þessara þjóða.

Þá segir Jón Sigurðsson:

„Vonandi verða þessi sjálfskaparvíti ekki til þess að veikja stöðu aðildarríkja ESB eða minnka sjálfstætt svigrúm þeirra. En jafnvel þótt þessi vandræði verði ekki rakin til ESB eða evrunnar, fer ekki hjá því að efasemdir vakni. Og lýðskrumarar notfæra sér þetta með þjóðernisöfgum til fylgisaukningar. Allt þetta er orðið greinilegt í Evrópu um þessar mundir. Og ekki vantar bergmálið hér heima.“

Enn má spyrja hvar hefur Jón Sigurðsson haldið sig? Þunginn í málflutningi þeirra sem segja að annaðhvort verði Grikkir að sætta sig við að völdin verði tekin af stjórnvöldum þeirra í efnahagsmálum eða ríki þeirra verði gjaldþrota bendir ekki til þess að „sjálfstætt svigrúm“ einstakra ríkja sé mikið þegar í harðbakkann slær. Þá hníga umræðurnar ekki að því að auka þetta svigrúm heldur minnka enn frekar, setja strangari reglur og fylgja þeim fram af markvissum þunga.

Með „lýðskrumurum“ vísar Jón vafalaust til flokks eins og Sannra Finna sem fékk ævintýralega mikinn framgang í nýlegum þingkosningum í Finnlandi. Forystumaður þess flokks segir að hann telji nær að verja takmörkuðum skatttekjum finnska ríkisins til að bæta innviði finnsks samfélags en nota það til að bjarga þýskum og frönskum bönkum með neyðarlánum til Íra, Grikkja og Portúgala. Ekkert af þessu fé komi þeim þjóðum að gagni, því að þess sé krafist af þeim að þær herði sultarólina þeim mun meira eftir því sem þær fái meira fé að láni. Að kenna þetta við „lýðskrum“ er engum sæmandi.

Jón virðist að vísu skynja að ekki er allt sem sýnist í hans eigin málflutningi þegar hann segir:

„Þýskir og franskir bankar munu áreiðanlega verða að taka á sig eitthvað af þeim byrðum sem hingað til hafa lent á almenningi í þeim þjóðríkjum sem verst standa.“

Íslendingar neituðu að verða við kröfu ríkisstjórnarinnar og annarra já-manna í Icesave-málinu um að taka að sér að ábyrgjast skuldir einkarekinna banka. Vandi stóru bankanna á evru-svæðinu stafar af því að þeir lánuðu of mikið og án lítilla trygginga. Bankahrunið sprengdi bóluna. Þá taka stjórnvöld Þýskalands, Frakklands og Seðlabanki Evrópu höndum saman um að vernda bankakerfið en láta almenning borga brúsann.

Síðustu daga hefur komið í ljós að stjórnendur Seðlabanka Evrópu eru fastari fyrir í vörn sinni fyrir bankakerfið en stjórnmálamennirnir. Lyktir þess ágreinings skýrast á næstunni. Niðurstaðan verður líklega sú eins og venjulegt er innan ESB að vandanum verður ýtt á undan sér frekar en að taka á honum. Staðreyndir málsins eru svo erfiðar að enginn hefur pólitískt þrek til að horfast í augu við þær, betra er að líta undan. Að þessu leyti gengur Jón Sigurðsson í takt við ráðandi öfl innan ESB. Þau vilja að sjálfsögðu skella skuldinni á Grikki, Íra og Portúgali. Þeir eru of fámennir og máttlitlir til að bjóða Brusselvaldinu byrginn. Skyldi hljóðið breytast þegar kemur að Spánverjum eða Ítölum?