5.12.1995

Spástefna Stjórnunarfélagsins

Ræða á Spástefnu Stjórnunarfélags Íslands
Menntamál - meginstraumar á Íslandi til aldamóta
5. desember 1995


Ágætu fundarmenn!

Metnaðarfullt starf er unnið í íslenskum skólum. Yfirstjórn þeirra er að breytast, grunnskólinn að fara til sveitarfélaga, framhaldsskólar og háskólar að verða sjálfstæðari. Samkeppni á eftir að aukast í skólakerfinu. Bæði milli skóla og innan þeirra. Minnumst þess að skólastarf er hið arðbærasta, sem unnið er fyrir opinbert fé.

Þátttaka mín í þessari spástefnu er til marks um það að Stjórnunarfélag Íslands viðurkennir hlut menntunar og skólastarfs við mat á grundvallarþáttum íslensks þjóðfélags og atvinnulífs. Þá viðurkenningu ber að þakka.

Eftirfarandi meginhugmyndir einkenna stefnumótun í menntamálum fram að aldamótum. Í fyrsta lagi að íslenskt menntakerfi fylgi eftir örum samfélagsbreytingum en sé ekki einangrað og ofverndað. Í öðru lagi verður áhersla á símenntun í þekkingarsamfélaginu. Í þriðja lagi breytist hlutverk ríkisvaldsins í menntamálum og í fjórða lagi eykst samkeppni í menntamálum í víðum skilningi.


I. Menntakerfið verður að fylgja eftir örum samfélagsbreytingum
Í samtímanum eru breytingar svo örar, að við eigum fullt í fangi með að fylgjast með þeim. Tækifærin til að afla okkur þekkingar eru þó fleiri en nokkru sinni fyrr. Það eru þrír meginþættir í samfélagsþróuninni sem kalla á hraðar breytingar á menntakerfinu, en þeir eru upplýsingatæknin, alþjóðasamstarf og hagnýting rannsókna og vísinda.

Upplýsingatæknin, alþjóðasamstarf og rannsóknir og vísindi
... krefjast þess að menntakerfið taki breytingum

Þessir þrír þættir einkenna allar umræður um menntamál á alþjóðavettvangi og í hvítbók sem er í lokavinnslu á vegum EFTA er lögð áhersla á að vandamál skapist hjá ýmsum stofnunum samfélagsins, vegna þess að þær fylgi ekki eftir þróun á þessum þremur sviðum. Upplýsingatæknin, alþjóðasamstarfið og rannsóknir hafi í raun farið fram úr skólakerfinu. Íslenskt skólakerfi verður að taka mið af þessari þróun og starfa í takt við hana. Til að svo megi verða er mikilvægt, að skólakerfið sé sveigjanlegt og taki fagnandi á móti breytingum en setji sig ekki í varnarstöðu.

Þá verður kennaramenntun að taka mið af óhjákvæmilegum breytingum, auk þess sem starfsumhverfi og starfsaðferðir kennara verða að vera sveigjanlegri. Í stað þess að spyrja hvaða kennsluaðferðir hafi reynst vel til þessa verða menn að spyrja: Hvaða kröfur gerir nútíma umhverfi til nemenda, sem eru að ljúka námi? Þegar því hefur verið svarað verða menn að taka afstöðu til kennsluaðferða. Ný afurð, ef mér leyfist að orða það svo, kallar á nýja framleiðsluaðferð, á þessu sviði eins og öðrum. Hitt er svo ætíð spurning, hvort við sjáum nú, hvað verður nemendanum notadrýgst eftir 10 til 15 ár. Þess vegna má ekki draga úr áherslu á algild vinnubrögð og þekkingu.


Upplýsingatæknin, alþjóðasamstarf og rannsóknir og vísindi
... eru tæki til að bæta menntakerfið

Upplýsingatæknin, alþjóðasamstarf og rannsóknir hafa haft svo mikil áhrif á samfélagið, að skólakerfið verður að bregðast við og koma til móts við þessa þróun. Einnig má horfa á þetta frá öðru sjónarhorni og segja, að upplýsingatæknin, alþjóðasamstarf og rannsóknir geti haft það mikil jákvæð áhrif á íslenska skólakerfið að við eigum að nota þessa þætti, sem tæki til að bæta það. Ef við neitum að horfast í augu við staðreyndir á þessum miklu breytingatímum, bíður okkar það eitt að daga uppi eins og nátttröll.


Upplýsingatæknin
Þróun upplýsingasamfélagsins hefur nú þegar sett mark sitt á menntakerfi víða um heim. Fyrir tilstilli tölvutækninnar getum við á örskammri stundu komist í fjarlægar upplýsingalindir og ausið úr þeim án mikils tilkostnaðar. Í menntamálaráðuneytinu er nú unnið að mótun upplýsingastefnu og gert er ráð fyrir, að starfinu verði lokið skömmu eftir áramót. Með þeirri stefnumótun vill menntamálaráðuneytið vinna að því, að menntakerfið færi sér upplýsingatæknina í nyt, þannig að íslenskir nemendur hljóti betri menntun en ella. Með nýrri tækni er einnig unnt að efla fullorðinsfræðslu og símenntun. Jafnframt er hægt að stórauka upplýsingamiðlun um skólastarf og auka hagræðingu í skólakerfinu.


Alþjóðasamstarf
Með virku alþjóðlegu samstarfi gefst Íslendingum kostur á að fylgjast náið með þróun á alþjóðavettvangi og alþjóðasamstarf veitir tækifæri til að meta og velja úr það besta, sem býðst í nágrannaríkjunum og staðfæra það miðað við aðstæður hér á landi. Einnig gefur það Íslendingum tækifæri til að kynna öðrum þjóðum það helsta, sem er á döfinni hér á landi. Í íslensku skólakerfi verður að leitast við að taka mið af kröfum, sem gerðar eru til nemenda í þeim löndum, þar sem menntun er best á hverju sviði. Útrás íslenskra fyrirtækja og einstaklinga á alþjóðamörkuðum krefst vel menntaðra starfsmanna. Vaxandi aðsókn að erlendum háskólum eykur samkeppni milli nemenda um aðgang að bestu háskólunum. Til að auðvelda þátttöku í þeirri keppni, þarf undirbúningur íslenskra nemenda að vera góður og námskrá og kröfur sambærilegar og í öðrum löndum. Því er eðlilegt að íslenskir nemendur ljúki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra.


Rannsóknir og vísindi
Öflugt rannsóknar- og þróunarstarf er forsenda framfarasóknar í íslensku þjóðlífi. Ber að hvetja til virkara samstarfs fyrirtækja, háskóla og háskólastofnana á sviði hagnýtra rannsókna og hvetja til sem víðtækastrar þátttöku þessara aðila í fjölþjóðlegu samstarfi um rannsóknir og þróun, einkum á vettvangi Evrópusamvinnu. Vísindasamfélagið er órjúfanlegur hluti menntakerfisins. Þar fer jafnframt fram starf, sem á að vera til þess fallið að bæta menntakerfið auk þess sem vísindasamfélagið leggur traustan grunn að öflugu atvinnulífi.II. Símenntun í þekkingarsamfélaginu
Ég vitnaði hér að framan í stefnumótun innan EFTA en slík vinna fer fram víða í fjölþjóðlegu samstarfi. Annað dæmi er menntastefna 21. aldarinnar sem verið er að móta á vegum UNESCO. Drög að henni voru kynnt á UNESCO þingi í París í lok október síðastliðnum. Í ræðu, sem Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti á ráðstefnunni sagði hann, að fram til þessa hefði fólk skipt lífsferli sínum í þrennt: nám, starf og eftirlaunaár. Nú yrði að breyta þessu og fólk að tileinka sér nýja þekkingu allt lífið. Er þetta kjarni hinnar nýju stefnu UNESCO. Ég vil taka undir þetta viðhorf. Í því felst viðurkenning á nýju hlutverki menntakerfisins og skyldu þess til að þjóna öllum án tillits til aldurs. Við nýja skilgreiningu á menntakerfinu þarf að taka tillit til þess, að skólar þurfa að mennta æ fleiri ungmenni á sama tíma og spurn eftir hámenntuðu vinnuafli eykst. Jafnhliða aukningu á hefðbundnu skólastarfi verða menntastofnanir að opna dyr sínar fyrir þeim, sem þegar eru á vinnumarkaði. Þeim er boðin framhalds- eða endurmenntun með símenntun og fjarnámi. Þessi áhersla á símenntun á eftir að verða enn skýrari því árið 1996 verður ár símenntunar í Evrópu.


III. Breytt hlutverk ríkisvaldsins með aukinni valddreifingu
Ríkisvaldið er að endurskilgreina hlutverk sitt í menntamálum. Í stað þess að axla alla ábyrgðina er hún flutt til sveitarfélaga, foreldra og skólanna sjálfra oft í samvinnu við atvinnufyrirtæki.

Valddreifing
Í bók sinni Frelsinu, sem kom út fyrir 150 árum, segir John Stuart Mill, að andmæli gegn ríkismenntun eigi við rök að styðjast. Gilt sé að andmæla því, að ríkið stjórni skólanum, en alls ekki hinu, að ríkið lögbjóði skólagöngu. Ríkið eigi ekki að annast alla menntun þjóðarinnar eða drjúgan hluta hennar. Vildi hann, að foreldrarnir bæru hita og þunga þessa þáttar í lífi barna sinni, þótt sett yrði öryggisnet fyrir hina efnaminni og munaðarlausa.

Þróunin er í þessa átt en þó með þeim formerkjum að um sjóði ríkisins fara fjármunir til skólastarfs en foreldrunum er veitt meira vald en áður til að ráðstafa þeim. Dæmi um þetta sjáum við jafnt á Nýja Sjálandi og í Svíþjóð.

Hér hefur hlutverk ríkisvaldsins verið endurskilgreint á þann veg, að sveitarfélög eiga að taka alfarið við rekstri og stjórnun grunnskóla frá 1. ágúst 1996. Skólarnir eru ekki fluttir í hendur foreldranna en til sveitarfélaganna, um leið og fest hafa verið í lög í fyrsta sinn ákvæði um foreldraráð við grunnskólana.

Í frumvarpi til nýrra framhaldsskólalaga eru ákvæði í anda valddreifingar. Þar nefni ég til dæmis tillöguna, um að kennarar og nemendur hafi ekki atkvæðisrétt í skóla-nefndum. Þessar nefndir taka mikilvægar ákvarðanir um fjármál skólanna. Ekki væri unnt að veita þeim það vald, ef menn sætu þar og ráðstöfuðu fjármunum til sjálfra sín.

Skýrasta dæmi um valddreifingu er rekstur einkaskóla. Úr ríkissjóði á að veita styrk til einkarekinna framhaldsskóla, enda sé gerður verksamningur um starfsemi þeirra. Framlög til einkarekinna grunnskóla verða hins vegar ákveðin af sveitarfélögum. Það er mikill misskilningur, að einkaskólar séu eitthvað óæðri ríkis- eða sveitarstjórnarskólunum, eins og gefið hefur verið til kynna til dæmis í umræðum um nýjan Listaháskóla, þar sem farnar eru ótroðnar slóðir.


Mikilvægari stefnumótun
Sagt hefur verið, að ríkið ætli að afsala sér allri ábyrgð í skólum. Þessi gagnrýni er á misskilningi byggð. Ríkisvaldið gegnir áfram mikilvægu hlutverki varðandi stefnumótun og eftirlit í skólastarfi. Það mun áfram bera meginþunga af stefnumörkun í skólakerfinu en í henni felst til dæmis vinna við námskrárgerð. Mun hún setja sterkan svip á stefnumótandi starf ríkisins í menntamálum á næstunni.


Kröfur ríkisins um árangur skóla
Eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins er að setja ákveðnar kröfur um árangur skóla og á sú áhersla eftir að verða mikilvæg í skólastarfi næstu árin. Krafan um gæðastjórnun í skólum er sett fram sem eðlilegur hluti af auknu sjálfstæði og sjálfsforræði skólanna.


IV. Samkeppni í skólakerfinu eykst
Allt sem hér hefur verið nefnt hefur þau áhrif að samkeppni í skólakerfinu eykst verulega á öllum sviðum þess.

Samkeppni meðal nemenda
Aukin áhersla á próf leiðir til meiri samkeppni á milli nemenda. Einnig leiðir meiri áhersla á umbun í samræmi við árangur til meiri samkeppni á meðal nemenda. Jafnframt ber að auka frelsi nemenda til að velja á milli skóla.


Samkeppni meðal skóla
Samræmd próf og upplýsingagjöf um þau auka einnig samkeppni á milli skóla. Meðaleinkunnir samræmdra prófa, ásamt útskýringum, skulu öllum aðgengilegar. Sömuleiðis veldur gæðamat skóla því, að samanburðurinn verður auðveldari. Það, sem þó mun án efa hafa mest áhrif á samkeppni á milli skóla, er, að fjárveitingar til þeirra séu ákvarðaðar í samræmi við fjölda nemenda í skólum og árangur skólanna.


Samkeppni meðal þjóða
Síðast en ekki síst mun aukinnar samkeppni gæta á meðal þjóða. Nemendur og vinnuafl verða hreyfanlegri og flestar þjóðir leggja nú mikla áherslu á menntað vinnuafl. Til að standast þá samkeppni verður að styrkja tungumálanám, notkun upplýsingatækni, fræðslu um þjóðfélagið og alþjóðakerfið, auk þess sem ferli ákvarðana hér heima og erlendis er kynnt. Í þessu tilliti er mikilvægt að sett séu markmið fyrir skóla og atvinnufyrirtæki, svo að kraftar nýtist sem best í þágu þjóðarheildarinnar og styrki stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.


Góðir áheyrendur!
Í sjálfu er ekki mikið þrekvirki að orða skynsamlega stefnu í menntamálum. Öllu erfiðara getur hins vegar orðið að hrinda henni í framkvæmd. Tækin til þess felast ekki síst í því, að skilgreina árangur með samræmdum hætti. Þessi tæki eru að verða til í skólakerfinu. Raunar eru ekki allir á einu máli, um að nota megi hugtök eins og þjónusta og samkeppni, þegar rætt er um skóla. Ef þessi orð eru bannfærð, þegar rætt er um skóla, hvernig geta þeir búið nemendurna, viðskiptavini sína, undir lífið, þar sem þjónusta og samkeppni eru leiðarljós til góðs árangurs.

Heimsóknir mínar í marga skóla hafa jafnan aukið bjartsýni vegna þess metnaðar, sem alls staðar birtist. Setjum okkur metnaðarfull markmið í menntamálum, með þeim ásetningi að ná þeim. Það gerum við þó ekki á traustum og heilbrigðum grunni nema efnahagur þjóðarinnar sé góður og hún átti sig á gildi fjárfestingar í menntun, menningu, rannsóknum og vísindum.