24.11.1995

Æðri tæknimenntun

Ávarp Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra
við setningu ráðstefnu um æðri tæknimenntun
24. nóvember 1995.

Góðir ráðstefnugestir!

Í upphafi máls míns vil ég lýsa yfir ánægju minni með þetta framtak félaga tæknifræðinga og verkfræðinga. Þessi félög hafa áður sýnt einlægan og raunsæjan áhuga á því að efla menntun á fagsviðum sínum. Hafa þau í ýmsum efnum verið brautryðjendur. Þess vegna er ástæða til þess að fagna frumkvæði félaganna hér í dag, þar sem rætt er um spurninguna: Verður Tækniháskóli Íslands veruleiki fyrir aldamót?

Undir fyrirsögninni er unnt að koma að málum úr ýmsum áttum. Ég vil nota þetta tækifæri hér til að fara nokkrum orðum almennt um breytingar á háskólastiginu, sem ég tel skipta máli fyrir æðri tæknimenntun, þótt þær snúist ekki allar um hana.

Í stuttu máli er verulegra breytinga að vænta á háskólastiginu. Lög um listnám á háskólastigi voru samþykkt á Alþingi í fyrra. Fyrir tæpum tveimur vikum var stofnað félag til að standa að baki skólans, en gert er ráð fyrir, að hann verði sjálfseignarstofnun með verksamning við ríkið og Reykjavíkurborg. Vandinn í málinu er, að Reykjavíkurborg virðist ætla að halda að sér höndum, þvert ofan í það, sem vænst var, þegar hugmyndin um listaháskólann var í mótun. Takist að hrinda henni í framkvæmd tel ég, að merkur áfangi hafi náðst í þróun íslenska skólakerfisins, ekki aðeins vegna þess, að nýtt nám verði í boði, heldur einnig vegna hins, að skólinn starfar samkvæmt nýju skipulagi.

Innan menntamálaráðuneytisins er nú að hefjast vinna við að semja frumvarp til laga um nýjan Uppeldisháskóla Íslands. Ætlunin er, að hann taki við hlutverki Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Þroskaþjálfaskóla Íslands og Íþróttakennarskóla Íslands. Er ætlun mín, að þetta frumvarp verði lagt fram á Alþingi eins fljótt og kostur er. Er ljóst, að óskir munu jafnframt koma fram um töluverðar framkvæmdir á Kennaraháskólasvæðinu, komi uppeldisháskóli til sögunnar.

Þá vil ég geta þess, að Samstarfsnefnd háskólastigsins, en í henni sitja fulltrúar 13 skóla, samdi á síðasta ári tillögur að lagafrumvarpi um háskólastigið í heild. Er það tekið á almennum atriðum er varða þetta skólastig. Hef ég falið hópi þriggja manna að fara yfir þessar tillögur í því skyni að semja frumvarpstexta um málið.

Loks er mér ljúft að skýra frá því, að nefnd, sem unnið hefur að því að endurskoða lög um Tækniskóla Íslands, hefur lokið störfum sínum með skýrslu og tillögu að nýjum lögum. Frá því að skýrslan barst um miðjan síðasta mánuð hefur hún verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Tillögurnar eru meðal annars um að breyta stjórnkerfi Tækniskólans og um tengsl hans við atvinnulífið. Raunar átti ég þess kost að heimsækja skólann síðastliðinn sunnudag, þegar minnst var 10 ára afmælis rekstrardeildar hans. Blasti þar við, að skólinn starfar nú þegar í nánum tengslum við atvinnufyrirtæki. Tækniskólinn þarf eins og aðrar menntastofnanir að vera í stöðugri þróun, og miða hugmyndir að lagabreytingum að því að treysta forsendurnar fyrir því. Verður frumvarp um Tækniskólann flutt á Alþingi svo fljótt sem það hefur verið búið í endanlegan búning.

Að frumkvæði Verkfræðingafélags Íslands var í samvinnu við verkfræðideild ráðist í úttekt á kennslu í verkfræði við Háskóla Íslands og ABET-stofnunin bandaríska gerði hana á deildinni veturinn 1992-1993. Var vitnisburður góður en þó að sjálfsögðu bent á ýmislegt, sem mætti betur fara. Fyrir skömmu var birt niðurstaða úttektar á samevrópskum grunni á kennslu í byggingartæknifræði við Tækniskóla Íslands. Var niðurstaðan, sem var góð, kynnt á blaðamannafundi 13. nóvember síðastliðinn. Þar kemur fram, að æskilegt væri að styrkja stoðkerfi kennslunnar.

Það er ljóst, að hér á Íslandi sköpum við aldrei sömu aðstæður til að þróa tæknimenntun eða aðra æðri menntun og í stærri samfélögum. Finnst mér sjónarmið, sem hníga í þá átt að í íslensku háskóla- og vísindasamfélagi getum við skapað hér svipuð starfsskilyrði og í stærri þjóðfélögum, ekki eiga við nein rök að styðjast. Við eigum hins vegar að nýta þá kosti, sem við höfum og leggja áherslu á að þróa íslenska tækni- og verkmenntun, um leið og við leitum óhikað og markvisst eftir því besta hjá öðrum og tileinkum okkur það.

Í því skyni að treysta undirstöður æðri tæknimenntunar á Íslandi samþykkti ég að verða við tillögum Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands um að kannað yrði hvernig kennslu í verkfræði og tæknifræði á háskólastigi yrði best háttað og gerðar tillögur um samræmingu og samvinnu stofnana. Nefnd undir formennsku Þorsteins Helgasonar prófessors vinnur nú að þessu máli og er stefnt að því, að hún skili niðurstöðum fyrir 1. október 1996. Ég vænti mikils af störfum þessarar nefndar og vona að þau muni auka traust og trúnað milli Háskóla Íslands og Tækniskólans og þannig leiða til samvinnu, aukinnar skilvirkni og hagræðingar. Niðurstaðan ætti að auðvelda okkur að svara spurningunni: Verður Tækniháskóli Íslands að veruleika fyrir aldamót?

Góðir ráðstefnugestir!

Ég vona, að fundur ykkar hér í dag verði gagnlegur og marki í sjálfu sér merkan áfanga til að bæta tæknimenntun á Íslandi.