14.12.1995

Leið mín inn á netið - aðventuræða hjá lögfræðingum

Leið mín inn á netið
Ræða á jólafundi Dómarafélagsins, Lögmannafélagsins og Lögfræðingafélagsins
14. desember 1995.

Með hálfum huga tók ég að mér að tala hér í dag, sérstaklega ef til þess væri ætlast, að ég færi með gamanmál eða flytti jólasögur. Þegar ég sagðist mundu hvorugt gera en var samt beðinn að koma vildi ég ekki hafna því góða boði að fá að vera með ykkur.

Starfsumhverfi okkar tekur stöðugum breytingum vegna margvíslegra nýjunga og nýrra viðhorfa. Má segja, að við þurfum að verja töluverðum tíma næstum daglega til að átta okkur á breytingunum og hvernig við ætlum að bregðast við þeim. Gefum við okkur ekki þennan tíma eða óttumst ný tæki eða starfsaðferðir getum við einfaldlega dregist aftur úr eða hreinlega dagað uppi. Má minna á þann boðskap, sem setur æ meiri svip á umræður um menntamál, að æfi mannsins skiptist ekki lengur í nám, starf og eftirlaunatíma heldur er nauðsynlegt að vera alltaf að læra til að halda í við samtímann og þróunina. Ég ætla einmitt að víkja að þessu í máli mínu og fara nokkrum orðum um upplýsingatæknina, kynni mín af henni og framtíðarviðhorf.

Bið ég ykkur að afsaka, þótt erindi mitt sé persónulegt. Það er hins vegar í samræmi við frásagnir margra annarra, sem kynna öðrum hina nýju tækni. Þeim finnst best að gera það frá eigin bæjardyrum. Að þessu leyti líkjumst við þeim, sem eru að boða trú og sanna ágæti hennar með því að lýsa eigin reynslu.

Á námsárum mínum í Háskólanum vann ég á Morgunblaðinu á sumrin og með námi. Á þeim tíma var unnið við ritvélar og blý. Innan við áratug síðar hóf ég þar aftur störf og þá hafði ný tækni haldið innreið sína, fyrst í setjarasal, þar sem setjaravélar voru horfnar og innritunarstúlkur sátu við tölvur. Í staðinn fyrir að raða blýi saman og mynda síðurnar, stóðu menn við borð og límdu upp filmur. Síðan hurfu innritunarstúlkurnar smátt og smátt, því að tölvurnar fluttust til blaðamanna, sem skrifuðu texta sinn næstum milliliðalaust inn á síður blaðsins.

Ég vann meðal annars við að stjórna meðferð á erlendum fréttum og þar urðu breytingar jafnörar. Unnt var að sækja fréttir fyrir tilstilli tölvu beint inn á ritstjórnarskrifstofur blaða erlendis, myndir voru allar sendar frá útlöndum frá tölvu inn á tölvu og þar fram eftir götunum. Til að tileinka sér þessa tækni urðu blaðamenn sífellt að vera í endurhæfingu. Síðan ég hætti á Morgunblaðinu hefur tækninni vafalaust fleygt mikið fram og hæfi ég þar störf að aftur, þyrfti að forrita mig upp á nýtt, til þess að ég yrði gjaldgengur sem starfsmaður við blaðið að nýju.

Eitt af því, sem ég kynntist, var, að ég gat unnið á tölvu heima hjá mér og bæði lesið efni úr móðurtölvu blaðsins og sent til hennar frumsamið efni. Notaði ég til þess modem eða mótald, sem var 2.400 bás, það er sendi 2400 tákn á sekúndu. Mótaldið breytir tölvumerkjum í og úr hljóðmerkjum, svo að senda megi gögn með símalínu.

Þegar ég lít til baka, finnst mér þessi kynni mín af töluvtækninni og hvernig hana mátti tengja við síma, með því besta, sem ég hef lært, eftir að ég lauk námi mínu í lagadeildinni. Eins og kennslan þar hefur dugað vel sem veganesti á mörgum vinnustöðum, gerir verkmenntunin, sem ég hlaut hjá tæknimönnum á Morgunblaðinu. mér kleift að beita hinni nýjum vinnubrögðum.

Starfsumhverfið á Alþingi að því er tölvubúnað snerti var allt annað en á Morgunblaðinu. Þessu kynntist, þegar ég settist inn á skrifstofu mína sem þingmaður. Ég ákvað þá að hverfa frá PC yfir í Macintosh-umhverfi, af því að mér þótti það notendavænna við alla ritvinnslu.

Ég hélt áfram að skrifa greinar fyrir Morgunblaðið en sleit beinlínusambandi við móðurtölvu þess. Í stað þess að senda greinarnar beint af heimatölvu minni afritaði ég þær á diskling og boðsendi til blaðsins. Þar tóku starfsmenn ritstjórnar við disklingnum og færðu efnið af honum inn í blaðtölvuna. Kostaði þetta töluvert umstang og ferð milli húsa.

Þar sem mér þótti þingið frekar þungt í vöfum, var ég sjálfur meira á höttunum eftir tæknilegum nýjungum en ella. Í breska blaðinu Sunday Times rakst ég fyrir rúmu ári lýsingu á nýrri þjónustu fyrir lesendur þess. Þeir gæti fengið efni blaðsins á einhverju, sem nefndist Internet. Skömmu síðar var sagt frá því, að ungir menn í Reykjavík hefðu stofnað fyrirtækið Miðheima og stefndu þeir að því að veita almenningi aðgang að Internetinu fyrir hóflegt verð. Einn þessara manna, Arnþór Jónsson, er sellóleikari og hafði tekið þátt í tónlistarflutningi með eiginkonu minni, svo að ég bað hana um að hnippa í hann fyrir mig. Dag nokkurn komu fulltrúar Miðheima í heimsókn. Við sátum nokkra klukkutíma yfir heimatölvu minni, því að þeir voru enn að þreifa sig áfram. Ég fékk mér nýtt mótald, 14.400 bás, það er miklu fljótvirkara en hið gamla, þetta sendir 14.400 tákn á sekúndu í stað 2400 með hinu eldra.

Er ástæðulaust að orðlengja þetta, því að hinn 4. nóvember 1994 sendi ég sjálfum mér fyrsta tölvubréfið í gegnum Internetið og var þar með kominn inn í Netheiminn, sem einn af viðskiptavinum Miðheima. Skömmu síðar sendi ég gömlum starfsfélaga á Morgunblaðinu tölvubréf og fékk svar, þar sem sagði meðal annars:

"Það var sérlega ánægjulegt að fá frá þér línu á þessu undursamlega neti sem umlykur heimsbyggðina og er til þess fallið að færa mannanna börn nær hvert öðru ... Jafnframt er þetta vitaskuld sérlega nútímaleg og áhrifamikil leið fyrir almenning í þessu landi að vera í sambandi við kjörna fulltrúa sína á hinu háa Alþingi."

Síðan skipta tölvubréfin, sem ég hef fengið líklega fremur þúsundum en hundruðum. Er skemmst frá því að segja, að með aðstoð Miðheima setti ég upp heimasíðu á netinu 23. janúar 1995. Þegar í það var ráðist urðu umræður um það í tölvubréfum milli mín og Miðheima, hvort ástæða væri til þess að vekja athygli á síðunni með fréttatilkynningu eða öðrum hætti, því að á þessum tíma, þótt ekki sé nema um það bil ár síðan, var netið næsta framandlegt. Ég taldi óráðlegt að gera eitthvað veður út af þessu, menn kynnu að líta á framtakið sem eitthvert rugl. Síðan hef ég ekki þurft að hafa áhyggjur af kynningu á síðunni, hins vegar hef ég gætt þess að halda henni við með því að skrifa þar vikulega pistla og setja inn ræður mínar og greinar. Held ég að það skipti máli, því að á ferðalagi mínu í Netheimum og heimsóknum á síður manna þar, missi ég fljótt áhuga, ef síðurnar bera vott um hirðuleysi.

Eftir að ég komst í netsamband þarf ég ekki að afrita á disklinga neitt af því, sem ég sendi til birtingar í Morgunblaðið. Ég sendi efnið einfaldlega í tölvupósti og einnig í önnur blöð, ef þau eru nettengd og fer það ekki á pappír, fyrr en blaðið er prentað.

Þegar ég kom í menntamálaráðuneytið, sá ég fljótt, að innan dyra í því ríkti mikill metnaður í tölvumálum. Málaskrá ráðuneytisins er inn á tölvu og í raun einstök, því að erindin, sem ráðuneytinu berast skipta jafnvel þúsundum á mánuði og er unnt að halda utan um þau með skránni. Skólakerfið er einnig mjög tölvuvætt. Kynntist ég því raunar, áður en ég tók við ráðherrastarfi, því að í kosningabaráttunni voru ýmsir kennarar í tölvusambandi við mig og við skiptumst á skoðunum um það, hvernig leysa mætti kennaraverkfallið.

Innan ráðuneytisins er góð þekking á tölvumálum og varð ég strax mjög tölvuvæddur í störfum mínum og nú eru heimatölva mín og ráðuneytistölva samtengdar, þannig að tölvupóst get ég skoðað jafnt heima og í ráðuneytinu. Eins og ég sagði skipta bréfin og orðsendingarnar, sem ég hef fengið á þessu rúma ári þúsundum. Sé ég á skránni í tölvu minni í ráðuneytinu, að um hana hafa nú farið rúmlega 2200 boð á þeim tæpu átta mánuðum, sem ég hef starfað sem ráðherra.

Áhugi minn á þessu sviði hefur valdið því, að margir, sem vinna að hugbúnaðargerð, hafa kynnt mér starfsemi sína. Einnig hef ég í heimsóknum í marga skóla fengið tækifæri til að kynnast þeim mikla áhuga, sem er á að nýta sér tölvurnar innan þeirrra. Raunar hefur þetta opnað mér nýja sýn á skólakerfið og getu þess og ungs fólks til að nýta sér þessa tækni. Er enginn vafi á því, að fyrirtæki á borð við Oz er á heimsmælikvarða og það hefur ómetanlega þýðingu fyrir íslenskan hátækniiðnað, að það starfi hér í því alþjóðlega umhverfi, sem ríkir í Netheimum. Þar sitja eðlisfræðingar og búa til forrit, sem eru með ólíkindum. Fyrirtækið er að vinna að því, að við getum ferðast um Netheima í þrívídd og hefur vegna forystu sinnar náð að gera samninga við Tævani og Japani, sem eru í fremstu röð í þessari tæikniþróun.

Í síðustu viku var skýrt frá því, að hluti dóma Hæstaréttar væri kominn út á margmiðlunardiski. Þar með eru dómarnir komnir á það form, að unnt ætti að vera að setja þá inn á netið og selja þeim, sem vilja nýta sér þjónustuna, aðgang að henni. Þannig er hver upplýsingalindin eftir aðra að opnast fyrir þá, sem kunna leiðina að þeim. Lítið dæmi um það, hvernig unnt er að nýta sér netið í þessu skyni langar mig að nefna.

Við Össur Skarphéðinsson alþingismaður sitjum saman í Þingvallanefnd. Hann er sérstakur áhugamaður um líðan vatnafiska og hefur lagt sig fram um að kynna sér örlög urriðans í Þingvallavatni. Rannsóknir hans hér á landi voru komnar á það stig, að hann taldi nauðsynlegt að fá samanburð við erlend vötn, til dæmis varðandi veiðimagn í vötnum á borð við Þingvallavatn. Gekk honum illa að leita að þessum upplýsingum. Alþingi hefur nú opnað þingmönnum leið inn á netið og þar hóf Össur leit og leið á ekki á löngu, þar til hann var kominn í samband við urriðafræðinga í mörgum löndum. Hefur það samband síðan leitt til þess, að Þingvallanefnd hefur á döfinni að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um urriða, þróun hans og þroska.

Annað dæmi er, að boð bárust um það inn á netið á liðnum vetri, að Alþingi væri að vinna eitthvert óhæfuverk með breytingum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þessi misvísandi boð leiddu til þess, að bréfum rigndi yfir mig utan úr heimi, þar sem hvatt var til þess, að þingmenn færu fram með gát. Nú veit ég af Íslendingi, sem hlaut flugmenntun í Bandaríkjunum en býr við það, að próf hans þar er ekki gjaldgengt hér. Hann sendi frásögn um þetta inn á póstlista flugáhugamanna á netinu og fær samúðar- og stuðningsyfirlýsingar svo tugum skiptir, um leið og þröngsýni íslenskra flugmálayfirvalda er formælt.

Góðir áheyrendur!

Það, sem ég hef tíundað hér, er aðeins lýsing á aðdraganda þess, sem er í vændum, því að við stöndum á þröskuldi nýrra tíma við samruna tölvu- og fjarskiptatækni. Ég hef í raun aðeins verið að lýsa því, sem gerist á aðventu þessara þáttaskila, ef marka má mat manna á borð við Bill Gates, tölvuundrabarnið, sem varð margmilljarðamæringur á framsýni sinni og kunni að nýta sér tækifæri, eftir að hafa lesið litla frétt í tölvutímariti fyrir tuttugu árum.

Í nýrri bók sinni, The Road Ahead eða Leiðin framundan, lýsir Gates hinni nýju fjarskiptatækni, sem gerir fjarlægðir að engu. Hann telur, að hugtakið upplýsingahraðbraut gefi ranga mynd af því, sem um er að ræða. Bæði kunni það að vekja þá hugmynd, að ríkið þurfi að leggja brautina, sem yrðu mikil mistök, og eins sé ekki um braut að ræða heldur eins konar markaðstorg, þar sem hver geti komið og náð á svipstundu í upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Menn muni versla, sinna áhugamálum sínum eða koma skoðunum sínum á framfæri á þessu nýja torgi. Þeir geti látið tölvur semja einkadagskrár í útvarpi og sjónvarpi með því að draga saman efni í samræmi við áhugamál sín. Sömuleiðis verði unnt að gefa tölvum fyrirmæli um að taka saman efni í einkafréttatíma og hlusta á hann eða lesa pistilinn, þegar tóm gefst. Síðan verður unnt að fá tafarlausar fréttaskýringar hvaðan sem er og álit þeirra fréttaskýrenda, sem falla best að skoðunum hvers og eins.

Gates segir, að vinsældir Internetsins sé mikilvægasti áfanginn í tölvuheiminum síðan IBM PC einkatölvurnar komu til sögunnar 1981. Þegar við heyrum þetta ártal, minnumst við þess, hve mikið hefur gerst á þessum árum og hve starfsumhverfi okkar hefur breyst. Hef ég einmitt í þessum orðum lýst eigin reynslu af tölvunotkun á þessum tíma. Ég sagðist hafa farið út úr húsi mínu í fyrstu með 2400 bás mótaldi. Nú er íslenska símakerfið allt orðið stafrænt og ISDN-kerfi þess á að geta flutt 64.000 til 128.000 bás, sem hefur í för með sér, að hljóð og kvikmyndir verða fluttar um símalínur. Hér ætla ég ekki að lýsa því, sem við blasir með þeirri tækni.

Við höfum nú innan seilingar, hvar sem við erum stödd á jarðarkringlunni, meiri upplýsingar en nokkru sinni fyrr. Á netinu er til dæmis að finna mikið af lögfræðilegum upplýsingum. Stjórnsýslan mun nýta sér tæknina í vaxandi mæli. Menntamálaráðuneytið hefur verið brautryðjandi í hópi íslenskra ráðuneyta með heimasíðu sinni. Þar er ætlunin að hafa lög og reglugerðir, sem varða starfssvið ráðuneytisins.

Tæknin mun enn auðvelda okkur að nýta allar þessar upplýsingar. Mér finnst fráleitar hugmyndir um að að setja aðgangi að þessum lindum eihverjar almennar skorður, netheimurinn endurspeglar aðeins jarðheima, þar sem hver og einn verður að sjá fótum sínum forráð.

Að lokum þetta: Frá mínum bæjardyrum séð hefur verið ævintýri líkast að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessari þróun. Hún opnar nýjar víddir, eykur frelsi og svigrúm einstaklingsins. Aðgangur að upplýsingum er leið úr ánauð fávisku, frá hindurvitnum til raunsæis. Hlýtur að vera sérstakt gleðiefni, hvað Íslendingar hafa verið fljótir og leiknir við að nýta sér þessa nýju tækni. Það tryggir betur en flest annað stöðu okkar í samfélagi þjóðanna.